Bandaríkjamaðurinn Brandt Snedeker er efstur þegar keppni er hálfnuð á opna breska meistaramótinu í golfi. Hann er á 10 höggum undir pari vallar. Ástralinn Adam Scott er annar, einu höggi á eftir, og Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods er þriðji á 6 höggum undir pari.
Það er ljóst að Darren Clarke mun ekki verja titilinn en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn. Norður-Írinn lék á 7 höggum yfir pari samtals.
Thorbjörn Olesen frá Danmörku er í fjórða sæti en fimm kylfingar eru jafnir á -4, Paul Lawrie (Skotland), Matt Kuchar (Bandaríkin), Graeme McDowell (N-Írland), Jason Dufner (Bandaríkin), Thomas Aiken (Suður-Afríka).
Samkvæmt venju var keppendum fækkað að loknum öðrum keppnisdegi. Á meðal þeirra sem komust ekki áfram eru: Justin Rose +4 (England), Sergio Garcia +4 (Spánn), Charl Schwartzel +4 (Suður-Afríka), Stewart Cink +5 (Bandaríkin), David Duval +5 (Bandaríkin), Darren Clarke +7 (Norður-Írland), Trevor Immelman +9 (Suður-Afríka), Phil Mickelson +11 (Bandaríkin), Angel Cabrera +12 (Argentína).

