Viðskipti innlent

Forstjóri Icelandair segir Inspired by Iceland hafa skipt sköpum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að markaðsherferðin Inspired by Iceland, sem ráðst var í eftir að gosinu í Eyjafallajökli lauk, hafi skipt sköpum til að rétta af ferðamannaiðnaðinn eftir áfallið sem dundi yfir með gosinu. Hann segir að hrun hafi blasað við í bókunum á ferðum til Íslands áður en ráðist var í herferðina og hrósar ríkisstjórninni fyrir að taka vel á málinu.

Þetta kom fram í viðtali við Björgólf í nýjasta þættinum af Klinkinu.

„Það var skelfileg staða þegar þetta var að ganga yfir, en við fórum heldur betur á kortið og sem betur fer var farið af stað í beinu framhaldi í töluvert mikla markaðssókn (Inspired by Iceland) sem ég held að hafi skilað gríðarlega miklu. Það er mjög erfitt að mæla það í krónum, en ég held að við getum klárlega sagt að það blasti við hrun í bókunum og fleiru eftir að gosinu lauk, upp úr 20. maí 2010, við urðum að keyra svona í gang. Og ég held að þessi herferð hafi bjargað rosalega miklu og ríkisstjórnin á mikið hrós skilið fyrir það. Þetta skipti algjörlega sköpum að mínu mati," segir Björgólfur.

Björgólfur Jóhannsson var gestur okkar í nýjasta þættinum af Klinkinu.
Sjá má klippu úr Klinkinu hér að ofan þar sem Björgólfur ræðir afleiðingar gossins í Eyjafjallajökli og jákvæð áhrif markaðsherferðar sem ráðist var í í kjölfar gossins. Sjá má nýjasta þáttinn af Klinkinu í heild sinni hér.

thorbjorn@stod2.is



Tengdar fréttir

Tapa alltaf á fyrsta og fjórða í skjóli tekna sumarsins

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að Icelandair tapi nær alltaf á fyrsta og fjórða ársfjórðungi, vetrarflugið sé þannig. Hins vegar borgi það sig að vera með öfluga starfsemi yfir veturinn því það skili sér margfalt yfir sumartímann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×