Menning

Gleymdar konur á menningarnótt

Þær Þóra Björk, Sólveig, Hildur og Sigurlaug fluttu dagskrá til heiðurs fjórum íslenskum kventónskáldum, sem öll eru látin, á Hallveigarstöðum við Túngötu á menningarnótt.
Þær Þóra Björk, Sólveig, Hildur og Sigurlaug fluttu dagskrá til heiðurs fjórum íslenskum kventónskáldum, sem öll eru látin, á Hallveigarstöðum við Túngötu á menningarnótt.
Konur þóttu ekki eiga neitt sérstakt erindi í tónsmíðar fyrr á öldum. Þær áttu að hugsa um börnin og eiginmennina, halda kjafti og vera sætar. Þær sem sömdu tónlist - og höfðu til þess hæfileika þurftu stundum að fara krókaleiðir til að koma tónlist sinni út.

Systir Mendelssohns, Fanny, samdi t.d. verk í nafni bróður síns. Rebecca Clarke tók þátt í tónsmíðakeppni undir karlmannsdulnefni. Elfrida Andrée, sænskt tónskáld og organisti, þurfti að heyja harða baráttu gegn því að aðeins karlmenn mættu gegna starfi organista. En hún gaf út verk sín undir eigin nafni. Sjálfsagt ekki án átaka.



Á menningarnótt voru fjögur íslensk kventónskáld kynnt til sögunnar sem eru að mestu gleymd. Þetta voru Olufa Finsen (1835-1908), Guðmunda Nielsen (1885-1936), Ingunn Bjarnadóttir (1905-1972) og María Brynjólfsdóttir (1919-2004). Sigurlaug Arnardóttir setti dagskrána saman, sem er meistaraverkefni hennar í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Dagskráin fór fram á Hallveigarstöðum við Túngötu, en þar er Kvenfélagasamband Íslands til húsa.



Það var auðvitað allt brjálað á menningarnótt, veðrið var frábært og múgur og margmenni að sækja alls konar viðburði í bænum. Og enginn annar en Hollywood-stjarnan Russel Crowe, ásamt rokkgyðjunni Patti Smith að troða upp! Auðvitað vildu allir heyra þau; færri voru á Hallveigarstöðum. Sem var út af fyrir sig ágætt. Salurinn þar sem dagskráin fór fram er ekki mikið stærri en rúmgóð stofa. Áheyrendur sátu við nokkur kringlótt borð, og kaffi og smákökur voru á boðstólum. Það var notaleg stemning.



Dagskráin var flutt af jafnmörgum konum og tónskáldin sem voru kynnt. Þetta voru þær Þóra Björk Þórðardóttir (gítar), Sólveig Þórðardóttir (selló) og Hildur Björgvinsdóttir, auk Sigurlaugar. Útsetningarnar voru eftir Þóru Björk og voru fyrir gítar og selló. Flutt voru nokkur lög eftir tónskáldin, allt sönglög. Aðallega söng Sigurlaug og hún sagði líka frá tónskáldunum, með aðstoð Hildar. Nú má auðvitað ætla að tónskáldin fjögur séu gleymd vegna þess að þau voru konur. Þannig mátti a.m.k. skilja Sigurlaugu. En alls konar tónskáld gleymast. Þegar einhverjum dettur í hug að draga þau aftur fram í dagsljósið er auðheyrt af hverju þau gleymdust. Sum tónlist er einfaldlega betri en önnur, og snilldarverkin lifa, hin gleymast.

Ekki þó alltaf. Bach er frægasta dæmið um það. Hann gleymdist í ein hundrað ár. Að vísu voru verk hans ekkert sérstaklega þekkt á meðan hann lifði. Hann var fyrst og fremst frægur sem organisti.



Vissulega var ýmislegt á dagskránni á Hallveigarstöðum sem á skilið að heyrast. Lögin sem hljómuðu voru þó misgóð. Lögin eftir Olufu Finsen og Maríu Brynjólfsdóttur voru óttalega klén. Það voru klisjukenndar laglínur og gátu þess vegna verið eftir hvern sem var. Nú getur auðvitað verið að önnur lög eftir þær séu bitastæðari. En ekki þessi hér. Öðru máli gegndi um lögin eftir Guðmundu Nielsen og Ingunni Bjarnadóttur. Það var skemmtilegur karakter í lögum Guðmundu. Og lögin eftir Ingunni voru greinilega innblásin, hrífandi laglínur sem unaður var að hlýða á.

Samkvæmt Sigurlaugu voru þær Ingunn og María ómenntaðar í tónlist. Það kom því í hlut annarra að setja lögin í nótur. Samkvæmt mínum heimildum var María þó í píanónámi hjá Árna Kristjánssyni. Hún getur því varla hafa verið mjög fákunnandi.

Sigurlaug upplýsti að Hallgrímur Helgason (tónskáld, ekki rithöfundur) hafi umritað og/eða útsett lög Ingunnar. Á tímabili mun hafa komið upp einhver togstreita á milli hans og Ingunnar. Honum fannst sinn þáttur sem útsetjara ekki metinn að verðleikum. Það er reyndar skiljanlegt. Útsetningar geta verið einfaldar umritanir, en sumar bæta heilmiklu við upphaflegu lögin. Á máli Sigurlaugar mátti ætla að svo hafi verið um útsetningar Hallgríms. Útsetningar Þóru Bjarkar voru líflegar, stundum hefði þó mátt vera meiri stígandi í þeim. Í heild var flutningurinn á lögunum, bæði söngurinn og hljóðfæraleikurinn, dálítið óöruggur. En það var ekki aðalatriðið hér. Fyrst og fremst var það fróðleikurinn um þessi gleymdu tónskáld sem var dýrmætur. Það er svo sjaldgæft að fara á tónleika sem er afrakstur rannsóknarvinnu. Að mínu mati var þetta eitt áhugaverðasta atriðið á allri menningarnóttinni.



Annars virtist dagurinn bara koma vel út. Ég kíkti á sönghópinn Spectrum í Þjóðmenningarhúsinu. Ingveldur Ýr Jónsdóttir stjórnaði en Vignir Þór Stefánsson lék á píanó. Dagskráin samanstóð aðallega af söngleikjatónlist og kom vel út, enda prýðilegur kór. Dágóður hluti söngsins drukknaði þó í ærandi rapptakti frá Hjartagarðinum, sem er nánast við hliðina á Þjóðmenningarhúsinu. Og margir áheyrendur virtust varla vera þarna til að hlusta. Sumir töluðu saman allan tímann. Það var svekkjandi.



En auðvitað er menningarnótt ekki neinn venjulegur viðburður. Hún er miklu frekar eins og að fara í Hagkaup á háannatíma og fá að smakka allt mögulegt. Sem er auðvitað nauðsynlegt líka. Og topparnir voru glæsilegir, rannsóknartónleikar, Russell Crowe og Patti Smith - það verður varla mikið betra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×