Menning

Með fyrsta skólaverkefnið sitt á Cannes-hátíðina

Jasmin Rexhepi, nemandi við Kvikmyndaskóla Íslands, er á leið með skólaverkefni sitt á kvikmyndahátíðina í Cannes.
Jasmin Rexhepi, nemandi við Kvikmyndaskóla Íslands, er á leið með skólaverkefni sitt á kvikmyndahátíðina í Cannes. fréttablaðið/stefán
Jasmin Rexhepi, nemandi við Kvikmyndaskóla Íslands, er á leið með fyrsta skólaverkefni sitt á kvikmyndahátíðina í Cannes á miðvikudaginn næsta. Kvikmyndin á að gerast í Frakklandi en var tekin upp á heimili Jasmin í Reykjavík.

Jasmin er frá Kósóvó en flutti hingað til lands fyrir fjórum árum síðan og er nú að ljúka sínu öðru ári við Kvikmyndaskólann. Stuttmynd hans, The Forgotten Monique, verður sýnd í Short Corner-flokknum í Cannes sem er sérstaklega ætlaður stuttmyndum.

„Það er gamall draumur minn að sýna á Cannes og því ákvað ég að sækja um á hátíðinni um leið og myndin var tilbúin. Ég hef fengið einhverja fjárhagsaðstoð sem gerir mér kleift að komast út og ég er orðinn mjög spenntur fyrir ferðinni," útskýrir Jasmin sem hyggst nýta tækifærið til að mynda sambönd við framleiðendur og aðra kvikmyndagerðamenn.

Jasmin kveðst vera hrifinn af franskri kvikmyndagerð sem hann lýsir sem mjög listrænni og þangað sótti hann innblástur fyrir The Forgotten Monique. „Myndin er algjörlega án samtala og mér fannst einhvern veginn passa betur ef sögumaðurinn væri franskur. Aðalleikkona myndarinnar er íslensk en með mjög franskt útlit og sá sem tók að sér að tala yfir myndina er Frakki sem er búsettur hér á landi. Ég þurfti svo að breyta íbúðinni minni þannig að hún liti út fyrir að vera frönsk og það var ekki auðvelt verk. Ég eyddi miklum tíma í að finna alls kyns hluti er gætu talist franskir í útliti og lagði mjög mikla áherslu á að smáatriðin væru í lagi og þannig gekk þetta upp."

Jasmin hyggur á áframhaldandi störf innan íslenska kvikmyndageirans í framtíðinni. „Planið er að vinna áfram hér enda er Ísland orðið mitt land og hér vil ég vera," segir hann að lokum.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×