Bakþankar

Berndskir leikhústöfrar

Gerður Kristný skrifar
Ekki man ég eftir því að söfn hafi verið jafnskemmtileg þegar ég var krakki og þau eru nú. Það mátti ekkert snerta og síst af öllu leika sér með neitt. Þótt vissulega sé enn ætlast til þess að safngestir virði sýningarmuni má til dæmis bregða sér í búninga og handleika sverð á Minjasafninu á Akureyri og á Smámunasafninu í Eyjafirði er sérstakt dótahorn fyrir krakka sem sýna uppröðun blýantsstubba takmarkaðan áhuga. Eitt nýjasta safnið hér á landi eru Brúðuheimar í Borgarnesi sem þýski brúðugerðarmeistarinn Bernd Ogrodnik stendur á bak við og þar er eins gott að hafa tímann fyrir sér, enda nóg að sjá.

Þarna getur til dæmis að líta brúðumyndina „Strings" sem Bernd vann við auk þess sem hægt er að sjá brúður sem hann hefur gert fyrir leikhús. Ég hitti til að mynda Einar Áskel sem Bernd sýndi í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu fyrir fáeinum árum og litla ljóta andarungann úr unaðssýningunni Klaufum og kóngsdætrum sem sýnd var á Stóra sviði sama leikhúss. Síðan mega gestir auðvitað spreyta sig í brúðuleik en skemmtilegast er þó að horfa á fagmanninn sjálfan að verki og nú sýnir Bernd ævintýrið um Gilitrutt í leikstjórn Benedikts Erlingssonar.

Sýningin fékk Grímuverðlaunin nú í ár sem besta barnasýningin og það er engin tilviljun þótt ekki væri nema vegna þess hve oddaflug álftanna sem svífa yfir sveitina er fallegt. Sonur minn, sex ára, hallaði sér heillaður að mér í myrkrinu og hvíslaði: „Hvernig gerir hann þetta?" Þarna voru ekta leikhústöfrar á ferðinni og þá er best að vita ekki of mikið, heldur bara njóta. Leikhúsgestir fengu líka að hjálpa til við leitir því fé hafði dreifst um salinn.

Í júní sl. var íslensk menningarhátíð haldin í Köln, heimaborg Bernds. Ekki aðeins voru íslenskir rithöfundar sendir þangað að lesa upp, heldur líka sjálf Gilitrutt. Þess vegna var ég svo heppin að fá að sjá sýninguna aftur. Þýskir áhorfendur skemmtu sér hið besta og þeim fannst alveg jafngaman og okkur Íslendingum að leika fjárhóp og fá að jarma hver í kapp við annan. Jarm íslenskra áhorfenda rann saman við jarm Þjóðverjanna, enda segja þýskar kindur „me" eins og þær íslensku. Það mátti heyra fjöður falla þegar kom að oddafluginu. Leggið leið ykkar í Brúðuheima. Bernskan er suður í Borgarfirði.






×