Hundsúrar húsmæður Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 15. september 2011 06:00 Börnum þykja feður sínir skemmtilegri en mæður sínar. Þetta er niðurstaða danskrar könnunar sem ég las um hér í blaðinu um daginn. Niðurstöðurnar komu mér ekki beinlínis á óvart. Þær eru í samræmi við það lífseiga lögmál að velferð fjölskyldulífsins sé á ábyrgð móðurinnar, og þá gömlu lummu að stúlkur séu ábyrgðarfullar og drengir þurfi þess ekki. Ég hef löngum öfundað stráka af frelsi hins ábyrgðarlausa og það súrnaði í mér. Fyrir mörgum árum horfði ég á einhvers konar forvarnarauglýsingu varðandi ótímabærar þunganir. Í henni var reynt að koma því til skila til unga fólksins að það að eignast barn væri ekki einfalt mál. Gengið var út frá því að stúlkur væru ábyrgðarfullar en strákar ekki, en myndbrotið sem átti að höfða til stelpnanna sýndi samviskusama stúlku fletta í námsbókum meðan þulurinn sagði fæðingu barns setja strik í framtíðarplönin. Myndbrotið sem átti að höfða til drengjanna sýndi hóp stráka skellihlæjandi að ýta bíl í gang og fagna ógurlega þegar það tókst. Þulurinn sagði fæðingu barns setja strik í félagslífið. Ég man hvað ég varð súr er ég horfði á þetta. Í amerískum viðtalsþætti þar sem viðkvæm mál eru gjarnan krufin til mergjar sat mjög ungt par eitt sinn fyrir svörum um samlíf sitt og mögulegar afleiðingar þess. Stúlkan bar þó ein hitann og þungann af umræðunni, því ef strákurinn var spurður hvað hann myndi gera, til dæmis ef barn kæmi undir, sagði hann einfaldlega: „Það sem hún vill gera!“ Svar hans var tekið gott og gilt og hljóðnemanum beint að stúlkunni, sem rjóð í kinnum svaraði spurningum um fóstureyðingar, ættleiðingar, barnauppeldi og fjármál. Það þótti mér súrt. Óteljandi sjónvarpsþættir hafa verið gerðir um fjölskyldulífið sem byggjast á formúlunni um hundsúru húsmóðurina sem skammast í karli og krökkum við að halda heimilinu gangandi. Við þekkjum þetta vel. Hver kannast ekki sjálfur við að hafa treyst á mömmu sína um hrein föt og mat í maga, að hún vissi um alla hluti og tekið rexi hennar um slæma umgengni sem sjálfsögðum hlut. Svo sjálfsögðum að óþarft væri að bregðast við. Ég móðgaðist fyrir hönd allra mæðra þegar ég las um þessa könnun og ákvað að hún skyldi ekki eiga við um mig, sneri mér hundsúr að þvottakörfunni og barði saman plöggin. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Börnum þykja feður sínir skemmtilegri en mæður sínar. Þetta er niðurstaða danskrar könnunar sem ég las um hér í blaðinu um daginn. Niðurstöðurnar komu mér ekki beinlínis á óvart. Þær eru í samræmi við það lífseiga lögmál að velferð fjölskyldulífsins sé á ábyrgð móðurinnar, og þá gömlu lummu að stúlkur séu ábyrgðarfullar og drengir þurfi þess ekki. Ég hef löngum öfundað stráka af frelsi hins ábyrgðarlausa og það súrnaði í mér. Fyrir mörgum árum horfði ég á einhvers konar forvarnarauglýsingu varðandi ótímabærar þunganir. Í henni var reynt að koma því til skila til unga fólksins að það að eignast barn væri ekki einfalt mál. Gengið var út frá því að stúlkur væru ábyrgðarfullar en strákar ekki, en myndbrotið sem átti að höfða til stelpnanna sýndi samviskusama stúlku fletta í námsbókum meðan þulurinn sagði fæðingu barns setja strik í framtíðarplönin. Myndbrotið sem átti að höfða til drengjanna sýndi hóp stráka skellihlæjandi að ýta bíl í gang og fagna ógurlega þegar það tókst. Þulurinn sagði fæðingu barns setja strik í félagslífið. Ég man hvað ég varð súr er ég horfði á þetta. Í amerískum viðtalsþætti þar sem viðkvæm mál eru gjarnan krufin til mergjar sat mjög ungt par eitt sinn fyrir svörum um samlíf sitt og mögulegar afleiðingar þess. Stúlkan bar þó ein hitann og þungann af umræðunni, því ef strákurinn var spurður hvað hann myndi gera, til dæmis ef barn kæmi undir, sagði hann einfaldlega: „Það sem hún vill gera!“ Svar hans var tekið gott og gilt og hljóðnemanum beint að stúlkunni, sem rjóð í kinnum svaraði spurningum um fóstureyðingar, ættleiðingar, barnauppeldi og fjármál. Það þótti mér súrt. Óteljandi sjónvarpsþættir hafa verið gerðir um fjölskyldulífið sem byggjast á formúlunni um hundsúru húsmóðurina sem skammast í karli og krökkum við að halda heimilinu gangandi. Við þekkjum þetta vel. Hver kannast ekki sjálfur við að hafa treyst á mömmu sína um hrein föt og mat í maga, að hún vissi um alla hluti og tekið rexi hennar um slæma umgengni sem sjálfsögðum hlut. Svo sjálfsögðum að óþarft væri að bregðast við. Ég móðgaðist fyrir hönd allra mæðra þegar ég las um þessa könnun og ákvað að hún skyldi ekki eiga við um mig, sneri mér hundsúr að þvottakörfunni og barði saman plöggin.