Menning

Einn plús einn er meira en tveir

Sara og Svanhildur eru einstaklega samtaka við strigann.
Sara og Svanhildur eru einstaklega samtaka við strigann. Fréttablaðið/Valli
Systurnar Sara og Svanhildur Vilbergsdætur eru báðar málarar sem undanfarna 18 mánuði hafa stundað "dúettmálun", málað saman stórar, litríkar, sjálfsævisögulegar myndir. Friðrika Benónýsdóttir forvitnaðist um hvernig sköpun þeirra systra verður til.



„Við byrjuðum að mála saman fyrir algjöra tilviljun," segja systurnar Sara og Svanhildur Vilbergsdætur sem síðan á menningarnótt 2010 hafa stundað „dúettmálun" eins og þær kalla það og opna sýningu á myndum sínum í Listasafni ASÍ á Safnanótt, föstudaginn 10. febrúar.

„Þannig var að ég var fengin til að mála Vestfjarðahlutann á sjö metra löngu málverki sem Ferðamálastofa fékk listamenn til að mála fyrir framan áhorfendur. Einn listamaður frá hverjum landshluta átti að mála sinn landshluta á metra af verkinu og við fengum bara klukkutíma til þess að klára," útskýrir Sara.

„Ég sá fram á að lenda í mikilli tímaþröng og bað Svanhildi að koma og vera til staðar. Við máttum kalla áhorfendur til aðstoðar en ég hafði gert svo flókna skissu að ég varð að hafa einhvern með mér sem ég treysti. Svanhildur er náttúrulega málari og veit um hvað málið snýst. Ég er vön að mála fyrir framan fólk, búin að vera að kenna lengi, og átti ekki von á að það myndi stressa mig, en af einhverjum ástæðum fór ég gjörsamlega á taugum. Svanhildur kemur hlaupandi í síðu tjullpilsi, það var sko menningarnótt, og tekur bara stjórnina. Róar mig niður og er algjörlega með þetta á hreinu. Þetta var alveg ný upplifun þar sem ég er nú stóra systir og hef litið á það sem mitt hlutverk að passa hana. En þarna snerist þetta alveg við."

Eftir þessa reynslu ákváðu systurnar að prófa að mála saman, „bara í gamni" eins og Svanhildur segir. „Við fórum að hittast á vinnustofu Söru uppi á Korpúlfsstöðum og það bara gerðist eitthvað. Við urðum algjörlega helteknar af þessu. Fórum að hringjast á oft á dag og kasta á milli okkar hugmyndum. Sáum til dæmis eitthvað í fréttunum sem kveikti hugmynd sem við síðan ræddum fram og til baka og mótuðum í sameiningu, eins og til dæmis myndirnar um Tiger Woods. Við reyndum að hittast eins oft og við gátum og gleymdum okkur alveg við að mála, máluðum stundum í tólf tíma í beit. Við erum mjög ólíkar manneskjur en þegar við stöndum saman við strigann þá er eins og verði til þriðja elementið samsett úr okkur báðum og við einhvern veginn rennum saman. Það hefur aldrei komið upp sú staða að við séum ekki sammála um hvernig eitthvað í myndunum á að vera, sem er stórmerkilegt eins ólíkar og við erum. Einn plús einn er nefnilega meira en tveir í svona samvinnu."

Sara er þekktur málari sem hefur haldið fjölda einkasýninga en minna hefur borið á Svanhildi, hvað kom til að hún hellti sér af krafti út í málverkið? „Ég var alltaf upptekin af því að vinna fyrir salti í grautinn og hugsaði með mér að ég gæti bara geymt að mála þangað til ég væri komin á ellilífeyri," segir Svanhildur. „Árið 2009 fékk ég svo krabbamein og var tekin út úr systeminu, hætti að vinna og var í geislameðferð. Þá skapaðist rými og andrúm til að endurskoða afstöðuna og skilja að maður hefur ekki allan tíma í heimi til að sinna því sem skiptir mann máli. Þannig að stundum finnst mér að krabbameinið hafi verið guðsgjöf til að beina mér á rétta braut."

Þær systur eru engan veginn hættar að mála saman, fram undan er mánaðar vinnustofudvöl í Danmörku og hugmyndirnar halda áfram að flæða. Hafa þær unnið eitthvað sín í hvoru lagi síðan þær byrjuðu að mála saman? „Nei, ekki neitt," segir Sara og hlær. „Það er eins og það hafi bara horfið úr huganum. Þessi samvinna er svo ótrúlega skemmtileg, gefandi og frjó og svo margar hugmyndir sem við eigum eftir að mála að ég sé ekki fram á að við hættum þessu á næstunni."

Á opnuninni á föstudaginn verða þær systur ekki einu fjölskyldumeðlimirnir í kastljósinu, þótt þær verði auðvitað í aðalhlutverkum. Faðir þeirra, Vilberg Vilbergsson rakari á Ísafirði, betur þekktur sem Villi Valli, og bróðir þeirra, Rúnar Vilbergsson fagottleikari, munu leika dúetta á harmonikku og fagott fyrir gesti. Einnig verður sýnt myndband af systrunum í aksjón við strigann og einu herbergi safnsins breytt í vinnustofu til að sýna andrúmsloftið sem verkin spretta úr. Sýningin stendur til 4. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×