Ögmundur og íhaldið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 30. janúar 2012 08:00 Sagnfræðingar tala um að stéttastjórnmál hafi leyst sjálfstæðisstjórnmál af hólmi árið 1916 þegar Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru stofnaðir til að gæta hagsmuna verkalýðs og bænda á meðan höfðingjarnir skiptust í flóknar þversum og langsum fylkingar eftir afstöðunni til sambandsins við Dani og sameinuðust ekki í einn flokk fyrr en 1929 í Sjálfstæðisflokknum. Æ síðan hefur sá flokkur verið okkar Kongressflokkur – valdaflokkurinn, vettvangurinn. En sjálfstæðisstjórnmálin hurfu aldrei. Alla okkar fullveldistíð hafa þau verið stunduð af stjórnmálamönnum samhliða hagsmunagæslu fyrir stéttir en einkum þó alls kyns bræðralög og hyglunarsamvinnufélög. Það hefur verið stjórnmálamönnum rík freisting að draga upp einfalda mynd af andstæðum hagsmunum lítillar þjóðar og svo þjóðanna í kring. Samkvæmt þeirri hugmynd fara hagsmunir allra Íslendinga saman, alltaf; það séu „okkar" hagsmunir að íslenskir útgerðarmenn eigi og selji hver öðrum aflaheimildir (og feli arðinn í aflöndum) fremur en að þjóðin selji þessar heimildir hæstbjóðanda. En útgerðarmenn á Íslandi eru ekkert Íslendingar eða útlendingar. Þeir eru aflendingar. Dvöl ameríska hersins hér á landi ruglaði allt. Menn gátu verið íhaldssamir í þjóðmálum, hálfgerðir lénskerfissinnar í atvinnumálum, andvígir félagslegum réttindum, þéttbýlismyndun og frelsi fólks til að stjórna lífi sínu og þar fram eftir götunum en jafnframt andvígir veru hersins – sem gerði þá að vinstri mönnum samkvæmt ríkjandi skilgreiningu; og svo gátu menn verið frjálslyndir stuðningsmenn réttinda fyrir alþýðu, jafnréttissinnar og áhugamenn um fagurt mannlíf fjöldans fremur en auðsöfnun hinna fáu en jafnframt aðhyllst vestræna samvinnu, vestrænt gildismat – og voru því kallaðir hægri menn fyrir vikið. Sjálfstæðisstjórnmálin gera að verkum að við horfum upp á nýstárlega rekkjunauta í pólitíkinni. Þannig hefur sameiginleg andúð á Evrópusambandinu skapað sterk tengsl milli Ögmundar Jónassonar og nokkurra grámyglulegustu íhaldsmannanna úr repúplíkana-armi Sjálfstæðisflokksins. Við því er kannski lítið að segja nema kjósendur Ögmundar í suðvesturkjördæmi hafa sennilega ekki gert sér grein fyrir því að þeir væru að kjósa Davíð Oddsson. Sérhver verður að finna sér sálufélag við hæfi. Það er hins vegar þekkt að þegar ungir og vænir menn lenda í vondum félagsskap hyllast þeir til þess að reyna að sanna sig með því að ganga enn lengra í óknyttunum en eldri meðlimir klíkunnar. Ýmislegt bendir til að þetta hafi einmitt hent Ögmund; hann hélt um daginn ræðu um embættismenn sem ánetjast hafi ferðum til Brussel. Hann gaf til kynna að það fólk sem svo átti að heita forðum að hann ætti samleið með, og væri raunar í forsvari fyrir – opinberir starfsmenn – láti stjórnast í starfi sínu að Evrópusamstarfi af stjórnlausri fíkn í ferðalög til Brussel, rétt eins og ferðalög séu enn sjaldgæf gæði hér á landi. Hann lét að því liggja að þetta fólk leggi sig ekki fram í þágu lands og þjóðar, vinni störf sín ekki af heilinum en sé með hugann við að komast til Brussel, það sem það hafi fram að færa sé ekki marktækt. Þetta er ófyrirleitið lýðskrum af því tagi sem maður gæti vænst að sjá hjá bullunum á amx.is en varla frá fyrrum formanni BSRB. Hvernig á fólk að verjast slíkum ásökunum? Hvernig er hægt að neita því að maður láti stjórnast af lágum hvötum? Með þessu tali reynir Ögmundur að grafa undan því fólki sem á nú í samningaviðræðum við Evrópusambandið, vekja tortyggni í garð þess. Innanríkisráðherrann er ekki einungis í stjórnarandstöðu við þá ríkisstjórn sem hann situr í – hann er líka andvígur því fólki sem starfar í stjórnsýslunni. Hann er á móti öllum – nema Davíð. Það er alls ekki slæm tilhugsun að vera utan Evrópusambandsins. Það má alveg hugsa sér litla og knáa eyþjóð í norðri sem lifir af þeim gæðum sem landið og miðin í kring gefa og selur varning sinn um allar jarðir; þjóð sem nýtir sér vakin og sofin hátækni og öll tækifæri sem bjóðast í ört minnkandi heimi til að ná góðum tengslum við fjarlægar þjóðir á eigin forsendum. Og svo framvegis. Þetta er ágætt. Að vísu skulum við muna að þann tíma sem Ísland hefur verið fullvalda lýðveldi var það lengst af undir verndarvæng Bandaríkjamanna. Það kostaði sitt og fyrir það fékkst eitt og annað, eins og lesa má um í bókum Vals Ingimundarsonar: Íslenskar ríkisstjórnir voru ódeigar að rukka Bandaríkjamenn fyrir aðstöðuna hér á landi – ekki síður svonefndar vinstri stjórnir en hinar. Bandaríski herinn fór á haustdögum 2006. Íslendingar brugðust við með því að hefja stórsókn til Evrópu til að leggja hana undir sig – með lánsfé. Tveimur árum síðar bað Geir Haarde guð að blessa Ísland. En það má alveg hugsa sér að vera utan Evrópusambandsins. Þó það nú væri. En það má líka alveg hugsa sér að vera innan þess. Og óskandi væri að þjóðin fengi stjórnmálamenn sem litu á þetta mál út frá sjónarmiðum stéttastjórnmálanna, út frá hagsmunum fólks, lífsjörum, fremur en að lifa sig inn í ræður frá 19. aldar sjálfstæðisstjórnmálum. Getum við ekki að minnsta kosti reynt að tala saman eins og fólk? Endurtekin brigsl Ögmundar Jónassonar um mútuþægni þeirra sem vilja ganga í ESB („glerperlur og eldvatn") eru satt að segja alveg óbærileg. Vera má að þessum gamla verkalýðsforingja finnist ekki skipta máli hvort lífskjör batna við inngöngu eður ei en aðrir hafa af því áhyggjur af við kunnum að missa unga fólkið okkar úr landi ef hér er ekki gott að búa, gott andrúmsloft, góð laun, góð lánakjör, góðir stjórnmálamenn. Sem stendur – hér í heiðinni þar sem allt er „ósköp frjálst" – höfum við ekkert af þessu. Það er sagt að þjóðir fái þá stjórnmálamenn sem þær eiga skilið. Það er ekki satt. Engin þjóð á skilið að búa við stjórnmál af þessu tagi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hvar er mannúðin? Davíð Sól Pálsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun
Sagnfræðingar tala um að stéttastjórnmál hafi leyst sjálfstæðisstjórnmál af hólmi árið 1916 þegar Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru stofnaðir til að gæta hagsmuna verkalýðs og bænda á meðan höfðingjarnir skiptust í flóknar þversum og langsum fylkingar eftir afstöðunni til sambandsins við Dani og sameinuðust ekki í einn flokk fyrr en 1929 í Sjálfstæðisflokknum. Æ síðan hefur sá flokkur verið okkar Kongressflokkur – valdaflokkurinn, vettvangurinn. En sjálfstæðisstjórnmálin hurfu aldrei. Alla okkar fullveldistíð hafa þau verið stunduð af stjórnmálamönnum samhliða hagsmunagæslu fyrir stéttir en einkum þó alls kyns bræðralög og hyglunarsamvinnufélög. Það hefur verið stjórnmálamönnum rík freisting að draga upp einfalda mynd af andstæðum hagsmunum lítillar þjóðar og svo þjóðanna í kring. Samkvæmt þeirri hugmynd fara hagsmunir allra Íslendinga saman, alltaf; það séu „okkar" hagsmunir að íslenskir útgerðarmenn eigi og selji hver öðrum aflaheimildir (og feli arðinn í aflöndum) fremur en að þjóðin selji þessar heimildir hæstbjóðanda. En útgerðarmenn á Íslandi eru ekkert Íslendingar eða útlendingar. Þeir eru aflendingar. Dvöl ameríska hersins hér á landi ruglaði allt. Menn gátu verið íhaldssamir í þjóðmálum, hálfgerðir lénskerfissinnar í atvinnumálum, andvígir félagslegum réttindum, þéttbýlismyndun og frelsi fólks til að stjórna lífi sínu og þar fram eftir götunum en jafnframt andvígir veru hersins – sem gerði þá að vinstri mönnum samkvæmt ríkjandi skilgreiningu; og svo gátu menn verið frjálslyndir stuðningsmenn réttinda fyrir alþýðu, jafnréttissinnar og áhugamenn um fagurt mannlíf fjöldans fremur en auðsöfnun hinna fáu en jafnframt aðhyllst vestræna samvinnu, vestrænt gildismat – og voru því kallaðir hægri menn fyrir vikið. Sjálfstæðisstjórnmálin gera að verkum að við horfum upp á nýstárlega rekkjunauta í pólitíkinni. Þannig hefur sameiginleg andúð á Evrópusambandinu skapað sterk tengsl milli Ögmundar Jónassonar og nokkurra grámyglulegustu íhaldsmannanna úr repúplíkana-armi Sjálfstæðisflokksins. Við því er kannski lítið að segja nema kjósendur Ögmundar í suðvesturkjördæmi hafa sennilega ekki gert sér grein fyrir því að þeir væru að kjósa Davíð Oddsson. Sérhver verður að finna sér sálufélag við hæfi. Það er hins vegar þekkt að þegar ungir og vænir menn lenda í vondum félagsskap hyllast þeir til þess að reyna að sanna sig með því að ganga enn lengra í óknyttunum en eldri meðlimir klíkunnar. Ýmislegt bendir til að þetta hafi einmitt hent Ögmund; hann hélt um daginn ræðu um embættismenn sem ánetjast hafi ferðum til Brussel. Hann gaf til kynna að það fólk sem svo átti að heita forðum að hann ætti samleið með, og væri raunar í forsvari fyrir – opinberir starfsmenn – láti stjórnast í starfi sínu að Evrópusamstarfi af stjórnlausri fíkn í ferðalög til Brussel, rétt eins og ferðalög séu enn sjaldgæf gæði hér á landi. Hann lét að því liggja að þetta fólk leggi sig ekki fram í þágu lands og þjóðar, vinni störf sín ekki af heilinum en sé með hugann við að komast til Brussel, það sem það hafi fram að færa sé ekki marktækt. Þetta er ófyrirleitið lýðskrum af því tagi sem maður gæti vænst að sjá hjá bullunum á amx.is en varla frá fyrrum formanni BSRB. Hvernig á fólk að verjast slíkum ásökunum? Hvernig er hægt að neita því að maður láti stjórnast af lágum hvötum? Með þessu tali reynir Ögmundur að grafa undan því fólki sem á nú í samningaviðræðum við Evrópusambandið, vekja tortyggni í garð þess. Innanríkisráðherrann er ekki einungis í stjórnarandstöðu við þá ríkisstjórn sem hann situr í – hann er líka andvígur því fólki sem starfar í stjórnsýslunni. Hann er á móti öllum – nema Davíð. Það er alls ekki slæm tilhugsun að vera utan Evrópusambandsins. Það má alveg hugsa sér litla og knáa eyþjóð í norðri sem lifir af þeim gæðum sem landið og miðin í kring gefa og selur varning sinn um allar jarðir; þjóð sem nýtir sér vakin og sofin hátækni og öll tækifæri sem bjóðast í ört minnkandi heimi til að ná góðum tengslum við fjarlægar þjóðir á eigin forsendum. Og svo framvegis. Þetta er ágætt. Að vísu skulum við muna að þann tíma sem Ísland hefur verið fullvalda lýðveldi var það lengst af undir verndarvæng Bandaríkjamanna. Það kostaði sitt og fyrir það fékkst eitt og annað, eins og lesa má um í bókum Vals Ingimundarsonar: Íslenskar ríkisstjórnir voru ódeigar að rukka Bandaríkjamenn fyrir aðstöðuna hér á landi – ekki síður svonefndar vinstri stjórnir en hinar. Bandaríski herinn fór á haustdögum 2006. Íslendingar brugðust við með því að hefja stórsókn til Evrópu til að leggja hana undir sig – með lánsfé. Tveimur árum síðar bað Geir Haarde guð að blessa Ísland. En það má alveg hugsa sér að vera utan Evrópusambandsins. Þó það nú væri. En það má líka alveg hugsa sér að vera innan þess. Og óskandi væri að þjóðin fengi stjórnmálamenn sem litu á þetta mál út frá sjónarmiðum stéttastjórnmálanna, út frá hagsmunum fólks, lífsjörum, fremur en að lifa sig inn í ræður frá 19. aldar sjálfstæðisstjórnmálum. Getum við ekki að minnsta kosti reynt að tala saman eins og fólk? Endurtekin brigsl Ögmundar Jónassonar um mútuþægni þeirra sem vilja ganga í ESB („glerperlur og eldvatn") eru satt að segja alveg óbærileg. Vera má að þessum gamla verkalýðsforingja finnist ekki skipta máli hvort lífskjör batna við inngöngu eður ei en aðrir hafa af því áhyggjur af við kunnum að missa unga fólkið okkar úr landi ef hér er ekki gott að búa, gott andrúmsloft, góð laun, góð lánakjör, góðir stjórnmálamenn. Sem stendur – hér í heiðinni þar sem allt er „ósköp frjálst" – höfum við ekkert af þessu. Það er sagt að þjóðir fái þá stjórnmálamenn sem þær eiga skilið. Það er ekki satt. Engin þjóð á skilið að búa við stjórnmál af þessu tagi.