Gaufið við Geysi á enda? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 7. september 2012 06:00 Alltof lengi hafa mál hins heimsfræga hverasvæðis í Haukadal verið í ólestri. Átroðningur ferðamanna eykst þar stöðugt og nú er talið að um hálf milljón manna heimsæki svæðið árlega. Ekki hafa verið til peningar til að bæta aðgang, merkingar og þjónustu við ferðamenn og þess vegna liggur þessi náttúruperla undir skemmdum eins og svo margar aðrar víða um land. Skorti á skiltum, merktum stígum og landvörzlu fylgir aukinheldur slysahætta. Flókið eignarhald á svæðinu hefur ekki hjálpað til. Ríkið á þar rúman þriðjung á móti öðrum landeigendum. Ríkisstofnanir og pólitíkusar hafa um árabil staðið gapandi ráðþrota frammi fyrir ófremdarástandinu á Geysi, rétt eins og við Gullfoss, í Dimmuborgum eða við Dettifoss, svo fáein dæmi séu nefnd. Þrátt fyrir einfalda lausn sem er notuð víða um heim, að rukka gesti þessara staða um aðgangseyri og nota tekjurnar til að byggja upp þjónustu við þá, hafa okkar ástkæru stjórnvöld gaufað fram og til baka í málinu án þess að taka nokkurn tímann af skarið. Þess vegna er fagnaðarefni að einkaaðilarnir sem eiga Geysi á móti ríkinu, landeigendur í Haukadal, hafi tekið á sig rögg og stofnað félag um uppbyggingu svæðisins. „Skipuleg uppbygging getur ekki beðið lengur," segja Geysisbændur og hafa þar alveg rétt fyrir sér. Þegar gengið var á forsvarsmenn félagsins í Fréttablaðinu í gær um það hvort til stæði að hefja gjaldtöku á svæðinu svöruðu þeir ofurvarlega að það yrði verkefni stjórnar félagsins að taka ákvörðun um það. Garðar Eiríksson, talsmaður félagsins, vísar hins vegar til kannana sem gerðar hafa verið hjá gestum við Geysi, þar sem fram kemur að þeir eru ekki fráhverfir gjaldtöku og raunar hissa á að ekki skuli yfirleitt vera gjaldtaka á ferðamannasvæðum á Íslandi. Það er ekkert skrýtið, því að í löndunum sem þetta fólk kemur frá er slík gjaldtaka regla fremur en undantekning. Segja má að landeigendafélagið byrji á öfugum enda á viðskiptaáætluninni þegar það áformar miklar fjárfestingar og uppbyggingu á svæðinu án þess að tekjustofnarnir séu ljósir. Það liggur þó í raun í augum uppi að aðgangseyrir er lausnin á málinu. Ferðamenn væru jafnvel reiðubúnir að borga fyrir aðgang að Geysissvæðinu eins og það er í dag. Kannanir hafa sýnt að sé góð þjónusta í boði, er greiðsluviljinn enn ríkari. Ríkið vildi ekki vera með í félagi landeigenda, sem er í fullu samræmi við einbeitt stefnuleysi þess í málinu árum saman. Fyrir nokkrum dögum lýsti það sig þó reiðubúið til að gera samstarfssamning við landeigendafélagið og í Fréttablaðinu í dag stynur talsmaður fjármálaráðuneytisins upp fallegum orðum um að „sameiginlegur vettvangur" til að ræða málin sé nauðsynlegur. Vonandi stendur ríkisvaldið að minnsta kosti ekki í vegi fyrir því að heimamenn geri það sem gera þarf til að bjarga þessari náttúruperlu og bæta aðgengið fyrir þann gríðarlega fjölda, sem langar til að njóta hennar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Alltof lengi hafa mál hins heimsfræga hverasvæðis í Haukadal verið í ólestri. Átroðningur ferðamanna eykst þar stöðugt og nú er talið að um hálf milljón manna heimsæki svæðið árlega. Ekki hafa verið til peningar til að bæta aðgang, merkingar og þjónustu við ferðamenn og þess vegna liggur þessi náttúruperla undir skemmdum eins og svo margar aðrar víða um land. Skorti á skiltum, merktum stígum og landvörzlu fylgir aukinheldur slysahætta. Flókið eignarhald á svæðinu hefur ekki hjálpað til. Ríkið á þar rúman þriðjung á móti öðrum landeigendum. Ríkisstofnanir og pólitíkusar hafa um árabil staðið gapandi ráðþrota frammi fyrir ófremdarástandinu á Geysi, rétt eins og við Gullfoss, í Dimmuborgum eða við Dettifoss, svo fáein dæmi séu nefnd. Þrátt fyrir einfalda lausn sem er notuð víða um heim, að rukka gesti þessara staða um aðgangseyri og nota tekjurnar til að byggja upp þjónustu við þá, hafa okkar ástkæru stjórnvöld gaufað fram og til baka í málinu án þess að taka nokkurn tímann af skarið. Þess vegna er fagnaðarefni að einkaaðilarnir sem eiga Geysi á móti ríkinu, landeigendur í Haukadal, hafi tekið á sig rögg og stofnað félag um uppbyggingu svæðisins. „Skipuleg uppbygging getur ekki beðið lengur," segja Geysisbændur og hafa þar alveg rétt fyrir sér. Þegar gengið var á forsvarsmenn félagsins í Fréttablaðinu í gær um það hvort til stæði að hefja gjaldtöku á svæðinu svöruðu þeir ofurvarlega að það yrði verkefni stjórnar félagsins að taka ákvörðun um það. Garðar Eiríksson, talsmaður félagsins, vísar hins vegar til kannana sem gerðar hafa verið hjá gestum við Geysi, þar sem fram kemur að þeir eru ekki fráhverfir gjaldtöku og raunar hissa á að ekki skuli yfirleitt vera gjaldtaka á ferðamannasvæðum á Íslandi. Það er ekkert skrýtið, því að í löndunum sem þetta fólk kemur frá er slík gjaldtaka regla fremur en undantekning. Segja má að landeigendafélagið byrji á öfugum enda á viðskiptaáætluninni þegar það áformar miklar fjárfestingar og uppbyggingu á svæðinu án þess að tekjustofnarnir séu ljósir. Það liggur þó í raun í augum uppi að aðgangseyrir er lausnin á málinu. Ferðamenn væru jafnvel reiðubúnir að borga fyrir aðgang að Geysissvæðinu eins og það er í dag. Kannanir hafa sýnt að sé góð þjónusta í boði, er greiðsluviljinn enn ríkari. Ríkið vildi ekki vera með í félagi landeigenda, sem er í fullu samræmi við einbeitt stefnuleysi þess í málinu árum saman. Fyrir nokkrum dögum lýsti það sig þó reiðubúið til að gera samstarfssamning við landeigendafélagið og í Fréttablaðinu í dag stynur talsmaður fjármálaráðuneytisins upp fallegum orðum um að „sameiginlegur vettvangur" til að ræða málin sé nauðsynlegur. Vonandi stendur ríkisvaldið að minnsta kosti ekki í vegi fyrir því að heimamenn geri það sem gera þarf til að bjarga þessari náttúruperlu og bæta aðgengið fyrir þann gríðarlega fjölda, sem langar til að njóta hennar.