„Fleiri gerast nú vígamenn en eg ætlaði" Guðmundur Andri Thorsson skrifar 27. febrúar 2012 07:00 Furðulegt hefur verið að fylgjast með atlögunni að Gunnari Andersen. Sigurður G. Guðjónsson, þjóðkunnur lögmaður alls konar manna sem Fjármálaeftirlitið hefur kært fyrir markaðsmisnotkun og skapandi bókhald gekk fram fyrir skjöldu og fann Gunnari allt til foráttu, enda hefur stofnunin verið öflug og rösk og afgreitt fjársvikamál með hraði til sérstaks saksóknara eftir að hafa verið værukærasta og umburðarlyndasta stofnun landsins um árabil. Árás Sigurðar G. Guðjónssonar á Gunnar er ekkert skrýtin; hann er bara að vinna sína vinnu, gæta hagsmuna þeirra manna sem hann er ráðinn til að sinna; hann er að tefja og þvæla og þæfa og þrugla málin með öllum meðulum; þannig gengur það fyrir sig réttarríkið og ekkert nema gott um það að segja því að sérhver grunaður eða ákærður maður hefur rétt á því að fá svo góða vörn sem kostur er. Sigurður spilar fasta vörn. Hann sinnir bara vinnu sinni. Gera það allir? Hvað er að ske? Það er að minnsta kosti óþarfi að láta heillast svo af varnartilburðum Sigurðar að flykkjast með honum í vörnina til að fara að tuddast þar með honum á aðalskyttu sóknarliðsins. Það er alveg nóg fyrir Gunnar Andersen að hafa alla dýrustu lögmenn landsins hangandi á sér, togandi í treyjuna, klípandi, lemjandi og sláandi - hann þarf ekki á því að halda að fá líka stökkvandi á sig eigin liðsmenn; og sjálf stjórnin komi gargandi af bekknum með nýjum erindreka úr óvæntri átt og gamlir blakmenn meira að segja allt í einuj farnir að reyna að smassa á hann. Allt í einu þarf Gunnar að að verjast atlögum úr eigin ranni. Og ekki skorar hann mikið á meðan. Hatrammar árásir Sigurðar G. Guðjónssonar á Gunnar og þær vammir sem hann telur sig hafa grafið upp á hendur honum er sem sé bara það sem vænta mátti. En kannski er kominn tími til að við hættum að leyfa honum að þykjast vera eins og hver annar maður úti í bæ að hlýða kalli samviskunnar. Sigurður er auðvitað ekki bara einhver „hæstaréttalögmaður telur…" eins og það heitir alltaf hjá Fréttastofunni, rétt eins og einskær titillinn veiti mönnum status véfréttarinnar í Delfí eða jafnvel sjálfs Jahve. Í slíkur tilvikum væri nær að segja: „Verjandi Sigurjóns Árnasonar telur að málið á hendur honum eigi að ónýta." Árás Sigurðar og annarra leyndra og ljósra skutilsveina aflandsvíkinganna ættu í rauninni, væri allt með felldu, að vera alveg sérstakur gæðastimpill á verk Gunnars Andersen og til marks um það að hann vinni einmitt af heilindum og ákveðni. Viðbrögð stjórnvalda vekja sérstaka furðu. Sérlegur lögmaður Alþýðubandalagsins er allt í einu mættur og farinn að gefa „huglægt mat" þvert á eldri lögfræðiálit og formaður stjórnar farinn að tala um „ávirðingar". Um þátt VG í þessari atlögu má hafa orð Njáls á Bergþórshvoli þegar hann frétti af framgöngu Þórðar gamla leysingjasonar í Húskarlavígum þeirra Bergþóru og Hallgerðar og lét segja sér þrem sinnum: „Fleiri gerast nú vígamenn en ég ætlaði." Gunnari var sagt upp - eða ekki - eða kannski - eiginlega - og þó varla - hvað sem þetta nú var þá var ráðist að Gunnari að því er virðist með að minnsta kosti þegjandi samþykki Steingríms J ráðherra. Og þegar Gunnar vill verjast atlögunni og notar til þess öll meðul - þar á meðal fjölmiðla - þá verður stjórnin hvumsa og virðist ekki hafa hreinlega gert ráð fyrir þeim möguleika að hann hefði eitthvað við það að athuga að vera sagt upp. Þetta er svo kauðalegt að engu er líkara en að þeir Otkell og Skammkell og Grani og Gunnar Lambason séu að ráðast á Gunnar… Gunnar Andersen virðist manni vera utanaðkomandi - hann er ekki partur af bræðralögunum hér, sem sennilega veldur óvinsældum hans í lögfræðingafélaginu. Þetta er styrkur hans og höfuðforsenda þess að geta rannsakað hrunið. Maður hefði talið að þessi atlaga hefði átt að verða til þess að stjórnvöld stæðu enn betur við bakið á honum og starfsfólki hans, létu hann finna traustið sem þau bæru til hans, og reyndu að miðla því trausti til almennings, til að auðvelda þessari mikilvægu stofnun að sinna einhverjum brýnustu verkefnum sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir síðan lýðveldið var stofnað: að byggja upp traust á réttarkerfinu og skapa þar með forsendur fyrir nýjum stöðugleika. Verði ekki komið lögum yfir þá fjárplógsmenn sem létu greipar sópa um gróin fyrirtæki með brellum og lygafléttum er tómt mál að tala um siðferðilega, hugmyndalega og viðskiptalega endurreisn Íslands. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Furðulegt hefur verið að fylgjast með atlögunni að Gunnari Andersen. Sigurður G. Guðjónsson, þjóðkunnur lögmaður alls konar manna sem Fjármálaeftirlitið hefur kært fyrir markaðsmisnotkun og skapandi bókhald gekk fram fyrir skjöldu og fann Gunnari allt til foráttu, enda hefur stofnunin verið öflug og rösk og afgreitt fjársvikamál með hraði til sérstaks saksóknara eftir að hafa verið værukærasta og umburðarlyndasta stofnun landsins um árabil. Árás Sigurðar G. Guðjónssonar á Gunnar er ekkert skrýtin; hann er bara að vinna sína vinnu, gæta hagsmuna þeirra manna sem hann er ráðinn til að sinna; hann er að tefja og þvæla og þæfa og þrugla málin með öllum meðulum; þannig gengur það fyrir sig réttarríkið og ekkert nema gott um það að segja því að sérhver grunaður eða ákærður maður hefur rétt á því að fá svo góða vörn sem kostur er. Sigurður spilar fasta vörn. Hann sinnir bara vinnu sinni. Gera það allir? Hvað er að ske? Það er að minnsta kosti óþarfi að láta heillast svo af varnartilburðum Sigurðar að flykkjast með honum í vörnina til að fara að tuddast þar með honum á aðalskyttu sóknarliðsins. Það er alveg nóg fyrir Gunnar Andersen að hafa alla dýrustu lögmenn landsins hangandi á sér, togandi í treyjuna, klípandi, lemjandi og sláandi - hann þarf ekki á því að halda að fá líka stökkvandi á sig eigin liðsmenn; og sjálf stjórnin komi gargandi af bekknum með nýjum erindreka úr óvæntri átt og gamlir blakmenn meira að segja allt í einuj farnir að reyna að smassa á hann. Allt í einu þarf Gunnar að að verjast atlögum úr eigin ranni. Og ekki skorar hann mikið á meðan. Hatrammar árásir Sigurðar G. Guðjónssonar á Gunnar og þær vammir sem hann telur sig hafa grafið upp á hendur honum er sem sé bara það sem vænta mátti. En kannski er kominn tími til að við hættum að leyfa honum að þykjast vera eins og hver annar maður úti í bæ að hlýða kalli samviskunnar. Sigurður er auðvitað ekki bara einhver „hæstaréttalögmaður telur…" eins og það heitir alltaf hjá Fréttastofunni, rétt eins og einskær titillinn veiti mönnum status véfréttarinnar í Delfí eða jafnvel sjálfs Jahve. Í slíkur tilvikum væri nær að segja: „Verjandi Sigurjóns Árnasonar telur að málið á hendur honum eigi að ónýta." Árás Sigurðar og annarra leyndra og ljósra skutilsveina aflandsvíkinganna ættu í rauninni, væri allt með felldu, að vera alveg sérstakur gæðastimpill á verk Gunnars Andersen og til marks um það að hann vinni einmitt af heilindum og ákveðni. Viðbrögð stjórnvalda vekja sérstaka furðu. Sérlegur lögmaður Alþýðubandalagsins er allt í einu mættur og farinn að gefa „huglægt mat" þvert á eldri lögfræðiálit og formaður stjórnar farinn að tala um „ávirðingar". Um þátt VG í þessari atlögu má hafa orð Njáls á Bergþórshvoli þegar hann frétti af framgöngu Þórðar gamla leysingjasonar í Húskarlavígum þeirra Bergþóru og Hallgerðar og lét segja sér þrem sinnum: „Fleiri gerast nú vígamenn en ég ætlaði." Gunnari var sagt upp - eða ekki - eða kannski - eiginlega - og þó varla - hvað sem þetta nú var þá var ráðist að Gunnari að því er virðist með að minnsta kosti þegjandi samþykki Steingríms J ráðherra. Og þegar Gunnar vill verjast atlögunni og notar til þess öll meðul - þar á meðal fjölmiðla - þá verður stjórnin hvumsa og virðist ekki hafa hreinlega gert ráð fyrir þeim möguleika að hann hefði eitthvað við það að athuga að vera sagt upp. Þetta er svo kauðalegt að engu er líkara en að þeir Otkell og Skammkell og Grani og Gunnar Lambason séu að ráðast á Gunnar… Gunnar Andersen virðist manni vera utanaðkomandi - hann er ekki partur af bræðralögunum hér, sem sennilega veldur óvinsældum hans í lögfræðingafélaginu. Þetta er styrkur hans og höfuðforsenda þess að geta rannsakað hrunið. Maður hefði talið að þessi atlaga hefði átt að verða til þess að stjórnvöld stæðu enn betur við bakið á honum og starfsfólki hans, létu hann finna traustið sem þau bæru til hans, og reyndu að miðla því trausti til almennings, til að auðvelda þessari mikilvægu stofnun að sinna einhverjum brýnustu verkefnum sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir síðan lýðveldið var stofnað: að byggja upp traust á réttarkerfinu og skapa þar með forsendur fyrir nýjum stöðugleika. Verði ekki komið lögum yfir þá fjárplógsmenn sem létu greipar sópa um gróin fyrirtæki með brellum og lygafléttum er tómt mál að tala um siðferðilega, hugmyndalega og viðskiptalega endurreisn Íslands.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun