Formúla 1

Alonso valinn bestur af liðstjórum

Birgir Þór Harðarson skrifar
Alonso tapaði heimsmeistaratitlinum með þremur stigum en var valinn bestur af liðstjórum í Formúlu 1.
Alonso tapaði heimsmeistaratitlinum með þremur stigum en var valinn bestur af liðstjórum í Formúlu 1. nordicphots/afp
Þó hann hafi tapað heimsmeistaratitlinum með aðeins þremur stigum var Fernando Alonso, ökuþór Ferrari-liðsins, valinn besti ökuþór ársins af liðstjórum í Formúlu 1. Valið var birt á síðum breska tímaritsins Autosport.

Þetta er í annað sinn sem Alonso hlýtur þessa viðurkenningu en síðast var hann valinn bestur árið 2010. Liðstjórarnir voru beðnir um að gera lista yfir tíu bestu ökumenn ársins, að þeirra mati, og gefa þeim stig eins og um úrslit kappaksturs væri að ræða.

Skemmst er frá því að segja að Alonso hlaut 269 stig, 71 stig meira en heimsmeistarinn Sebastian Vettel sem varð annar í valinu. Átta liðsstjórar settu Alonso í fyrsta sætið.

Alonso var þakklátur fyrir valið og sagði á vefsíðu Ferrari-liðsins vera ánægður með niðurstöðuna. „En það verður erfitt að endurtaka nánast fullkomið tímabil með Ferrari. Við gerum samt heiðarlega tilraun."

Lewis Hamilton varð þriðji í valinu og skipti um sæti við Kimi Raikkönen, sem varð þriðji í heimsmeistarakeppninni í ár. Jenson Button varð fimmti og Mark Webber sjötti.

Efstu tíu í vali liðstjóra1. Fernando Alonso - 269

2. Sebastian Vettel - 198

3. Lewis Hamilton - 177

4. Kimi Räikkönen - 176

5. Jenson Button - 104

6. Mark Webber - 66

7. Nico Hülkenberg - 50

8. Nico Rosberg - 30

9. Sergio Pérez - 30

10. Felipe Massa - 27




Fleiri fréttir

Sjá meira


×