Bakþankar

Heitstrenging Jay-Z

Gerður Kristný skrifar
Í síðustu viku bárust þau tíðindi um heimsbyggðina að bandaríski rapparinn Jay-Z hefði svarið þess dýran eið að hætta að kalla konur „tíkur". Ástæðan fyrir þessari róttæku viðhorfsbreytingu var sú að honum og eiginkonu hans, söngkonunni Beyoncé, varð dóttur auðið. Ábyrgðarkenndin sem hvolfdist yfir kappann þegar snótin, sem gefið var nafnið Blue Ivy Carter, kom í heiminn hafði víst þessar gleðilegu afleiðingar. Samkvæmt frétt Vísisvefsins af heitstrengingu Jay-Z settist hann niður og orti ljóð í tilefni fæðingarinnar þar sem hann heitir því að bregða ekki orðinu „tík" fyrir sig aftur.

Það hefur verið ort af minna tilefni og heitstrenging Jay-Z virtist svo sannarlega vera lóð – eða réttara sagt ljóð á vogarskálar aukinnar manngæsku í heiminum. „Hann segist vera breyttur maður og hefur lítið álit á þeim sem ætla að taka sér orðið í munn í framtíðinni," segir í frétt Vísisvefsins. Því miður mátti ætla að harla margir ættu þá eftir að fá á baukinn, enda hefur tíkin dillað skotti sínu býsna lengi í bandarískum rapptextum.

Merkilegt samt að engin önnur kostakona í lífi Jay-Z skyldi hafa hrundið þessum sinnaskiptum af stað hjá honum. Datt mér þá helst í hug móðir hans blessunin eða hin hæfileikaríka eiginkona hans, hún Beyoncé, sem getur leikið, dansað, sungið og samið tónlist. Ég reyndi að finna ljóð Jay-Z á netinu en tókst það því miður ekki. Því varð ég að geta mér til hvernig skáldskapur hans gæti hljómað á íslensku.

Helst kom mér í hug að það hefði getað verið á þessa leið: „Þú ert engri lík / og ekki ertu tík, / með augu eins og Bambi. / Nú hætti ég öllu þambi / og dópi sturta niður. / Ást mín er sem fiður / í mjúkri svanasæng / og hlýjar þér um nætur. / Þegar þú ert hrædd og grætur / fer ég óðara á fætur / tek þig í fangið og hugga, / rugga, / draugum burtu stugga. / Gleði mín er slík / að nú finnst mér engin kona tík." Þar sem ég ráfaði um á netinu í leit að kveðskap Jay-Z rakst ég á tilkynningu þess efnis að fréttin af sinnaskiptunum hefði bara verið uppspuni. Rapparinn kannast ekkert við að hafa nokkurn tímann hugsað sér að hætta að kalla konur tíkur. Hann hyggst því halda áfram að láta það eftir sér blási andinn honum það í brjóst. Þar fór það.






×