Áfram frjáls för Ólafur Þ. Stephensen skrifar 18. maí 2011 06:00 Frjáls för fólks á milli ríkja Evrópu er einn mikilvægasti ávinningur Evrópusamstarfsins. Hægt er að ferðast frá Bjargtöngum í vestri til Narvi í Eistlandi í austri án þess að standa í biðröð eftir vegabréfaskoðun. Svíinn, sem afgreiðir í búð í Kaupmannahöfn og talar við íslenzka viðskiptavini með skánskum hreim, sá ekki einu sinni landamæravörð við skiltið „Danmark" við Eyrarsundsbrúna þegar hann ók í vinnuna. Víða um Evrópu eru landamærin ekki annað en strik á korti. Með aðild Íslands að Schengen-samningnum um frjálsa för milli aðildarríkjanna hlaut Ísland hlutdeild í þessum ávinningi. Margvíslegir aðrir hagsmunir lágu þar að baki. Aðild að Schengen var til dæmis eina leiðin fyrir Ísland og Noreg til að varðveita norræna vegabréfasambandið, sem var og er stolt norræns samstarfs. Afnám vegabréfaeftirlits var þáttur í fjórfrelsinu, sem Ísland tekur þátt í í gegnum EES-samninginn, ferðaþjónustan leit á það sem sína hagsmuni að taka þátt og með aðildinni fékk Ísland aðgang að öflugu lögreglusamstarfi Evrópuríkja. Undanfarið hafa vaxandi efasemdir um ágæti samstarfsins komið fram á Schengen-svæðinu. Innbyrðis deilur Frakklands og Ítalíu um meðferð flóttamanna frá Norður-Afríku urðu til þess að leiðtogar ríkjanna kölluðu eftir því að heimildir Schengen-ríkja til að ákveða einhliða að taka upp tímabundið landamæraeftirlit yrðu rýmkaðar. Þær miðast nú við að alvarleg ógn steðji að öryggi viðkomandi ríkis og eftirlitið má ekki standa lengur en 30 daga í senn. Danska stjórnin sigldi í kjölfarið og ákvað að manna aftur skýli landamæravarða á landamærunum að Svíþjóð og Þýzkalandi og taka stikkprufur í vegabréfaeftirliti. Danir segja eftirlitið rúmast innan núverandi ákvæða Schengen en framkvæmdastjórn ESB hefur sínar efasemdir um það. Danir vísa fyrst og fremst til hættunnar af alþjóðlegum glæpaklíkum, sem hafi haslað sér völl í landinu. Flóttamannavandinn og alþjóðleg glæpastarfsemi eru vissulega vandamál, en þau verða ekki leyst með einhliða ákvörðunum ríkja um að taka upp landamæraeftirlit, heldur fremur með samstarfi þeirra um að ráðast að rótum vandans. Innanríkispólitískar ástæður liggja líka að baki í sumum löndum þar sem efasemdir eru um Schengen-samstarfið. Danska og ítalska ríkisstjórnin reiða sig á stuðning lýðskrumsflokka á hægri vængnum, sem eru andsnúnir útlendingum yfirleitt og Sarkozy Frakklandsforseti vill ekki tapa atkvæðum til Marine Le Pen. Og ef menn halda því fram að þátttaka í Schengen sé undirrót þess að alþjóðlegar glæpaklíkur nái fótfestu, ættu þeir kannski að horfa til Bretlands, sem stendur utan samstarfsins. Innanríkisráðherrar ESB-ríkjanna hafa nú samþykkt að efla úrræði sambandsins til að grípa til aðgerða til að aðstoða ríki á ytri landamærum sambandsins til að létta þrýstingi af innri landamærum. Jafnframt stendur til að rýmka heimildir einstakra ríkja til að grípa til tímabundinna aðgerða. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í Fréttablaðinu á laugardag að Ísland gæti tekið undir þessar niðurstöður og tal um úrsögn úr Schengen-samstarfinu væri ótímabært. Það er rétt afstaða. Það sem máli skiptir er að grípa til aðgerða sem duga gegn glæpastarfsemi og flóttamannavanda, án þess að það bitni á frjálsri för heiðarlegs fólks. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun
Frjáls för fólks á milli ríkja Evrópu er einn mikilvægasti ávinningur Evrópusamstarfsins. Hægt er að ferðast frá Bjargtöngum í vestri til Narvi í Eistlandi í austri án þess að standa í biðröð eftir vegabréfaskoðun. Svíinn, sem afgreiðir í búð í Kaupmannahöfn og talar við íslenzka viðskiptavini með skánskum hreim, sá ekki einu sinni landamæravörð við skiltið „Danmark" við Eyrarsundsbrúna þegar hann ók í vinnuna. Víða um Evrópu eru landamærin ekki annað en strik á korti. Með aðild Íslands að Schengen-samningnum um frjálsa för milli aðildarríkjanna hlaut Ísland hlutdeild í þessum ávinningi. Margvíslegir aðrir hagsmunir lágu þar að baki. Aðild að Schengen var til dæmis eina leiðin fyrir Ísland og Noreg til að varðveita norræna vegabréfasambandið, sem var og er stolt norræns samstarfs. Afnám vegabréfaeftirlits var þáttur í fjórfrelsinu, sem Ísland tekur þátt í í gegnum EES-samninginn, ferðaþjónustan leit á það sem sína hagsmuni að taka þátt og með aðildinni fékk Ísland aðgang að öflugu lögreglusamstarfi Evrópuríkja. Undanfarið hafa vaxandi efasemdir um ágæti samstarfsins komið fram á Schengen-svæðinu. Innbyrðis deilur Frakklands og Ítalíu um meðferð flóttamanna frá Norður-Afríku urðu til þess að leiðtogar ríkjanna kölluðu eftir því að heimildir Schengen-ríkja til að ákveða einhliða að taka upp tímabundið landamæraeftirlit yrðu rýmkaðar. Þær miðast nú við að alvarleg ógn steðji að öryggi viðkomandi ríkis og eftirlitið má ekki standa lengur en 30 daga í senn. Danska stjórnin sigldi í kjölfarið og ákvað að manna aftur skýli landamæravarða á landamærunum að Svíþjóð og Þýzkalandi og taka stikkprufur í vegabréfaeftirliti. Danir segja eftirlitið rúmast innan núverandi ákvæða Schengen en framkvæmdastjórn ESB hefur sínar efasemdir um það. Danir vísa fyrst og fremst til hættunnar af alþjóðlegum glæpaklíkum, sem hafi haslað sér völl í landinu. Flóttamannavandinn og alþjóðleg glæpastarfsemi eru vissulega vandamál, en þau verða ekki leyst með einhliða ákvörðunum ríkja um að taka upp landamæraeftirlit, heldur fremur með samstarfi þeirra um að ráðast að rótum vandans. Innanríkispólitískar ástæður liggja líka að baki í sumum löndum þar sem efasemdir eru um Schengen-samstarfið. Danska og ítalska ríkisstjórnin reiða sig á stuðning lýðskrumsflokka á hægri vængnum, sem eru andsnúnir útlendingum yfirleitt og Sarkozy Frakklandsforseti vill ekki tapa atkvæðum til Marine Le Pen. Og ef menn halda því fram að þátttaka í Schengen sé undirrót þess að alþjóðlegar glæpaklíkur nái fótfestu, ættu þeir kannski að horfa til Bretlands, sem stendur utan samstarfsins. Innanríkisráðherrar ESB-ríkjanna hafa nú samþykkt að efla úrræði sambandsins til að grípa til aðgerða til að aðstoða ríki á ytri landamærum sambandsins til að létta þrýstingi af innri landamærum. Jafnframt stendur til að rýmka heimildir einstakra ríkja til að grípa til tímabundinna aðgerða. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í Fréttablaðinu á laugardag að Ísland gæti tekið undir þessar niðurstöður og tal um úrsögn úr Schengen-samstarfinu væri ótímabært. Það er rétt afstaða. Það sem máli skiptir er að grípa til aðgerða sem duga gegn glæpastarfsemi og flóttamannavanda, án þess að það bitni á frjálsri för heiðarlegs fólks.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun