Íslenski boltinn

"Neitaði engum um viðtal"

Hjörtur Hjartarson skrifar
Guðjón segir það rangt að hann hafi ekki gefið kost á viðtölum í gær
Guðjón segir það rangt að hann hafi ekki gefið kost á viðtölum í gær
Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindvíkinga í knattspyrnu segir það ekki rétt að hann hafi neitað að veita fjölmiðlum viðtal eftir tapleik liðsins í Pepsideild karla gegn FH í gærkvöld. Þetta sagði hann í viðtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu í morgun.

Fram kom í fjölmiðlum í gær, meðal annars á Vísi að Guðjón hefði yfirgefið völlinn án þess að gefa kost á viðtölum.

"Það fellur ekkert með okkur Grindvíkingum, ekki einu sinni í umfjöllun fjölmiðla. Það er rangt eftir haft að ég hafi neitað viðtölum í gær. Það er illa frá sagt og það er bara ekki rétt. Menn verða að standa vaktina og fara satt og rétt með þegar verið er að fjalla um svona hluti", sagði Guðjón ákveðinn.

"Það voru allir fjölmiðlar uppteknir þegar ég kom út úr klefanum. Ég fór þá og sótti mér kaffibolla, kom aftur út og þá voru þeir enn uppteknir og þá fór ég."

Guðjón bætti því við að sjálfsögðu hefði brúnin verið nokkuð þung eftir leik, annað væri óeðlilegt.

"Ef það þykknar ekki í manni þegar maður tapar leikjum með þessum hætti þá er eitthvað að. Menn sem hafa skap og vilja til að vinna, það þykknar í þannig mönnum þegar þeir tapa. Manni svíður þegar maður sér liðið sitt tapa leik eins og þessum í gær", sagði Guðjón Þórðarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×