Óbyggðastefna Pawel Bartoszek skrifar 7. október 2011 06:00 Það er ekki langt til Patreksfjarðar, ekki ef farið er frá Patreksfirði. Jörðin er kúla. Allir staðir á yfirborðinu eru stutt frá sjálfum sér en mislangt frá öðrum. En þegar ein mikilvægasta tala sem notuð er til að lýsa bæjum er fjarlægð þeirra frá einhverjum öðrum bæ segir það sína sögu. Það er stundum eftirsjá eftir þeim peningum sem fara í vegaframkvæmdir úti á landi. Ekki vegna þess að þeirra sé aldrei þörf eða að krafan um að komast í næsta bæ á malbikuðu undirlagi, og án þess að fara yfir heiði, sé fáránleg. Eftirsjáin stafar síðan alls ekki af því að fénu væri betur varið í að stytta fjarlægðir milli hverfa Reykjavíkur. Nei, eftirsjáin stafar af því að landsbyggðin gæti nýtt peningana betur með öðrum hætti. Sú mikla áhersla sem lögð er á samgöngumál í íslenskri pólitík er hinum dreifðu byggðum skaðleg. Væri ég íbúi á landsbyggðinni hefði ég margfalt meiri áhyggjur af meðaltölum samræmdra prófa en fjarlægðum og færð. Önnur deildNemendur utan höfuðborgarsvæðisins koma ítrekað verr út úr PISA-könnunum og samræmdum könnunarprófum. Í samræmdu prófununum í ensku í fyrra voru nemendur af suðvesturhorninu með meðaleinkunn nálægt 7,3 en hinir með í kringum 6,7. Munurinn var svipaður í stærðfræði en minna munaði í íslensku. Þetta er áhyggjuefni. Menntun hefur áhrif á afar marga þætti í lífi fólks. Þessar niðurstöður þýða sem sagt meðal annars að börn sem fæðast á landsbyggðinni geta átt von á því að fá verri vinnu, lægri laun og jafnvel að lifa skemur en börn af höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki gott. Bara eitt dæmi um hverjar áherslur í pólitíkinni eru: Vestmannaeyjar hafa á undanförnum árum skorað lágt þegar kemur að árangri barna í samræmdum könnunum. Hvað höfum við samt heyrt mikið af því samanborið við þá gnótt frétta af því hvert Herjólfur sé að fara að sigla næstu daga? Væri ég Eyjamaður teldi ég margfalt brýnna að ræða við menntamálaráðherra um aukin framlög til grunnskóla í Eyjum heldur en ráðherra samgöngumála um höfn eða göng sem koma aldrei. Stutt frá einhverju betra?Auðvitað skipta góðar samgöngur máli. En þegar góðar samgöngur eru orðnar sterkasti kostur staðar er í raun verið að segja: „Staðurinn sjálfur er ekkert spes en það má auðveldlega komast frá honum í annan stað sem er skárri.“ Og þá fara menn að spyrja sig: „Væri þá ekki einfaldara að flytja bara á þann stað?“ Þeirri spurningu hafa tugþúsundir Íslendinga þegar svarað. Hefði byggðamynstrið haldist óbreytt frá 1911 til 2011 og fólki fjölgað jafnt og þétt alls staðar á landinu, byggju í dag um 60 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu. Á Vestfjörðum byggju 50 þúsund íbúar. Raunveruleikann þekkja allir. Hafi verið rekin einhver byggðastefna hér á landi er þetta sá ávöxtur sem hún hefur borið. Keppt um hvað?Þetta er auðvitað spurning um hverju menn eiga að keppa í. Augljóslega getur enginn ógnað Reykjavík í keppninni „nálægð við Reykjavík“. En menn eiga að geta keppt í gæðum menntunar og þurfa auðvitað að gera það ef einhver von á að vera til að fólk flytjist í einhverjum mæli aftur út á land. Flestir foreldrar geta svarað því hvort þeir væru líklegir til að flytja búferlum ef þau vissu að grunnskólinn á nýja staðnum væri „frekar slappur“. Lausnirnar við vanda skólakerfisins á landsbyggðinni eru auðvitað ekkert flóknar. Það er erfiðara fyrir þá skóla að manna stöður sínar. Fyrst það er erfiðara að manna skóla á sumum stöðum ætti að borga fólki meira fyrir að kenna á þeim stöðum. Heimild fyrir slíkri sérlausn og fjármögnun hennar ætti að vera baráttumál allra þeirra stjórnmálamanna sem sannarlega láta sig hag landsbyggðarinnar varða. Skólakerfið á nefnilega að tryggja jafnan rétt nemenda til jafngóðs náms, en ekki jafnan rétt kennara til jafnhárra launa eins og sumir virðast halda. Það er svo önnur spurning hvort einhver er líklegur til að þora í þann slag. En slagurinn er nauðsynlegur. Án góðra grunnskóla mun landsbyggðinni halda áfram að blæða út. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pawel Bartoszek Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Það er ekki langt til Patreksfjarðar, ekki ef farið er frá Patreksfirði. Jörðin er kúla. Allir staðir á yfirborðinu eru stutt frá sjálfum sér en mislangt frá öðrum. En þegar ein mikilvægasta tala sem notuð er til að lýsa bæjum er fjarlægð þeirra frá einhverjum öðrum bæ segir það sína sögu. Það er stundum eftirsjá eftir þeim peningum sem fara í vegaframkvæmdir úti á landi. Ekki vegna þess að þeirra sé aldrei þörf eða að krafan um að komast í næsta bæ á malbikuðu undirlagi, og án þess að fara yfir heiði, sé fáránleg. Eftirsjáin stafar síðan alls ekki af því að fénu væri betur varið í að stytta fjarlægðir milli hverfa Reykjavíkur. Nei, eftirsjáin stafar af því að landsbyggðin gæti nýtt peningana betur með öðrum hætti. Sú mikla áhersla sem lögð er á samgöngumál í íslenskri pólitík er hinum dreifðu byggðum skaðleg. Væri ég íbúi á landsbyggðinni hefði ég margfalt meiri áhyggjur af meðaltölum samræmdra prófa en fjarlægðum og færð. Önnur deildNemendur utan höfuðborgarsvæðisins koma ítrekað verr út úr PISA-könnunum og samræmdum könnunarprófum. Í samræmdu prófununum í ensku í fyrra voru nemendur af suðvesturhorninu með meðaleinkunn nálægt 7,3 en hinir með í kringum 6,7. Munurinn var svipaður í stærðfræði en minna munaði í íslensku. Þetta er áhyggjuefni. Menntun hefur áhrif á afar marga þætti í lífi fólks. Þessar niðurstöður þýða sem sagt meðal annars að börn sem fæðast á landsbyggðinni geta átt von á því að fá verri vinnu, lægri laun og jafnvel að lifa skemur en börn af höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki gott. Bara eitt dæmi um hverjar áherslur í pólitíkinni eru: Vestmannaeyjar hafa á undanförnum árum skorað lágt þegar kemur að árangri barna í samræmdum könnunum. Hvað höfum við samt heyrt mikið af því samanborið við þá gnótt frétta af því hvert Herjólfur sé að fara að sigla næstu daga? Væri ég Eyjamaður teldi ég margfalt brýnna að ræða við menntamálaráðherra um aukin framlög til grunnskóla í Eyjum heldur en ráðherra samgöngumála um höfn eða göng sem koma aldrei. Stutt frá einhverju betra?Auðvitað skipta góðar samgöngur máli. En þegar góðar samgöngur eru orðnar sterkasti kostur staðar er í raun verið að segja: „Staðurinn sjálfur er ekkert spes en það má auðveldlega komast frá honum í annan stað sem er skárri.“ Og þá fara menn að spyrja sig: „Væri þá ekki einfaldara að flytja bara á þann stað?“ Þeirri spurningu hafa tugþúsundir Íslendinga þegar svarað. Hefði byggðamynstrið haldist óbreytt frá 1911 til 2011 og fólki fjölgað jafnt og þétt alls staðar á landinu, byggju í dag um 60 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu. Á Vestfjörðum byggju 50 þúsund íbúar. Raunveruleikann þekkja allir. Hafi verið rekin einhver byggðastefna hér á landi er þetta sá ávöxtur sem hún hefur borið. Keppt um hvað?Þetta er auðvitað spurning um hverju menn eiga að keppa í. Augljóslega getur enginn ógnað Reykjavík í keppninni „nálægð við Reykjavík“. En menn eiga að geta keppt í gæðum menntunar og þurfa auðvitað að gera það ef einhver von á að vera til að fólk flytjist í einhverjum mæli aftur út á land. Flestir foreldrar geta svarað því hvort þeir væru líklegir til að flytja búferlum ef þau vissu að grunnskólinn á nýja staðnum væri „frekar slappur“. Lausnirnar við vanda skólakerfisins á landsbyggðinni eru auðvitað ekkert flóknar. Það er erfiðara fyrir þá skóla að manna stöður sínar. Fyrst það er erfiðara að manna skóla á sumum stöðum ætti að borga fólki meira fyrir að kenna á þeim stöðum. Heimild fyrir slíkri sérlausn og fjármögnun hennar ætti að vera baráttumál allra þeirra stjórnmálamanna sem sannarlega láta sig hag landsbyggðarinnar varða. Skólakerfið á nefnilega að tryggja jafnan rétt nemenda til jafngóðs náms, en ekki jafnan rétt kennara til jafnhárra launa eins og sumir virðast halda. Það er svo önnur spurning hvort einhver er líklegur til að þora í þann slag. En slagurinn er nauðsynlegur. Án góðra grunnskóla mun landsbyggðinni halda áfram að blæða út.