Körfubolti

Damon Johnson búinn að skipta í Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damon S. Johnson.
Damon S. Johnson.
Damon S. Johnson, margfaldur Íslandsmeistari með Keflavík, hefur skipt aftur í Keflavík en þetta kemur fram á lista yfir nýjustu félagsskipti á heimasíðu KKÍ. Damon er búinn að vera með íslenskt ríkisfang í áratug en hefur ekki spilað hér á landi síðan tímabilið 2002-2003.

Damon S. Johnson er fæddur 1974 og verður því 39 ára gamall í mars næstkomandi. Hann lék í mörg ár á Spáni eftir að hann yfirgaf íslensku deildinni og lék síðan sitt síðasta tímabil með Smoky Mountain Jam í ABA-deildinni 2008-09. Damon hefur undanfarin reynt fyrir sér sem þjálfari og réði sig sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs East Tennessee State í haust.

Keflvíkingar tefla fram mörgum gamalkunnum köppum í b-liði sínu sem komst í gærkvöldi áfram í 32 liða úrslit Poweradebikarsins þar sem liðið mætir Njarðvík.

Gunnar Einarsson, Falur Jóhann Harðarson, Albert Óskarsson, Guðjón Skúlason, Sverrir Þór Sverrisson og Jón Nordal Hafsteinsson urðu allir Íslandsmeistarar með Damon á sínum tíma og þeir voru í stórum hlutverkum með b-liðinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×