Innlent

Teigsskógur og Hálsaleið ekki gerleg

Þrír milljarðar króna fara á næstu þremur árum í framkvæmdir við hluta Vestfjarðavegar.
Þrír milljarðar króna fara á næstu þremur árum í framkvæmdir við hluta Vestfjarðavegar. fréttablaðið/pjetur
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að lagning Vestfjarðavegar um Teigsskóg sé ekki á borðinu. Það muni skapa miklar deilur og málssóknir sem líklegt sé að tapist fyrir dómsstólum. Þá verði svokölluð Hálsaleið ekki farin, enda séu heimamenn mótfallnir henni.

Þetta kom fram á Alþingi í gær, en þá fór fram sérstök umræða um málið að undirlagi Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi. Eyrún sagði láglendisleið einu boðlegu lausnina á vegavanda svæðisins. Hún benti á að þéttbýlisstaðirnir á sunnanverðum Vestfjörðum væru þeir einu á landinu þar sem þjóðvegir til þeirra væru ekki lagðir bundnu slitlagi. Hún spurði ráðherra að því hvort hann mundi beita sér fyrir því að láglendisleið yrði valin.

Ögmundur sagði alla kosti láglendisleiðar vera til skoðunar hjá Vegagerðinni, utan vegar um Teigsskóg. Ráðherra nefndi þrjár leiðir; að bora göng í gegnum Hjallaháls, þverun Þorskafjarðar og veg úr Reykhólasveit í Skálanes. Síðastnefnda leiðin kostar um 13 milljarða samkvæmt ráðherra, en hann vill halda öllum möguleikum opnum.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×