Vöðum í djúpri reggítjörn Kjartan Guðmundsson skrifar 22. apríl 2012 22:30 Þau Arnljótur, Valgerður, Gylfi og Unnur Malín fengu listrænt uppeldi, voru öll í Skólahljómsveit Vesturbæjar og útskrifuðust af myndlistarbraut í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Mynd/Stefán Systkinin Unnur Malín, Arnljótur, Gylfi Freeland og Valgerður Freeland eru öll í reggísveitinni Ojba Rasta sem flytur Baldursbrá, eitt vinsælasta lag landsins. Kjartan Guðmundsson ræddi við þau um listrænt uppeldi í Vesturbænum og reggíbarnið Unnstein. „Þetta hefur verið dálítið langt og hægt ferli. Það má eiginlega segja að við séum eins og risaskjaldbaka," segir Arnljótur Sigurðsson, bassaleikari, söngvari, og einn lagahöfunda reggísveitarinnar Ojba Rasta, en sveitin á eitt allra vinsælasta lag landsins um þessar mundir, Baldursbrá, sem situr meðal annars í efsta sæti á vinsældalista Rásar 2. Alls eru meðlimir sveitarinnar ellefu og þar með talin þrjú systkini Arnljóts: Unnur Malín (kölluð Malla), sem leikur á barítónhorn, trommarinn Gylfi Freeland og Valgerður Freeland, sem spilar á klarínett. Arnljótur, 24 ára, og Gylfi, 21 árs, voru meðal stofnmeðlima Ojba Rasta árið 2009 en eftir nokkrar breytingar gengu Unnur Malín og Valgerður (28 ára og 19 ára) til liðs við sveitina í febrúar 2010 og hefur hún starfað með þeirri liðskipan síðan. Bandið er nú langt komið með gerð fyrstu breiðskífu sinnar og er stefnan sett á útgáfu fyrir eiginlega sumarkomu. „Þessi plata verður að koma út fyrir sumarið, enda spilum við sólartónlist," segir Unnur Malín.Áhrifin koma víða að Þessi útsprungna afurð íslenskrar reggíflóru hefur leikið á fjölda tónleika frá stofnun fyrir þremur árum (og nokkrir meðlima hennar aðstoðuðu meðal annars sjálfa Fræbbblana við flutning gömlu ska-perlunnar A Message To You, Rudy á Menningarnótt á síðasta ári), en það fyrsta sem heyrðist til Ojba Rasta á öldum ljósvakans var lagið Jolly Good, fullskapaður og döbbþungur reggíbolti að jamaískri fyrirmynd sem náði miklum vinsældum síðasta sumar og fyllti marga tónlistaraðdáendur eftirvæntingu. Baldursbráin fylgdi í kjölfarið fyrir nokkrum vikum og klóraði sig alla leið á toppinn, en í því lagi kveður við nokkuð annan tón þótt reggíið sé sem fyrr í forgrunni. „Áhrifavaldarnir eru hvaðanæva að," segir Arnljótur, aðallagahöfundur þótt lokaútkoma laganna verði ávallt til í mikilli samvinnu allra meðlima sveitarinnar. Unnur Malín samsinnir því. „Fyrir utan reggíið vísum við í margar tegundir heimstónlistar, til dæmis sígaunatónlist, og ekki síður íslenskan þjóðlagaarf eins og heyrist í Baldursbrá. Mamma okkar er hagyrðingur og meðlimur í Kvæðamannafélaginu Iðunni, sem hefur skilað sér í uppeldinu. Hún hefur kennt okkur margar rímur og Arnljótur skellti sér á þjóðlagahátíð hjá móðursystur okkar á Siglufirði sem unglingur og féll algjörlega í stafi, fór á námskeið í rímnakveðskap og allt," útskýrir Unnur Malín. Arnljótur segir systkinin öll hafa gaman af tónlist frá flestum heimshornum og hafi auk þess alla tíð hlustað mikið saman á tónlist. „Eftir því sem við hlustum meira streyma áhrifin inn í blóðið. Oft er erfitt að greina nákvæmlega hvaðan áhrifin eru, en þau eru vissulega til staðar."Fjölbreytnin í reggí-tónlistinni En hvernig kom svo til að íslensk ungmenni ákváðu að einbeita sér að reggítónlistinni? „Reggígrúppurnar hér eru reyndar fleiri en marga grunar og sífellt bætist í hópinn," segir Gylfi og vísar þar meðal annars til Hjálma, sem hafa verið óþrjótandi við að breiða út íslenskan reggíboðskap í hartnær áratug og Amaba Dama, sveitar sem leidd er af Magnúsi Jónssyni, eða Gnúsa Yones, en fyrsta plata Ojba Rasta er einmitt tekin upp í hljóðveri Gnúsa, Studio History, og er mikill samgangur milli sveitanna tveggja. „Við höfðum lengi hlustað á reggí," tekur Arnljótur við. „Svo jókst áhuginn og þekkingin á þessari tónlist dag frá degi. Smátt og smátt fer maður að greina þessa miklu fjölbreytni í reggíinu. Það eru til svo margar stefnur og straumar að þetta er ansi djúp tjörn sem þarf að vaða. Í upphafi var jamaíski tónlistarmaðurinn og upptökustjórinn Lee "Scratch" Perry mikill áhrifavaldur og við spiluðum lög eftir hann, en þegar við kynntumst Gnúsa og Hjálmi Ragnarssyni (Hjálmur, eða Hjalli, er meðlimur Ojba Rasta og ber titilinn "Dubmaster", ber með öðrum orðum ábyrgð á þeim fjölmörgu furðuhljóðum sem flestum þykir ómissandi í reggítónlist) fór boltinn að rúlla fyrir alvöru. Hjalli nær að galdra eitthvað alveg sérstakt út úr okkur. Við ákváðum snemma að við vildum hafa döbb-fíling á tónlistinni og þannig eru nokkur laganna á plötunni, sum þeirra án söngs," útskýrir Arnljótur. Gylfi bætir við að sjálf séu systkinin nokkuð hissa á vinsældum þeirra tveggja laga sem sveitin hefur sent frá sér hingað til. „En við erum sæl og glöð með þetta. Við höfum svo rosalega gaman af þessu og vonumst bara til að það nái í gegn til hlustenda."Listrænt uppeldi Trommarinn Gylfi Freeland er önnum kafinn maður, rétt eins og systkini sín, en ásamt því að tromma með Ojba Rasta er hann einnig meðlimur í hljómsveitunum Retro Stefson og Berndsen, sem eitísáhugamaðurinn Davíð Berndsen leiðir. Fyrrnefnda sveitin er einnig í þann mund að gefa út nýja plötu og dvelja meðlimir hennar langdvölum erlendis. „Við í Ojba Rasta erum þó svo heppin að hafa annan trommara, Erling Bang, svo það er ekki mikið vandamál þegar ég forfallast," segir Gylfi. Arnljótur kemur líka víða við í íslenskum tónlistarheimi og leikur meðal annars með hljómsveitinni Sin Fang, á meðan Unnur Malín og Valgerður einbeita sér fyrst og fremst að Ojba Rasta á tónlistarsviðinu. Valgerður stundar nám á myndlistarbraut í Fjölbraut í Breiðholti og útskrifast í sumar, en svo skemmtilega vill til að Unnur Malín, Arnljótur og Gylfi útskrifuðust líka af sömu braut í sama skóla. Má því gera ráð fyrir að systkinin hafi hlotið listrænt uppeldi? „Já, það er óhætt að segja það," segir Unnur Malín. "Pabbi okkar, Sigurður Örlygsson, er myndlistarmaður og djassgeggjari og veggirnir á heimilinu voru þaktir málverkum og geisladiskum. Mamma og pabbi spiluðu ekki sjálf á hljóðfæri en gættu þess vel að við fengjum tækifæri til þess. Við erum til dæmis öll alin upp af Lárusi Grímssyni, hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra, í Skólahljómsveit Vesturbæjar og Lúðrasveit Reykjavíkur, en hann kenndi okkur mjög margt." Arnljótur bætir við að reynslan úr lúðrasveitunum hafi verið ómetanleg. „Það er rándýrt að senda mörg börn í tónlistarnám í einkaskóla, enda erum við alls sjö systkinin, en við fengum góða kennslu og mikla reynslu í skólahljómsveitinni. Þess vegna höfum við líka öll leikið mikið af sömu tónlistinni, allt frá tónlistinni í teiknimyndinni Herkúles yfir í Stravinsky, nútímatónlist og allt þar á milli."Reggíbarnið Unnsteinn Auk þess að spila með Ojba Rasta og Lúðrasveit Reykjavíkur starfar Unnur Malín hjá Iceland Travel og sér um ungan son sinn, Unnstein. Sá stutti heyrði slagarann Baldursbrá leikinn í fyrsta sinn þegar hann var staddur í móðurkviði á sviðinu þegar Ojba Rasta lék á Airwaves-hátíðinni haustið 2010. „Ég var kasólétt á sviðinu með þennan stóra lúður og hafði stól á sviðinu til öryggis. Arnljótur var að kynna hljómsveitina og sagði: „Þetta er Unnur Malín systir mín og litli frændi minn," en þá vissum við ekki hvers kyns barnið var. Arnljótur sagðist halda að barnið væri strákur, eða að minnsta kosti vona það, og hann hafði rétt fyrir sér. Það er gaman að eiga það á upptöku þegar bróðir minn spáir rétt fyrir um kynið," rifjar Unnur Malín upp og hlær. „Unnsteinn bregst líka alltaf við þegar hann heyrir í Ojba Rasta, fer að dansa og syngja." Aðspurð segjast systkinin ekki enn hafa ákveðið nafn á nýju plötuna, þótt ýmsir vinnutitlar hafi verið teknir í notkun. „Ætli við nefnum hana ekki bara Dubbi Morthens," segir Gylfi að lokum við nokkra kátínu systkina sinna. Tónlist Mest lesið Ferðast umhverfis jörðina á 38 dögum Lífið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga með nýja sketsaseríu um jólin Bíó og sjónvarp Adele kveður sviðið um óákveðinn tíma Lífið Frambjóðendur stigu trylltan dans með unga fólkinu Lífið Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Khalid kemur út úr skápnum Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Sykurlausar og dísætar smákökur Lífið Flaug alla leið frá Ástralíu til að heimsækja Eiðistorg Lífið Fleiri fréttir Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Daði Freyr tekur stefnuna til Íslands eftir áratug úti Fred again í sal en ekki á sviði: „Orðrómur sem við höfðum enga stjórn á“ „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ HAM reið á vaðið í fiskabúri X-ins 977 Létu ævintýrið loksins rætast í fiskabúrinu á X-inu „Stórir hlutir að koma og fólk þarf að vera tilbúið“ Emilíana Torrini heillaði tónleikagesti upp úr skónum Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Rétta harmonikkan er í harmonikkuverksmiðju í harmonikkuþorpi Iceland Airwaves ýtt úr vör á Grund Fagna tuttugu ára afmæli og troða upp á Grund Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Young Thug játar sök en losnar úr fangelsi „Enginn þekkir mig og ég þekki engan, sem mér finnst þægilegt“ Laufey fagnaði með Oliviu Rodrigo og Chappell Roan Tileinkar lagið Grindvíkingum „Það hefur aldrei verið neinn ótti“ „Hugleikið hver fær að stunda kynlíf og hver ekki“ „Þetta er saga af villigötum“ „Enginn að fara að hringja í mig að fyrra bragði“ Kemur frá Sýrlandi og syngur á íslensku Space Odyssey opnar á nýjum stað Dr. Gunni spyr hvort það sé ekki bara búið að vera gaman Afhjúpað á hvaða dögum böndin spila á Airwaves Sjá meira
Systkinin Unnur Malín, Arnljótur, Gylfi Freeland og Valgerður Freeland eru öll í reggísveitinni Ojba Rasta sem flytur Baldursbrá, eitt vinsælasta lag landsins. Kjartan Guðmundsson ræddi við þau um listrænt uppeldi í Vesturbænum og reggíbarnið Unnstein. „Þetta hefur verið dálítið langt og hægt ferli. Það má eiginlega segja að við séum eins og risaskjaldbaka," segir Arnljótur Sigurðsson, bassaleikari, söngvari, og einn lagahöfunda reggísveitarinnar Ojba Rasta, en sveitin á eitt allra vinsælasta lag landsins um þessar mundir, Baldursbrá, sem situr meðal annars í efsta sæti á vinsældalista Rásar 2. Alls eru meðlimir sveitarinnar ellefu og þar með talin þrjú systkini Arnljóts: Unnur Malín (kölluð Malla), sem leikur á barítónhorn, trommarinn Gylfi Freeland og Valgerður Freeland, sem spilar á klarínett. Arnljótur, 24 ára, og Gylfi, 21 árs, voru meðal stofnmeðlima Ojba Rasta árið 2009 en eftir nokkrar breytingar gengu Unnur Malín og Valgerður (28 ára og 19 ára) til liðs við sveitina í febrúar 2010 og hefur hún starfað með þeirri liðskipan síðan. Bandið er nú langt komið með gerð fyrstu breiðskífu sinnar og er stefnan sett á útgáfu fyrir eiginlega sumarkomu. „Þessi plata verður að koma út fyrir sumarið, enda spilum við sólartónlist," segir Unnur Malín.Áhrifin koma víða að Þessi útsprungna afurð íslenskrar reggíflóru hefur leikið á fjölda tónleika frá stofnun fyrir þremur árum (og nokkrir meðlima hennar aðstoðuðu meðal annars sjálfa Fræbbblana við flutning gömlu ska-perlunnar A Message To You, Rudy á Menningarnótt á síðasta ári), en það fyrsta sem heyrðist til Ojba Rasta á öldum ljósvakans var lagið Jolly Good, fullskapaður og döbbþungur reggíbolti að jamaískri fyrirmynd sem náði miklum vinsældum síðasta sumar og fyllti marga tónlistaraðdáendur eftirvæntingu. Baldursbráin fylgdi í kjölfarið fyrir nokkrum vikum og klóraði sig alla leið á toppinn, en í því lagi kveður við nokkuð annan tón þótt reggíið sé sem fyrr í forgrunni. „Áhrifavaldarnir eru hvaðanæva að," segir Arnljótur, aðallagahöfundur þótt lokaútkoma laganna verði ávallt til í mikilli samvinnu allra meðlima sveitarinnar. Unnur Malín samsinnir því. „Fyrir utan reggíið vísum við í margar tegundir heimstónlistar, til dæmis sígaunatónlist, og ekki síður íslenskan þjóðlagaarf eins og heyrist í Baldursbrá. Mamma okkar er hagyrðingur og meðlimur í Kvæðamannafélaginu Iðunni, sem hefur skilað sér í uppeldinu. Hún hefur kennt okkur margar rímur og Arnljótur skellti sér á þjóðlagahátíð hjá móðursystur okkar á Siglufirði sem unglingur og féll algjörlega í stafi, fór á námskeið í rímnakveðskap og allt," útskýrir Unnur Malín. Arnljótur segir systkinin öll hafa gaman af tónlist frá flestum heimshornum og hafi auk þess alla tíð hlustað mikið saman á tónlist. „Eftir því sem við hlustum meira streyma áhrifin inn í blóðið. Oft er erfitt að greina nákvæmlega hvaðan áhrifin eru, en þau eru vissulega til staðar."Fjölbreytnin í reggí-tónlistinni En hvernig kom svo til að íslensk ungmenni ákváðu að einbeita sér að reggítónlistinni? „Reggígrúppurnar hér eru reyndar fleiri en marga grunar og sífellt bætist í hópinn," segir Gylfi og vísar þar meðal annars til Hjálma, sem hafa verið óþrjótandi við að breiða út íslenskan reggíboðskap í hartnær áratug og Amaba Dama, sveitar sem leidd er af Magnúsi Jónssyni, eða Gnúsa Yones, en fyrsta plata Ojba Rasta er einmitt tekin upp í hljóðveri Gnúsa, Studio History, og er mikill samgangur milli sveitanna tveggja. „Við höfðum lengi hlustað á reggí," tekur Arnljótur við. „Svo jókst áhuginn og þekkingin á þessari tónlist dag frá degi. Smátt og smátt fer maður að greina þessa miklu fjölbreytni í reggíinu. Það eru til svo margar stefnur og straumar að þetta er ansi djúp tjörn sem þarf að vaða. Í upphafi var jamaíski tónlistarmaðurinn og upptökustjórinn Lee "Scratch" Perry mikill áhrifavaldur og við spiluðum lög eftir hann, en þegar við kynntumst Gnúsa og Hjálmi Ragnarssyni (Hjálmur, eða Hjalli, er meðlimur Ojba Rasta og ber titilinn "Dubmaster", ber með öðrum orðum ábyrgð á þeim fjölmörgu furðuhljóðum sem flestum þykir ómissandi í reggítónlist) fór boltinn að rúlla fyrir alvöru. Hjalli nær að galdra eitthvað alveg sérstakt út úr okkur. Við ákváðum snemma að við vildum hafa döbb-fíling á tónlistinni og þannig eru nokkur laganna á plötunni, sum þeirra án söngs," útskýrir Arnljótur. Gylfi bætir við að sjálf séu systkinin nokkuð hissa á vinsældum þeirra tveggja laga sem sveitin hefur sent frá sér hingað til. „En við erum sæl og glöð með þetta. Við höfum svo rosalega gaman af þessu og vonumst bara til að það nái í gegn til hlustenda."Listrænt uppeldi Trommarinn Gylfi Freeland er önnum kafinn maður, rétt eins og systkini sín, en ásamt því að tromma með Ojba Rasta er hann einnig meðlimur í hljómsveitunum Retro Stefson og Berndsen, sem eitísáhugamaðurinn Davíð Berndsen leiðir. Fyrrnefnda sveitin er einnig í þann mund að gefa út nýja plötu og dvelja meðlimir hennar langdvölum erlendis. „Við í Ojba Rasta erum þó svo heppin að hafa annan trommara, Erling Bang, svo það er ekki mikið vandamál þegar ég forfallast," segir Gylfi. Arnljótur kemur líka víða við í íslenskum tónlistarheimi og leikur meðal annars með hljómsveitinni Sin Fang, á meðan Unnur Malín og Valgerður einbeita sér fyrst og fremst að Ojba Rasta á tónlistarsviðinu. Valgerður stundar nám á myndlistarbraut í Fjölbraut í Breiðholti og útskrifast í sumar, en svo skemmtilega vill til að Unnur Malín, Arnljótur og Gylfi útskrifuðust líka af sömu braut í sama skóla. Má því gera ráð fyrir að systkinin hafi hlotið listrænt uppeldi? „Já, það er óhætt að segja það," segir Unnur Malín. "Pabbi okkar, Sigurður Örlygsson, er myndlistarmaður og djassgeggjari og veggirnir á heimilinu voru þaktir málverkum og geisladiskum. Mamma og pabbi spiluðu ekki sjálf á hljóðfæri en gættu þess vel að við fengjum tækifæri til þess. Við erum til dæmis öll alin upp af Lárusi Grímssyni, hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra, í Skólahljómsveit Vesturbæjar og Lúðrasveit Reykjavíkur, en hann kenndi okkur mjög margt." Arnljótur bætir við að reynslan úr lúðrasveitunum hafi verið ómetanleg. „Það er rándýrt að senda mörg börn í tónlistarnám í einkaskóla, enda erum við alls sjö systkinin, en við fengum góða kennslu og mikla reynslu í skólahljómsveitinni. Þess vegna höfum við líka öll leikið mikið af sömu tónlistinni, allt frá tónlistinni í teiknimyndinni Herkúles yfir í Stravinsky, nútímatónlist og allt þar á milli."Reggíbarnið Unnsteinn Auk þess að spila með Ojba Rasta og Lúðrasveit Reykjavíkur starfar Unnur Malín hjá Iceland Travel og sér um ungan son sinn, Unnstein. Sá stutti heyrði slagarann Baldursbrá leikinn í fyrsta sinn þegar hann var staddur í móðurkviði á sviðinu þegar Ojba Rasta lék á Airwaves-hátíðinni haustið 2010. „Ég var kasólétt á sviðinu með þennan stóra lúður og hafði stól á sviðinu til öryggis. Arnljótur var að kynna hljómsveitina og sagði: „Þetta er Unnur Malín systir mín og litli frændi minn," en þá vissum við ekki hvers kyns barnið var. Arnljótur sagðist halda að barnið væri strákur, eða að minnsta kosti vona það, og hann hafði rétt fyrir sér. Það er gaman að eiga það á upptöku þegar bróðir minn spáir rétt fyrir um kynið," rifjar Unnur Malín upp og hlær. „Unnsteinn bregst líka alltaf við þegar hann heyrir í Ojba Rasta, fer að dansa og syngja." Aðspurð segjast systkinin ekki enn hafa ákveðið nafn á nýju plötuna, þótt ýmsir vinnutitlar hafi verið teknir í notkun. „Ætli við nefnum hana ekki bara Dubbi Morthens," segir Gylfi að lokum við nokkra kátínu systkina sinna.
Tónlist Mest lesið Ferðast umhverfis jörðina á 38 dögum Lífið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga með nýja sketsaseríu um jólin Bíó og sjónvarp Adele kveður sviðið um óákveðinn tíma Lífið Frambjóðendur stigu trylltan dans með unga fólkinu Lífið Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Khalid kemur út úr skápnum Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Sykurlausar og dísætar smákökur Lífið Flaug alla leið frá Ástralíu til að heimsækja Eiðistorg Lífið Fleiri fréttir Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Daði Freyr tekur stefnuna til Íslands eftir áratug úti Fred again í sal en ekki á sviði: „Orðrómur sem við höfðum enga stjórn á“ „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ HAM reið á vaðið í fiskabúri X-ins 977 Létu ævintýrið loksins rætast í fiskabúrinu á X-inu „Stórir hlutir að koma og fólk þarf að vera tilbúið“ Emilíana Torrini heillaði tónleikagesti upp úr skónum Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Rétta harmonikkan er í harmonikkuverksmiðju í harmonikkuþorpi Iceland Airwaves ýtt úr vör á Grund Fagna tuttugu ára afmæli og troða upp á Grund Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Young Thug játar sök en losnar úr fangelsi „Enginn þekkir mig og ég þekki engan, sem mér finnst þægilegt“ Laufey fagnaði með Oliviu Rodrigo og Chappell Roan Tileinkar lagið Grindvíkingum „Það hefur aldrei verið neinn ótti“ „Hugleikið hver fær að stunda kynlíf og hver ekki“ „Þetta er saga af villigötum“ „Enginn að fara að hringja í mig að fyrra bragði“ Kemur frá Sýrlandi og syngur á íslensku Space Odyssey opnar á nýjum stað Dr. Gunni spyr hvort það sé ekki bara búið að vera gaman Afhjúpað á hvaða dögum böndin spila á Airwaves Sjá meira