Erlent

Jarðakaup Kínverja dæmd ólögmæt

Það er víðar en á Íslandi sem deilt er um landakaup kínverskra fjárfesta.
Það er víðar en á Íslandi sem deilt er um landakaup kínverskra fjárfesta.
Dómstóll á Nýja-Sjálandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að kínverskum fjárfestum sé óheimilt að kaupa þarlendar bújarðir í stórum stíl.

Kínverska félagið Shanghai Pangxin stefndi að því að festa kaup á sextán slíkum jörðum á átta þúsund hektara svæði á norðureyju Nýja-Sjálands. Þar sem um var að ræða meira en fimm hektara lands sem metið var á meira en sem nemur tíu milljörðum króna þörfnuðust viðskiptin samþykkis frá Skrifstofu um erlendar fjárfestingar.

Samþykkið var veitt með þeim rökum að fjárfestingin myndi skila sér út í hagkerfið með bættum afköstum býlanna.

Nýsjálensk bændasamtök höfðu mótmælt sölunni og boðist til að kaupa bújarðirnar sjálf.

Nú hefur dómstóll úrskurðað kaup Kínverjanna ólögmæt, meðal annars á grundvelli þess að í félaginu væri ekki næg þekking á mjólkuriðnaði, sem væri forsenda fyrir samþykki erlendrar fjárfestingar í geiranum. Þá taldi dómarinn enn fremur að býlin á jörðunum væru svo illa stödd að litlu skipti hver keypti þau – samfélagslegur ávinningur af slíkum viðskiptum yrði alltaf mikill.

Talsmaður Shanghai Pangxin sagðist þrátt fyrir dóminn bjartsýnn á að af sölunni yrði. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×