Sænskur maður, sem fannst í bíl sínum á föstudag eftir að hafa verið fastur í tvo mánuði, hafði búið í bílnum frá því um mitt síðasta ár. Þetta segja sænskir fjölmiðlar.
Maðurinn heitir Peter Skyllberg og er 44 ára gamall. Honum var bjargað úr bílnum, sem hafði snjóað inni á fáförnum vegi. Skyllberg segist ekki hafa borðað síðan 19. desember, þegar bíllinn festist. Hann segist hafa lifað á snjó, en hann er mjög máttfarinn og hefur lítið getað tjáð sig við lögreglu.
Verslunareigandi í nágrenni við staðinn þar sem maðurinn fannst hefur sagt við fjölmiðla að maðurinn hafi vanið komur sínar þangað í byrjun sumars. Hann hafi sagst búa í skóginum og sofa ýmist í tjaldi eða í bílnum. Hann hafi misst vinnuna sem smiður í Örebro. Aftonbladet hefur einnig eftir ónafngreindum manni sem þekkir Skyllberg að hann hafi verið skuldum vafinn og lánardrottnar verið á eftir honum. Hann hafi því látið sig hverfa í maí og ekki látið heyra í sér síðan.
Efasemdir hafa vaknað um að maðurinn hafi í raun lifað í 60 daga án matar. Prófessor í næringarfræði við Uppsalaháskóla segir að ólíklegt sé að fólk geti lifað svona lengi án matar, en mögulegt sé að kuldinn hafi hjálpað til. Frostið náði allt að 30 gráðum.- þeb
Missti vinnuna og bjó í bílnum
