Hvað með það? Guðmundur Andri Thorsson skrifar 13. febrúar 2012 08:00 Þeir sáust saman á bíó dómarinn og verjandinn í máli Baldurs Guðlaugssonar. Og hvað með það? Mega nú gamlir félagar ekki lengur fara saman í bíó til að slaka á eftir erfiðan dag án þess að eiga á hættu að það sé komið í DV daginn eftir og gert tortryggilegt og afbakað á alla lund? Greinilega ekki. Þeir fóru á bíó saman strákarnir, Benedikt Bogason dómari og Karl Axelsson lögmaður og Helgi Jóhannesson félagi Karls hjá Lögmannsstofunni Lex. Þeir sáu Contraband, hressa smyglaramynd. Strákarnir. Og hvað með það? Þetta er gömul aðferð við að slaka á – og efla tengslin. Þegar karlmenn fara saman á bíó er það eiginlega næsta stig við að detta í það saman, fara á völlinn saman; strákar að gera eitthvað strákalegt sér og vera í sínum hóp með sínum líkum; það er samvera sem sýnir sterk og sérstök tengsl, maður fer ekki á bíó nema með elstu og traustustu vinum sínum. Þó að ég hitti mann sem ég kannaðist við úti í búð og spjallaði svolítið við hann um landsins gagn og nauðsynjar og sameiginlega vini þá kæmi það mjög skringilega út ef ég myndi í miðju samtali stinga upp á því að við færum saman á bíó. Til þess að karlmenn fari saman á bíó þarf sterkustu vinaböndin. Þetta er ein af ótal óskráðum reglum samfélagsins. Og hvað með hvað? Þær eru fjölmargar óskráðu og ósögðu reglurnar í þessu samfélagskríli okkar. Sérhvert mengi samfélagsins hefur sínar. Rithöfundar hafa sínar, sjómenn sínar, hjúkrunarfræðingar sínar. Ég veit ekki hvernig þetta er hjá lögfræðingum og dómurum; fyrir mér er þetta bara fólk í skikkjum þarna uppi einhvers staðar, í upphæðum réttlætisins og viskunnar. Það hafði aldrei hvarflað að mér að dómarar gerðu yfirleitt nokkuð annað en að sitja í sinni einmanalegu tign og siðferðilega hásæti og vera þaðan komnir að dæma lifendur og dauða. Svo færu þeir heim að lesa Spinoza og Áfanga Sigurðar Nordal. En auðvitað er þetta allt bara fólk og á sína vini, skólasystkini og fjölskyldu – sitt líf. Þau eru sjálfsagt mörg álitamálin. Og ég veit ekki hvort til sé einhver óskráð regla um að varasamt sé að dómari í dómsmáli fari með verjanda máls í bíó meðan á málflutningi stendur eða sé yfirhöfuð mikið að hanga með honum á því tímabili. Svo að tekið sé dæmi af knattspyrnuleik – þar sem ég þekki að vísu ekkert til – held ég að það sé fátt við því að segja að dómari og þjálfari liðs séu vinir utanvallar og fari saman í bíó en ég veit ekki hvernig það kæmi út í ef þeir færu saman í hálfleik þar sem dómarinn væri að dæma og þjálfarinn að þjálfa og fengju sér pylsu. Bara þeir og vinur þeirra úr liði þjálfarans. Hvað myndu mennirnir í hinu liðinu segja? Hvernig yrði litið á dóma viðkomandi í seinni hálfleik? Það er nú það. Svo margt hér á landi virðist talið í lagi sem þætti varasamt í löndum þar sem óskráðar siðareglur eru rótgrónari, samgangur fólks stífari og háðari uppruna og stöðu. Þetta er soddan samfélagskríli hér og til allrar hamingju hálfstéttlaust og fólk tengist svo margvíslegum vina- og hagsmunaböndum. Samfélagið er allt þéttriðið hagsmunaneti þar sem við eigum öll hönk upp í bakið á einhverjum sem á hönk upp í bakið á einhverjum öðrum sem kannski á hönk upp í bakið á manni sjálfum. Hér er almennt ansi mikil hönk. Við erum þremenningar og makar systkinabarna, skólasystkin, nágrannar, saman í boltanum, gamlir sénsar, saman í sjósundi, foreldrafélaginu, vinnufélagar, allt í einni hagsmunabendu þvers og kruss. Og gerum hvert öðru alls konar greiða, vegna þess einfaldlega að við erum upp til hópa frekar almennileg. Þetta þéttriðna samfélagsnet okkar hefur ótal kosti. Það vitra fólk sem skapaði Gay-pride hátíðina áttaði sig til dæmis betur á þessu tengslaeðli samfélagsins en margur annar þegar það lagði áherslu á að hátíðin skyldi vera fjölskylduhátíð, skyldi binda en ekki losa, laða en ekki hrinda. Þannig að óskráðar reglur eru kannski óljósari hér en víða annars staðar þar sem rétt og röng hegðun lýtur ströngum en ósýnilegum reglum. Þetta er ágætt þegar eitthvað kemur upp á og við hendum frá okkur daglegu dóti og léttum undir með hvert öðru. Og kannski er það ágætt í venjulegu árferði. En það er ekki venjulegt árferði. Og hvað með það? Þetta: fólkið sem þjóðfélagið samanstendur af, fólkið þarna úti, smiðirnir, sjómennirnir, meinatæknarnir, lyfjafræðingarnir, tölvufræðingarnir, skrifstofufólkið, deildarfulltrúarnir, sjúkraliðarnir, kennararnir – fólkið sem myndar þetta þéttofna net, þetta þetta litla samfélag – það treystir ekki lengur æðstu stofnunum samfélagsins. Það treystir ekki alþingi. Það heldur að þar sitji fólk sem hugsi um það eitt að skara eld að sinni köku. Það treystir ekki kirkjunni, er hætt að þykjast trúa á guð, nennir varla lengur að trúa á þetta „eitthvað" sem Íslendingar hafa þó til skamms tíma sagst trúa á og tigna. Það treystir ekki dómstólunum. Það sér Héraðsdóm sem hvað eftir annað fær dóma sína í hausinn frá Hæstarétti með áminningum um fúsk. Það sér Hæstarétt sem ógilti kosningar til Stjórnlagaþings með veigalitlum rökstuðningi. Það sér Bridgefélagann og Frændann. Það sér ekki lengur Sérstakan saksóknara að vandræðast með þessar möppur í sjónvarpsfréttunum vegna þess að hann er horfinn bak við skjalafjallið. Það sér afskriftir og aflausnir allra aflendinga. Það sér fjárglæframenn sem eru forhertir; það sér yfirstétt sem er spillt. Þeir sáust saman á bíó, dómarinn og verjandinn – meðan hún hefur sjálfsagt verið heima að grúfa sig ofan í skjalafjallið, konan sem sækir málið gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrum ráðuneytisstjóra og innstakoppi Sjálfstæðismanna, sem seldi bréfin sín í bankanum í kjölfar funda þar sem bág staða bankanna var trúnaðarefnið. Hvað með það? Þetta: traust er ekki einkamál dómarans. Það er ekki nóg að hann treysti sér fullkomlega. Honum – og samfélaginu öllu – er höfuðnauðsyn á því að aðrir hafi traust á honum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Hvar er mannúðin? Davíð Sól Pálsson Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun
Þeir sáust saman á bíó dómarinn og verjandinn í máli Baldurs Guðlaugssonar. Og hvað með það? Mega nú gamlir félagar ekki lengur fara saman í bíó til að slaka á eftir erfiðan dag án þess að eiga á hættu að það sé komið í DV daginn eftir og gert tortryggilegt og afbakað á alla lund? Greinilega ekki. Þeir fóru á bíó saman strákarnir, Benedikt Bogason dómari og Karl Axelsson lögmaður og Helgi Jóhannesson félagi Karls hjá Lögmannsstofunni Lex. Þeir sáu Contraband, hressa smyglaramynd. Strákarnir. Og hvað með það? Þetta er gömul aðferð við að slaka á – og efla tengslin. Þegar karlmenn fara saman á bíó er það eiginlega næsta stig við að detta í það saman, fara á völlinn saman; strákar að gera eitthvað strákalegt sér og vera í sínum hóp með sínum líkum; það er samvera sem sýnir sterk og sérstök tengsl, maður fer ekki á bíó nema með elstu og traustustu vinum sínum. Þó að ég hitti mann sem ég kannaðist við úti í búð og spjallaði svolítið við hann um landsins gagn og nauðsynjar og sameiginlega vini þá kæmi það mjög skringilega út ef ég myndi í miðju samtali stinga upp á því að við færum saman á bíó. Til þess að karlmenn fari saman á bíó þarf sterkustu vinaböndin. Þetta er ein af ótal óskráðum reglum samfélagsins. Og hvað með hvað? Þær eru fjölmargar óskráðu og ósögðu reglurnar í þessu samfélagskríli okkar. Sérhvert mengi samfélagsins hefur sínar. Rithöfundar hafa sínar, sjómenn sínar, hjúkrunarfræðingar sínar. Ég veit ekki hvernig þetta er hjá lögfræðingum og dómurum; fyrir mér er þetta bara fólk í skikkjum þarna uppi einhvers staðar, í upphæðum réttlætisins og viskunnar. Það hafði aldrei hvarflað að mér að dómarar gerðu yfirleitt nokkuð annað en að sitja í sinni einmanalegu tign og siðferðilega hásæti og vera þaðan komnir að dæma lifendur og dauða. Svo færu þeir heim að lesa Spinoza og Áfanga Sigurðar Nordal. En auðvitað er þetta allt bara fólk og á sína vini, skólasystkini og fjölskyldu – sitt líf. Þau eru sjálfsagt mörg álitamálin. Og ég veit ekki hvort til sé einhver óskráð regla um að varasamt sé að dómari í dómsmáli fari með verjanda máls í bíó meðan á málflutningi stendur eða sé yfirhöfuð mikið að hanga með honum á því tímabili. Svo að tekið sé dæmi af knattspyrnuleik – þar sem ég þekki að vísu ekkert til – held ég að það sé fátt við því að segja að dómari og þjálfari liðs séu vinir utanvallar og fari saman í bíó en ég veit ekki hvernig það kæmi út í ef þeir færu saman í hálfleik þar sem dómarinn væri að dæma og þjálfarinn að þjálfa og fengju sér pylsu. Bara þeir og vinur þeirra úr liði þjálfarans. Hvað myndu mennirnir í hinu liðinu segja? Hvernig yrði litið á dóma viðkomandi í seinni hálfleik? Það er nú það. Svo margt hér á landi virðist talið í lagi sem þætti varasamt í löndum þar sem óskráðar siðareglur eru rótgrónari, samgangur fólks stífari og háðari uppruna og stöðu. Þetta er soddan samfélagskríli hér og til allrar hamingju hálfstéttlaust og fólk tengist svo margvíslegum vina- og hagsmunaböndum. Samfélagið er allt þéttriðið hagsmunaneti þar sem við eigum öll hönk upp í bakið á einhverjum sem á hönk upp í bakið á einhverjum öðrum sem kannski á hönk upp í bakið á manni sjálfum. Hér er almennt ansi mikil hönk. Við erum þremenningar og makar systkinabarna, skólasystkin, nágrannar, saman í boltanum, gamlir sénsar, saman í sjósundi, foreldrafélaginu, vinnufélagar, allt í einni hagsmunabendu þvers og kruss. Og gerum hvert öðru alls konar greiða, vegna þess einfaldlega að við erum upp til hópa frekar almennileg. Þetta þéttriðna samfélagsnet okkar hefur ótal kosti. Það vitra fólk sem skapaði Gay-pride hátíðina áttaði sig til dæmis betur á þessu tengslaeðli samfélagsins en margur annar þegar það lagði áherslu á að hátíðin skyldi vera fjölskylduhátíð, skyldi binda en ekki losa, laða en ekki hrinda. Þannig að óskráðar reglur eru kannski óljósari hér en víða annars staðar þar sem rétt og röng hegðun lýtur ströngum en ósýnilegum reglum. Þetta er ágætt þegar eitthvað kemur upp á og við hendum frá okkur daglegu dóti og léttum undir með hvert öðru. Og kannski er það ágætt í venjulegu árferði. En það er ekki venjulegt árferði. Og hvað með það? Þetta: fólkið sem þjóðfélagið samanstendur af, fólkið þarna úti, smiðirnir, sjómennirnir, meinatæknarnir, lyfjafræðingarnir, tölvufræðingarnir, skrifstofufólkið, deildarfulltrúarnir, sjúkraliðarnir, kennararnir – fólkið sem myndar þetta þéttofna net, þetta þetta litla samfélag – það treystir ekki lengur æðstu stofnunum samfélagsins. Það treystir ekki alþingi. Það heldur að þar sitji fólk sem hugsi um það eitt að skara eld að sinni köku. Það treystir ekki kirkjunni, er hætt að þykjast trúa á guð, nennir varla lengur að trúa á þetta „eitthvað" sem Íslendingar hafa þó til skamms tíma sagst trúa á og tigna. Það treystir ekki dómstólunum. Það sér Héraðsdóm sem hvað eftir annað fær dóma sína í hausinn frá Hæstarétti með áminningum um fúsk. Það sér Hæstarétt sem ógilti kosningar til Stjórnlagaþings með veigalitlum rökstuðningi. Það sér Bridgefélagann og Frændann. Það sér ekki lengur Sérstakan saksóknara að vandræðast með þessar möppur í sjónvarpsfréttunum vegna þess að hann er horfinn bak við skjalafjallið. Það sér afskriftir og aflausnir allra aflendinga. Það sér fjárglæframenn sem eru forhertir; það sér yfirstétt sem er spillt. Þeir sáust saman á bíó, dómarinn og verjandinn – meðan hún hefur sjálfsagt verið heima að grúfa sig ofan í skjalafjallið, konan sem sækir málið gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrum ráðuneytisstjóra og innstakoppi Sjálfstæðismanna, sem seldi bréfin sín í bankanum í kjölfar funda þar sem bág staða bankanna var trúnaðarefnið. Hvað með það? Þetta: traust er ekki einkamál dómarans. Það er ekki nóg að hann treysti sér fullkomlega. Honum – og samfélaginu öllu – er höfuðnauðsyn á því að aðrir hafi traust á honum.