Sport

Allt okkar besta frjálsíþróttafólk með í bikarnum um næstu helgi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óðinn Björn Þorsteinsson
Óðinn Björn Þorsteinsson Mynd/Anton

Fimmta bikarkeppnin í frjálsum íþróttum innanhúss fer fram í Laugardalshöllinni á laugardaginn og næstum því allt okkar besta frjálsíþróttafólk mætir til leiks að þessu sinni.

Meðal keppenda má nefna Norðurlandameistara unglinga síðasta árs: Stefáníu Valdimarsdóttur Breiðabliki og Örnu Stefaníu Guðmundsddóttur ÍR.

Einnig mæta til leiks Ármenningarnir Ásdís Hjálmsdóttir og Helga Margrét Þorsteinsdóttir sem og FH-ingurinn Óðinn Björn Þorsteinsson. Óðinn hefur náð hefur lágmarki ú kúluvarpi á EM innanhúss í París í byrjun næsta mánaðar.

Þorsteinn Ingvarsson úr HSÞ og Kristinn Torfason úr FH munu reyna við lámörk fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í París, Þorsteinn í langstökki og og Kristinn í þrístökki. Einnig mun ÍR-ingurinn Kristín Birna Ólafsdóttir eiga möguleika á að ná lágmarki í 60 m grindarhlaupi.

Þau sjö lið sem mæta eru: Breiðablik, FH, Fjölnir/Ármann, HSK, ÍR-A lið, ÍR-B lið og Norðurland, en það er sameiginlegt lið UMSS, UMSE, UFA og HSÞ.

Óneitanlega er A sveit ÍR sterkust á pappírunum a.m.k. en ljóst er að karlasveit FH mun veita kollegum sínum úr ÍR harða keppni. Miðað við skráningar liða má búast við góðri og spennandi keppni og þó að ÍR hafi sigrað tvö undanfarin ár í keppninni er ljóst að önnur lið ætla ekki að gefa neitt eftir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×