Menning

Mikil aðsókn á Skjaldborg

Patreksfjörður fyllist af kvikmyndaáhugafólki þegar Skjaldborg er haldin um hvítasunnuhelgina.
Patreksfjörður fyllist af kvikmyndaáhugafólki þegar Skjaldborg er haldin um hvítasunnuhelgina.
„Það er greinilegt að hátíðin er að festa sig í sessi," segir Tinna Ottesen, einn aðstandenda heimildarmyndahátíðarinnar Skjaldborgar sem fer fram dagana 25.-28. maí.

Þetta er í sjöunda sinn sem kvikmyndaáhugamenn flykkjast til Patreksfjarðar um hvítasunnuhelgina. Hátíðinni hefur borist metfjöldi umsókna í ár en dagskráin sjálf skýrist á næstu dögum. Tinna segist fagna auknum áhuga á heimildarmyndagerð á Íslandi.

„Það er gaman að það sé að verða til ákveðin hefð fyrir heimildarmyndum sem listformi," segir Tinna. Markmið hátíðarinnar er að sýna það nýjasta og ferskasta í íslenskri heimildarmyndagerð.

Meðal þeirra sem sýna í ár er Steinþór Birgisson með myndina Reimt á Kili: Uggur og örlög Reynistaðabræðra, en Steinþór hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar í fyrra fyrir myndina Jón og séra Jón. Þá ætlar Jón Karl Helgason að frumsýna heimildarmynd um sundmenningu landsins sem nefnist Sundið.

Tinna segir hátíðina alltaf vera að vaxa og þróast. „Það er alltaf mikið líf og fjör á Patreksfirði á meðan á hátíðinni stendur og öll gistipláss full. Það er því um að gera fyrir þá sem ætla að koma að hafa hraðar hendur en bæjarbúar hafa ávallt tekið okkur opnum örmum."

Hægt er að skoða dagskrá hátíðarinnar og fá upplýsingar um gistimöguleika á Patreksfirði á síðunni Skjaldborg.com. -áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×