Menning

Kurteisir dyraverðir á Mánabar

Mánabar á Hverfisgötu var opnaður á menningarnótt. Ásgeir Andri Guðmundsson, tónlistar- og viðburðarstjóri staðarins, segir mikið lagt upp úr vinalegri stemningu.
Mánabar á Hverfisgötu var opnaður á menningarnótt. Ásgeir Andri Guðmundsson, tónlistar- og viðburðarstjóri staðarins, segir mikið lagt upp úr vinalegri stemningu. fréttablað/valli
"Við höfum áralanga reynslu í öllu sem viðkemur skemmtistaðarekstri og sjálfur byrjaði ég að vinna sem barþjónn á Gauknum þegar ég var átján ára gamall," segir Ásgeir Andri Guðmundsson, tónlistar- og viðburðarstjóri Mánabars sem var opnaður við Hverfisgötu 20 á menningarnótt. Buddah bar var til skamms tíma í húsnæðinu sem nú hýsir Mánabar og segir Ágeir að töluvert ólík stemning ríki nú í húsinu.

"Okkur langaði að breyta til og búa til stað þar sem hægt er að spjalla saman í ró og næði. Stemningin þarna inni er lík þeirri sem er á Götubarnum á Akureyri, það er til dæmis engin tónlist á staðnum nema einhver komi og spili hana.

Við erum með flygil á efri hæðinni sem er opinn öllum þeim sem kunna á píanó og svo er líka pláss fyrir hljómsveit hér inni," segir Ásgeir og bætir við að um helgar verði plötusnúður á staðnum sem muni spila gamla tónlist í bland við nýja.

Staðurinn var tekinn í gagnið á menningarnótt og viðurkennir Ásgeir að það hafi staðið á tæpasta vaði að næðist að klára smíðavinnu í tæka tíð. "Ég held við höfum sett Íslandsmet í niðurrifi. Við byrjuðum á verkinu þann 20. júlí og lukum við það fimm mínútum fyrir opnun. En þetta hafðist með góðri trú og mikilli vinnu."

Nokkrir skemmtistaðir hafa verið í húsinu undanfarinn áratug en Ásgeir segist fullur bjartsýni um að Mánabar muni vegna vel enda hafi mikið verið í staðinn lagt. "Þessi staðsetning er frábær og Mánabar er meira í anda þess sem er að gerast annars staðar í götunni. Ég er bjartsýnn á að við munum ná upp vinalegri stemningu og svo erum við líka með kurteisa dyraverði."

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×