Verkís er elsta verkfræðistofa landsins og hefur áratugalanga reynslu og þekkingu sem skilar sér í traustri og faglegri ráðgjöf og fjölbreyttum lausnum. Verkís býr yfir sérfræðiþekkingu sem spannar allar þarfir framkvæmdaaðila allt frá fyrstu hugmynd til verkloka. Að auki býður Verkís þjónustu við margháttuð rekstrar- og viðhaldsverkefni, bæði fyrir einkaaðila sem og opinbera.
Áhersla á orkumálin
„Við hjá Verkís höfum lagt megináherslu á orkumál í gegnum tíðina. Starfsfólk Verkís hefur tekið veigamikinn þátt í hönnun allflestra vatnsaflsvirkjana á Íslandi. Við höfum líka komið að öllum jarðvarmavirkjunum á Íslandi og vorum leiðandi í hitaveituvæðingu landsins," segir Sveinn Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís.
„Orkumál hafa alltaf verið okkur mjög hugleikin og verið mjög stór þáttur í okkar þjónustu."
Fleiri verkefni í stóriðju

„Verkís er aðili að sérhæfða þjónustufyrirtækinu HRV, sem veitir álverunum þremur á landinu fjölbreytta tækniþjónustu. Að auki veitir Verkís sveitarfélögum víðtæka þjónustu í umhverfis- og samgöngumálum," segir Sveinn.
Hann segir byggingasvið Verkís einnig vera öflugt en það þjónustar byggingaraðila, verktaka og aðra þá sem eru að byggja atvinnuhúsnæði og opinberar byggingar, en veitir einnig þjónustu í viðhaldi og viðgerðum húsnæðis fyrir einkaaðila. Verkís er með fimm útibú um allt land en þau veita almenna verkfræðiþjónusta til einkaaðila, sveitarfélaga og ríkis.
Verkefni erlendis

„Stefna Verkís er að vera áfram öflugur þjónustuaðili í öllum þeim verkefnum sem það tekur sér fyrir hendur hér innanlands. Við erum með talsvert af verkefnum úti um allan heim, mest á sviði orkumála. Við stefnum að því að útvíkka þjónustuframboð okkar erlendis með því að bjóða upp á almenna verkfræðiþjónustu í löndunum í kringum okkur og erum byrjuð á því. Við erum til dæmis með nokkur verkefni á Grænlandi og í Noregi."
Sérstaða fyrirtækisins

Jafnrétti er í hávegum haft hjá fyrirtækinu. „Við fengum áþreifanlega sönnun á því að hér sé jafnrétti í launamálum þegar við fórum í gegnum jafnlaunaúttekt hjá PWC og fengum þá niðurstöðu að það sé ekki marktækur munur á launum kynjanna hér á stofunni," segir Sveinn.
Áttatíu ára afmæli

„Við höfum í gegnum tíðina safnað að okkur mikilli reynslu og höfum leyst mörg verkefni á öllum sviðum. Við erum afskaplega ánægð með að hafa náð þessum háa aldri og höldum reglulega upp á afmælið á árinu. Við héldum meðal annars glæsilega tónleika í maí og ráðgerum að halda ráðstefnu í haust með áherslu á orkumál," segir Sveinn.