„Við fengum dánarbú í hús og hugsuðum með okkur að við þyrftum einhvern veginn að koma því í pening," segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.
Fjölskylduhjálpin hefur nú komið á fót húsmunasölu fyrir utan aðstöðu sína í Eskihlíð. Þar verður opið alla miðvikudaga en tekið á móti framlögum alla virka daga frá klukkan eitt til sex. Ágóðinn rennur í matarsjóð samtakanna.
Í dánarbúinu sem barst Fjölskylduhjálpinni í vikunni voru meðal annars sófi, tvö eldhúsborð og stólar, örbylgjuofn, símaborð, hægindastóll og þvottavél. „Það er strax eitthvað farið að seljast," sagði Ásgerður Jóna um miðjan dag í gær. - sh
