Óður til knattspyrnunnar Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar 15. júní 2012 06:00 Til er saga af hermanni frá Balkanskaganum sem barðist í seinni heimsstyrjöldinni og upplifði í stríðinu ólýsanlegan hrylling. Stuttu eftir að stríðinu lauk hætti hann að tala. Læknar fundu enga líkamlega áverka á manninum né greindu þeir heilaskaða. Hann gat lesið, skrifað, skilið tal annarra og fylgt skipunum. Sjálfur talaði hann hins vegar ekki við nokkurn mann, ekki einu sinni vini og fjölskyldu. Að lokum var manninum komið fyrir á sjúkraheimili fyrir slasaða hermenn og dvaldi hann þar í áratugi. Einn daginn var starfsmaður á sjúkraheimilinu að hlusta á útvarpslýsingu frá fótboltaleik þar sem við áttust lið úr heimaborg hermannsins og erkifjendurnir úr nágrannaborginni. Á lykilaugnabliki í leiknum dæmdi dómarinn víti á liðið úr heimaborg hermannsins. Þögli hermaðurinn stökk þá upp úr stólnum sem hann sat í og öskraði á útvarpið sín fyrstu orð í þrjá áratugi: „Heimski fáviti, ertu að reyna að gefa þeim leikinn!" Síðan settist hann aftur niður og mælti aldrei annað orð svo lengi sem hann lifði. Mikill er máttur knattspyrnunnar yfir tilfinningalífi áhugafólks um leikinn. Ég þekki það af eigin raun eftir að hafa verið nær óvinnufær allt sumarið 2007 vegna skelfilegs gengis KR í íslensku deildinni það sumarið. Að sama skapi virtist veröldin sérstaklega fögur síðasta sumar þegar allt gekk upp hjá mínum mönnum. Flestir þekkja dæmi af því að íþróttin hafi haft áhrif sem þessi á einstaklinga en hún getur líka haft áhrif á heilu þjóðirnar. Þannig auka stórmót í knattspyrnu viðskipti á milli keppnisþjóðanna. Þá fyllir sigur í stórmóti íbúa þess lands sem sigrar bjartsýni og ýtir þar með merkjanlega undir umsvif í viðkomandi hagkerfi. Þess vegna vonast hagfræðingar hollenska bankans ABN-AMRO eftir frönskum sigri í sumar því þeir telja efnahagslega mikilvægast fyrir Evrópu að skuldakreppan á evrusvæðinu læsi ekki klónum í Frakkland. Fyrir hina sem ekki hafa áhuga á fótbolta gæti líka verið gagnlegt að hafa í huga að það hægist á flestri starfsemi í landi þegar viðkomandi landslið spilar á stórmóti. Þannig hefur komið í ljós að viðskipti í kauphöllum minnka til muna þegar landslið þess lands, sem viðkomandi kauphöll er stödd í, spilar. Hver veit nema íslenskir miðlarar reyni að nýta sér það þegar Ísland spilar á EM 2016. Þá munu nefnilega 24 lið spila en ekki 16 eins og á mótinu í sumar. Þessa dagana leika færustu knattspyrnumenn Evrópu um næststærstu verðlaun knattspyrnuheimsins. Þetta er veisla og það þarf ekkert að skammast sín fyrir að sýna smá ástríðu fyrir mótinu og fegurð hins fallega leiks. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Magnús Þorlákur Lúðvíksson Skoðanir Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Til er saga af hermanni frá Balkanskaganum sem barðist í seinni heimsstyrjöldinni og upplifði í stríðinu ólýsanlegan hrylling. Stuttu eftir að stríðinu lauk hætti hann að tala. Læknar fundu enga líkamlega áverka á manninum né greindu þeir heilaskaða. Hann gat lesið, skrifað, skilið tal annarra og fylgt skipunum. Sjálfur talaði hann hins vegar ekki við nokkurn mann, ekki einu sinni vini og fjölskyldu. Að lokum var manninum komið fyrir á sjúkraheimili fyrir slasaða hermenn og dvaldi hann þar í áratugi. Einn daginn var starfsmaður á sjúkraheimilinu að hlusta á útvarpslýsingu frá fótboltaleik þar sem við áttust lið úr heimaborg hermannsins og erkifjendurnir úr nágrannaborginni. Á lykilaugnabliki í leiknum dæmdi dómarinn víti á liðið úr heimaborg hermannsins. Þögli hermaðurinn stökk þá upp úr stólnum sem hann sat í og öskraði á útvarpið sín fyrstu orð í þrjá áratugi: „Heimski fáviti, ertu að reyna að gefa þeim leikinn!" Síðan settist hann aftur niður og mælti aldrei annað orð svo lengi sem hann lifði. Mikill er máttur knattspyrnunnar yfir tilfinningalífi áhugafólks um leikinn. Ég þekki það af eigin raun eftir að hafa verið nær óvinnufær allt sumarið 2007 vegna skelfilegs gengis KR í íslensku deildinni það sumarið. Að sama skapi virtist veröldin sérstaklega fögur síðasta sumar þegar allt gekk upp hjá mínum mönnum. Flestir þekkja dæmi af því að íþróttin hafi haft áhrif sem þessi á einstaklinga en hún getur líka haft áhrif á heilu þjóðirnar. Þannig auka stórmót í knattspyrnu viðskipti á milli keppnisþjóðanna. Þá fyllir sigur í stórmóti íbúa þess lands sem sigrar bjartsýni og ýtir þar með merkjanlega undir umsvif í viðkomandi hagkerfi. Þess vegna vonast hagfræðingar hollenska bankans ABN-AMRO eftir frönskum sigri í sumar því þeir telja efnahagslega mikilvægast fyrir Evrópu að skuldakreppan á evrusvæðinu læsi ekki klónum í Frakkland. Fyrir hina sem ekki hafa áhuga á fótbolta gæti líka verið gagnlegt að hafa í huga að það hægist á flestri starfsemi í landi þegar viðkomandi landslið spilar á stórmóti. Þannig hefur komið í ljós að viðskipti í kauphöllum minnka til muna þegar landslið þess lands, sem viðkomandi kauphöll er stödd í, spilar. Hver veit nema íslenskir miðlarar reyni að nýta sér það þegar Ísland spilar á EM 2016. Þá munu nefnilega 24 lið spila en ekki 16 eins og á mótinu í sumar. Þessa dagana leika færustu knattspyrnumenn Evrópu um næststærstu verðlaun knattspyrnuheimsins. Þetta er veisla og það þarf ekkert að skammast sín fyrir að sýna smá ástríðu fyrir mótinu og fegurð hins fallega leiks.