Menning

Segir jóga hafa góð áhrif á vinnuna

Daði Guðbjörnsson.
Daði Guðbjörnsson.
Sýning með nýjum málverkum Daða Guðbjörnssonar opnar á Kjarvalsstöðum á morgun klukkan fjögur. Daði sótti innblástur í Ódysseifskviðu Hómers við gerð verkanna.

„Ég varð mjög hrifinn af því verki þegar ég var að lesa það. Fannst svo spennandi hvað Ódysseifur var týndur lengi á þessu litla svæði, sem bendir til þess að það sé einhver innbyggður villubúnaður í okkur mönnunum, þó að við séum gjörn á það að kenna umhverfinu um villurnar," segir Daði sem sér samsvörun í villum Ódysseifs og Íslendinga í góðærinu.

„Svo ratar Ódysseifur vissulega heim en þarf þar að kljást við fólk sem er að reyna að komast yfir eigur hans. Þetta má líka heimfæra upp á Ísland og ástandið hér í dag," segir Daði sem leggur áherslu á að málverkin séu eingöngu innblásin af kviðu Hómers, ekki sé um myndskreytingu að ræða.

Daði hefur um árabil lagt stund á Sahajayoga, sem er hugleiðsluyoga. „Sahajayoga hefur haft góð áhrif á sköpunina hjá mér, vinnuna og andlega líðan," segir Daði en vísað er beint eða óbeint til þessarar hugleiðslu og andlegrar upplifunar listamannsins í nokkrum verkum sýningarinnar.

Leiðin til hjartans. Verk eftir Daða frá árinu 2008 sem sjá má á sýningunni.
Í tilefni af opnun sýningarinnar Daða gefur Opna út bók um listamanninn ríkulega skreytta myndum og með texta eftir Rögnu Sigurðardóttur rithöfund og listgagnrýnanda.

Sýningin stendur til 30. desember. -sbt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×