Innlent

Búist við 10 til 15 þúsund gestum í Víðidal

Gestir Landsmóts hestamanna voru í óða önn að koma sér fyrir í Víðidalnum þegar ljósmyndara Fréttablaðsins kíkti við síðdegis í gær. Fréttablaðið/Anton
Gestir Landsmóts hestamanna voru í óða önn að koma sér fyrir í Víðidalnum þegar ljósmyndara Fréttablaðsins kíkti við síðdegis í gær. Fréttablaðið/Anton
Landsmót hestamanna hefst í dag en í ár fer mótið fram í Víðidal í Reykjavík. Mikill viðbúnaður hefur verið í dalnum í aðdraganda mótsins en búist er við 10 til 15 þúsund gestum.

"Hér er mikil eftirvænting og allir á fullu að hjálpast að við að gera Víðidalinn sem hátíðlegastan. Það er lagt mikið í skreytingar en öll aðstaða hér er til fyrirmyndar og nóg af plássi fyrir áhorfendur, keppendur og hross," segir Hilda Karen Garðarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Landsmóts.

Í gær var svokölluð hópreið sex félaga á höfuðborgarsvæðinu á Landsmót en hátt í 200 knapar tóku þátt í henni. Tilgangurinn er að halda í gamlar hefðir landsmótsins.

Um 1.000 hross verða á landsmótinu í ár og eru knaparnir á öllum aldri, frá sjö ára upp í sjötugt. Mótið hefst klukkan 8 í dag en sjálf setningarathöfnin verður ekki fyrr en á fimmtudaginn. Þá er forkeppnum lokið og úrslitin hefjast. Mótinu lýkur síðan sunnudaginn 1. júlí með verðlaunaafhendingu.

Hilda Karen vill beina því til gesta að takmarka bílaumferð um Víðidalinn á meðan á mótinu stendur og reyna frekar að koma fótgangandi, á hjóli eða notast við almenningssamgöngur.

Strætó hefur útbúið sérstaka akstursleið frá Lækjartorgi í Víðidal á meðan mótið stendur yfir. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á strætó.is.- áp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×