Sport

Júlían Evrópumeistari unglinga í réttstöðulyftu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson á pallinum.
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson á pallinum. Mynd/Kraftlyftingasamband Íslands
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Ármanni tryggði sér í dag gullverðlaun í réttstöðulyftu á EM unglinga í Herning í Danmörku. Júlían varð ennfremur í fjórða sæti í samanlögðu í keppni um Evrópumeistaratitil unglinga í yfirþungavigt.

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson er fæddur 1993 og var að keppa í fyrsta sinn í aldursflokknum 19 – 23 ára en hann var yngstur í hópnum. Júlían lyfti alls 882,5 kílóum í samanlögðu en sigurvegarinn í flokknum var Rússinn Igor Filipov með 965 kíló. Júlían bætti sinn besta árangur um 20 kíló og setti nýtt Íslandsmet unglinga.

Réttstaðan hefur lengst af verið besta grein Júlíans, en hann varð heimsmeistari drengja í greininni í fyrra og sýndi í dag að það var engin tilviljun.

Júlían byrjaði á því að lyfta 290 kílóum létt og hristi svo upp í keppinautum sínum með að lyfta 315 kílóum í annarri lyftu. Mikið taugastríð upphófst í framhaldinu í réttstöðukeppninni með taktískar breytingar á víxl. Íslenska liðið hélt haus og Júlían stóð uppi sem sigurvegari á nýju glæsilegu íslandsmeti unglinga 327,5 kg.

Hnébeygjan gekk ekki sem skyldi hjá Júlían í þetta skiptið. Hann kláraði létt opnunarþyngdina 320,0 kíló en mistókst tvisvar með tilraun við nýtt íslandsmet sem er 335,0 kíló.

Á bekknum byrjaði Júlían örugglega á því að lyfta 220 kílóum. Hann setti nýtt íslandsmet í annari tilraun með því að lyfta 230 kílóum og bætti um betur í þeirri þriðju með að fara upp með 235,0 kíló. Nýtt íslandsmet unglinga og persónuleg bæting um 7,5 kíló var í höfn og tók hann nokkuð óvænt fjórða sætið í bekkpressu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×