Bakþankar

Einræðistrúðar

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Sennilega má slá því föstu að valdatíð Muammar al-Gaddafi í Líbíu sé á enda runnin. Uppreisnarmönnum hefur að vísu ekki tekist að hafa hendur í hári hans en þess virðist ekki lengi að bíða. Uppreisnarmennirnir í Líbíu hafa náð tökum á húsakynnum hans og birti Sky-fréttastofan á fimmtudag viðtal við skælbrosandi uppreisnarmann sem hafði lagt hald á hatt og veldissprota einræðisherrans. Uppreisnarmaðurinn hugðist gefa föður sínum hattinn. Enn forvitnilegri var þó annar fundur í húsinu; myndaalbúm fullt af myndum af Condoleezzu Rice, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ekki hefur komið fram hvað eiginkonu Gaddafís fannst um albúmið.

Einræðisherrar sögunnar hafa vitaskuld kallað ómældar hörmungar yfir þegna sína. Það þýðir hins vegar ekki að það megi ekki kætast yfir vitleysunni í þeim. Það virðist nefnilega fara ansi einkennilega með fólk að gegna starfi einræðisherra. Kannski hefur það líka eitthvað að gera með þá manngerð sem á annað borð sækir í það starf.

Margir muna ef til vill eftir Saparmurat Niyazov sem varð Túrkmenum mikill harmdauði þegar hann féll frá árið 2006. Niyazov kallaði sig Túrkmenbasa, föður allra Túrkmena, og ríkti eftir duttlungum frá því að Sovétríkin liðuðust í sundur. Túrkmenbasi lagði sína valdatíð mesta áherslu á að auka lífskjör þegna sinna. Með það fyrir augum beitti hann sér fyrir þjóðþrifamálum á borð við að reisa risastóra íshöll í eldheitri eyðimörk Túrkmenistans og að banna allar klukkur og úr sem ekki báru andlit hans. Svo nefndi hann brauð upp á nýtt eftir móður sinni. Hann dreymdi að því er virðist um að fæða fátæka Túrkmena með holdi móður sinnar.

Um ástkæran leiðtoga Norður-Kóreubúa, Kim Jong-il, þarf ekki að fjölyrða, enda er hann enn í fullu fjöri. Öllu lengra er síðan Mobutu Sese-Seko skemmti íbúum Austur-Kongó. Hann batt svo um hnútana að sjónvarpsfréttatímar hæfust á myndskeiði af honum að stíga niður af himnum. Þá mátti heldur ekki nefna neinn annan á nafn í fréttunum.

Engu síðri var mannvinurinn Jean-Bédel Bokassa sem krýndi sjálfan sig keisara Mið-Afríkulýðveldisins árið 1976. Að sjálfsögðu mátti ekkert til spara við krýninguna, sem kostaði þriðjung af útgjöldum ríkisins það árið. Til að lýsa stjórnartíð hans fundu stjórnmálafræðingar upp nýyrðiðkleptocracy, þjófræði. Við Íslendingar ættum kannski að hugsa út í það næst þegar við kvörtum undan íslenska stjórnkerfinu.






×