Dagur fjörþyngdar Brynhildur Björnsdóttir skrifar 7. maí 2012 08:00 Megrunarlausi dagurinn var í gær og margir hugsuðu sér eflaust gott til glóðarsteiktrar rifjasteikur, bernaise-sósu og súkkulaðiköku, þegar megrun er ekki málið, eins og hún virðist annars vera hjá þorra þjóðar aðra daga ársins. Fyrir mér er megrunarlausi dagurinn fyrst og fremst dagur meðvitundar um nokkur atriði: Megrun er ekki náttúrulegt ástand. Þó að hugurinn sé alltaf einhvers staðar í framtíðinni hefur líkaminn okkar lítið breyst síðan á steinöld, þegar þeir lifðu harðan veturinn af sem gátu safnað fituforða, þekktu orkuríka matinn og voru duglegir að borða hann. Það er mannskepnum því mjög eðlilegt að sækja í feitan og sætan mat. Holdafarsvandamál liggja fremur í framboðinu á sætum og feitum mat en hjá þeim sem borða hann. Megrun er atvinnuvegur. Fjöldi fólks hefur af því atvinnu að hjálpa öðrum að grennast, ýmist með bókum, halda námskeið, setja saman kúra eða framleiða duft. Þessir hagsmunaaðilar eru síðan langalgengustu álitsgjafarnir þegar rætt er um holdafar og hollustu. Megrun er tímaþjófur og orkusuga. Þegar líkaminn er sveltur (en megrun er skilgreind sem það að borða minna en líkaminn þarf, þannig að hann neyðist til að ganga á fituforða) leitar hugurinn allra leiða til að minna á það. Í megrun hugsar fólk þess vegna um mat allan daginn og eyðir gríðarlegum tíma og orku í að berjast við langanir sínar í staðinn fyrir að gera eitthvað þarfara eða skemmtilegra. Megrun er ekki það sama og hollusta. Það er nákvæmlega ekkert hollt við það að borða tólf hundruð hitaeiningar á dag, sleppa fitu eða kolvetnum í lengri tíma, hreyfa sig með brennslu eina að markmiði eða svelta sig hálfan daginn. Megrun virkar sjaldan. Ef einhver kúr virkaði fyrir flesta væri offita úr sögunni. Megrunarlausi dagurinn er ekki árlegur svalldagur þeirra sem „þurfa að missa nokkur kíló" (sem eru reyndar nánast allir, samkvæmt opinberum kjörþyngdarstuðlum) eða þeirra sem „vilja halda sér í horfinu". Þetta er ekki frídagur frá megruninni sem annars ræður öllum málsverðum hina þrjú hundruð sextíu og fjóra daga ársins, megruninni sem stjórnar tilfinningum, sjálfstrausti og líðan fjölda einstaklinga. Megrunarlausi dagurinn snýst um virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, afslöppun gagnvart mat, alls konar fegurð og heilsu óháð holdafari, hæð, þyngd, lit eða lögun. Hann snýst ekki um kjörþyngd heldur fjörþyngd, þar sem saman fer vellíðan, heilbrigði og gleði. Ég er að spá í að halda hann aftur hátíðlegan í dag. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Brynhildur Björnsdóttir Mest lesið Hin dásamlega sturlun: Umræðan á Íslandi Davíð Bergmann Skoðun 90 milljarða vannýtt útflutningstækifæri Vilhjálmur Hilmarsson Skoðun Við getum öll bjargað lífi Kristófer Kristófersson Skoðun Opið bréf til innviðaráðherra Eyjólfur Þorkelsson Skoðun „Hristir í stoðum“ RÚV? Hermann Stefánsson Skoðun Að bjarga þjóð Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Það er heldur betur vitlaust gefið á Íslandi Jónas Yngvi Ásgrímsson Skoðun Fyrir hvern erum við að byggja? Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Skoðun Nýtt örorkulífeyriskerfi Inga Sæland Skoðun Að bera harm sinn í hljóði Gunnhildur Ólafsdóttir Skoðun
Megrunarlausi dagurinn var í gær og margir hugsuðu sér eflaust gott til glóðarsteiktrar rifjasteikur, bernaise-sósu og súkkulaðiköku, þegar megrun er ekki málið, eins og hún virðist annars vera hjá þorra þjóðar aðra daga ársins. Fyrir mér er megrunarlausi dagurinn fyrst og fremst dagur meðvitundar um nokkur atriði: Megrun er ekki náttúrulegt ástand. Þó að hugurinn sé alltaf einhvers staðar í framtíðinni hefur líkaminn okkar lítið breyst síðan á steinöld, þegar þeir lifðu harðan veturinn af sem gátu safnað fituforða, þekktu orkuríka matinn og voru duglegir að borða hann. Það er mannskepnum því mjög eðlilegt að sækja í feitan og sætan mat. Holdafarsvandamál liggja fremur í framboðinu á sætum og feitum mat en hjá þeim sem borða hann. Megrun er atvinnuvegur. Fjöldi fólks hefur af því atvinnu að hjálpa öðrum að grennast, ýmist með bókum, halda námskeið, setja saman kúra eða framleiða duft. Þessir hagsmunaaðilar eru síðan langalgengustu álitsgjafarnir þegar rætt er um holdafar og hollustu. Megrun er tímaþjófur og orkusuga. Þegar líkaminn er sveltur (en megrun er skilgreind sem það að borða minna en líkaminn þarf, þannig að hann neyðist til að ganga á fituforða) leitar hugurinn allra leiða til að minna á það. Í megrun hugsar fólk þess vegna um mat allan daginn og eyðir gríðarlegum tíma og orku í að berjast við langanir sínar í staðinn fyrir að gera eitthvað þarfara eða skemmtilegra. Megrun er ekki það sama og hollusta. Það er nákvæmlega ekkert hollt við það að borða tólf hundruð hitaeiningar á dag, sleppa fitu eða kolvetnum í lengri tíma, hreyfa sig með brennslu eina að markmiði eða svelta sig hálfan daginn. Megrun virkar sjaldan. Ef einhver kúr virkaði fyrir flesta væri offita úr sögunni. Megrunarlausi dagurinn er ekki árlegur svalldagur þeirra sem „þurfa að missa nokkur kíló" (sem eru reyndar nánast allir, samkvæmt opinberum kjörþyngdarstuðlum) eða þeirra sem „vilja halda sér í horfinu". Þetta er ekki frídagur frá megruninni sem annars ræður öllum málsverðum hina þrjú hundruð sextíu og fjóra daga ársins, megruninni sem stjórnar tilfinningum, sjálfstrausti og líðan fjölda einstaklinga. Megrunarlausi dagurinn snýst um virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, afslöppun gagnvart mat, alls konar fegurð og heilsu óháð holdafari, hæð, þyngd, lit eða lögun. Hann snýst ekki um kjörþyngd heldur fjörþyngd, þar sem saman fer vellíðan, heilbrigði og gleði. Ég er að spá í að halda hann aftur hátíðlegan í dag.