Menning

Utah út um hliðarrúðuna

Á saltsléttunum. Svavar tók um 55 þúsund myndir á þeim þrjú þúsund kílómetrum sem hann ók á tíu dögum.
Á saltsléttunum. Svavar tók um 55 þúsund myndir á þeim þrjú þúsund kílómetrum sem hann ók á tíu dögum.
Svavar Jónatansson er nýsnúinn heim eftir tíu daga ferðalag um Utah-ríki í Bandaríkjunum. Afraksturinn er um 55 þúsund ljósmyndir sem teknar voru út um hliðarrúðu bíls í akstri eftir saltsléttunum frægu.

Árið 2007 hóf Svavar Jónatansson ljósmyndari að mynda Ísland út um hliðarrúður vöru- og fólksflutningabifreiða. Hann fór á annan tug hringja í kringum landið, sem skiluðu sér í Innland/Útland-Ísland; myndbandsverki sem kom út 2010 og samanstóð af 40 þúsund ljósmyndum og frumsaminni tónlist Daníels Ágústs Haraldssonar.

Verkið vakti áhuga aðila í Bandaríkjunum og í fyrra var ákveðið að Svavar myndi vinna sams konar myndbandsverk í Utah-ríki. Eftir um hálfs árs undirbúning hélt Svavar til Colarado í apríl síðastliðnum og ók þaðan til Salt Lake City, ásamt bílstjóranum Michael Aisner. „Næstu tíu daga ók ég um þrjú þúsund kílómetra, fram og til baka um saltsléttur Utah og yfir í suðaustur hluta ríkisins. Á því ferðalagi tók ég um 55 þúsund ljósmyndir út um hliðarrúðuna, í akstri eftir hraðbrautum, þjóðvegum, sveitavegum, þjóðgarðsvegum og í rauninni hvert sem komast mátti með góðu móti."

Svavar segir landslagið í Utah fjölbreytt og henta efnistökum sínum mjög vel. „Það er aftur á móti gífurlega heitt þarna, hitinn kominn hátt í 30 gráður í apríl. Á stöðum eins og Moab var veðrið mjög einsleitt og heiðskír himinn flesta daga, en hjá Capitol Reef, aðeins austar, var fjölbreytt skýjafar sem gerir mikið fyrir myndirnar." Svavar tekur myndirnar í Utah-verkið í tveimur lotum og gerir ráð fyrir að fara í seinna ferðina í haust. Verkið byggir á sama grunni og Innland/Útland-Ísland, en þó með nýjum viðbótum og áherslu og hefur Svavar fengið til liðs við sig tvö tónskáld á vegum tónlistarháskólans í Salt Lake City til að semja tónlist við verkið, sem hann vonast til að verði tilbúið næsta vetur.

Hluti verksins er líka hugsaður sem stakar myndir, með bókaútgáfu sem möguleika, en Svavar vinnur einmitt að gerð bókar upp úr Íslandsverkinu ásamt hönnuðinum Bergdísi Sigurðardóttur.

Svavar er umsjónarmaður útvarpsþáttanna Vestur um haf á Rás eitt á föstudögum, en í sumar stýrir hann þáttunum Liðast um landið sem útvarpað verður á sömu rás.

bergsteinnfrettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×