Sport

Settu saman 55 met á árinu 2011

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Margeir Sverrisson úr Ösp/Fjölni og Kolbrún Alda Stefánsdóttir úr Firði/SH.
Jón Margeir Sverrisson úr Ösp/Fjölni og Kolbrún Alda Stefánsdóttir úr Firði/SH. Mynd/Jón Björn Ólafsson
Íþróttasamband fatlaðra valdi þau Jón Margeir Sverrisson úr Ösp/Fjölni og Kolbrúnu Öldu Stefánsdóttur úr Firði/SH íþróttafólk ársins 2011 og fengu þau verðlaunin afhent við viðhöfn í síðustu viku. Jón og Kolbrún synda bæði í flokki S14, flokki þroskahamlaðra. Þetta er annað árið í röð sem Jón Margeir hlýtur nafnbótina íþróttamaður ársins en fyrsta sinn hjá Kolbrúnu.

Bæði Jón og Kolbrún eiga glæsilegt ár að baki í sundlauginni, Jón setti fjögur heimsmet og 41 Íslandsmet og Kolbrún setti 10 Íslandsmet. Fram undan hjá þessu öfluga íþróttafólki er undirbúningur og keppni þar sem allir horfa nú til Ólympíumóts fatlaðra sem fram fer í London á næsta ári.

Jón Margeir setti eins og áður sagði fjögur heimsmet á árinu. Það fyrsta kom á opna þýska meistaramótinu þegar hann synti 800 metra skriðsund á á 9:07,25 mínútum. Hann setti sitt annað heimsmet í Vatnaveröld í Reykjanesbæ á bikarmóti ÍF í 25 metra laug þegar hann synti 200 metra skriðsund á 2.00,74 mínútum.

Jón setti síðan tvö ný heimsmet á Extra-Stórmóti SH í lok október. Hann synti þá 1.500 metra skriðsund á 16:47,98 mínútum og setti líka heimsmet með því að synda fyrstu 800 metrana á 8:55,89 mínútum.

Kolbrún Alda byrjaði árið á því að fá sjómannabikarinn eftirsótta þegar hún vann besta afrekið á Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga. Hún er nú handhafi 10 Íslandsmeta í sjö greinum auk þess að vera bikarmeistari og margfaldur Íslandsmeistari árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×