Hungurleikarnir á Miklubraut Guðmundur Andri Thorsson skrifar 10. september 2012 10:30 Við vorum á Spáni fjölskyldan í sumar og meðal þess sem var svo ánægjulegt að upplifa var sá siður ökumanna að staðnæmast nær undantekningarlaust fyrir gangandi vegfarendum. Þetta er víst mikið gert í útlöndum, heyrir maður. Annað sem var beinlínis hrífandi að fylgjast með í fari hinna erlendu ökumanna var sá siður þeirra að gefa stefnuljós þegar þeir hugðust beygja, svo að aðrir vegfarendur gætu gert ráðstafanir í samræmi við það. Svona er þetta víst í útlöndum. Þar er ekki farið með áform um væntanlega beygju sem viðkvæmar trúnaðarupplýsingar sem heyra undir persónuvernd ? Eins og hjá sumum. Við þekkjum öll staðlaðar hugmyndir um ökulag tilgreindra þjóða og hvernig það endurspeglar eitthvað sem kennt er við þjóðarkarakter. Ítalirnir með allt handapatið að veifa hver öðrum út um bílglugga; Englendingar öfugum megin í sinni sérviskuræktun og heimsveldisórum; Frakkar með óskiljanleg hringtorg; Indverjar brunandi fyrir blindhornin með ramma forlagahyggju að leiðarljósi; Þjóðverjar – vrúmm! – áfram á átóbönum og vei þeim sem drollar þar á framúrakrein – þar líðst engum að hugsa: ég hef ákveðið að vera hér á vinstri akrein og ég ætla að vera þar eins og mér hentar og aka eins og mér sýnist og ég tel mig hafa fullt leyfi til ... Eins og hjá sumum. Því þar er auðvitað íslenski ökubúrinn lifandi kominn, sem áskilur sér fullan rétt til að þvælast fyrir öðrum sé hann í skapi til þess. Sem hann er ansi oft. Við erum áreiðanlega vænsta fólk hér á Íslandi en sé sú kenning rétt að ökulag endurspegli þjóðarsál er óneitanlega viss ástæða til að hafa áhyggjur "Helvíti – það eru hinir“Íslenskir ökumenn eru ekki glaðlegt fólk á vondum degi – og oft eru vondir dagar: það er rigning, skyggni ekkert og það er verið að rífast um lánavísitöluútreikninga í útvarpinu; miðstöðin á fullu til að ná móðunni af rúðunni og þrátt fyrir lækkandi bensínverð á alþjóðamörkuðum hefur samráðsnefnd olíufélaganna tilkynnt að staða innkaupajöfnunarreiknings sé slík að verðið á bensíni þurfi að hækka um þrettán krónur frá og með gærdeginum. Svona dagar, og stundum er stemningin drungaleg á stóru umferðargötunum. Það hvarflar stundum að manni að íslenskir bílstjórar líti á aðra ökumenn eins og hina keppendurna í Hungurleikunum. Þeir sjá þá að minnsta kosti ekki sem meðborgara á sömu leið heldur óvini sem þarf að sjá við og snúa á. Á fjölförnum umferðargötum er loftið lævi blandið. Hver og einn virðist staðráðinn í að láta ekki hlut sinn fyrir neinum. Vera á undan að næstu ljósum. Ná leiftursnöggt að smeygja sér inn í bilið sem kann að vera milli tveggja bíla þar sem bílstjórarnir eru þeir afglapar að hafa bíllengd á milli sín; auka hraðann geri einhver sig líklegan til að skipta um akrein og halda honum þannig á þeirri akrein sem hann vill ekki vera á. Allt virðist snúast um að sigra. Þetta er keppni. Og í hverju skyldi vera keppt? Það veit enginn. Og verðlaunin? Engin nema ánægjan af því að hafa náð að gera öðrum lífið svolítið leitt. Umfram allt: Sú aðgerð að gefa stefnuljós er veikleikamerki. Þar með vita hinir keppendurnir um áform þín og standa betur að vígi en ella. Látirðu ógert að gefa stefnuljós en beygir svo bara allt í einu hefur þér þó að minnsta kosti tekist að tefja þann sem beið átekta og þar með hefurðu náð dýrmætu frumkvæði. Í hverju? Keppninni. Hvaða keppni? Nú Keppninni. Og erum við þá svona? Það mætti ætla það. En svo hittir maður þetta sama fólk einhvers staðar þar sem það þarf ekki að vera í Keppninni og þá reynist þetta vænsta fólk fullt af tillitssemi og elskulegheitum og horfir alls ekki á mann eins og það telji mann sitja á svikráðum við sig – öðru nær. ÖkuleiðiEiginlega er önnur skýring nærtækari á þessu útbreidda fúllyndi íslenskra ökumanna í umferðinni og hún er sú að Íslendingum leiðist almennt að aka bíl. Um leið og þeir séu komnir undir stýri geti þeir naumast á heilum sér tekið fyrr en þeir eru lausir við þetta og komnir heim á Facebook. Eina fólkið – fyrir utan olíufélögin – sem hefur einhverja ánægju af samgöngumálum hér á landi eru listrænu umferðarverkfræðingarnir sem hér hannar hver sína útfærslu af umferðarslaufu og fær þar með útrás fyrir listrænan metnað sinn. Eitt af því versta sem áralöng stjórn fulltrúa bílasala og olíufélaga á Reykjavík og nágrannabyggðum hefur haft í för með sér er hinn nánast algjöri skortur á almenningssamgöngum sem hér ríkir – sú gjörtæka fyrirlitning á slíkum ferðamáta sem ráðið hefur för um árabil þar sem litið er á það að ferðast með strætó sem jafngildi þess að fara á fátækrahæli. Og meðal annarra orða: Hvenær fáum við lestirnar? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Við vorum á Spáni fjölskyldan í sumar og meðal þess sem var svo ánægjulegt að upplifa var sá siður ökumanna að staðnæmast nær undantekningarlaust fyrir gangandi vegfarendum. Þetta er víst mikið gert í útlöndum, heyrir maður. Annað sem var beinlínis hrífandi að fylgjast með í fari hinna erlendu ökumanna var sá siður þeirra að gefa stefnuljós þegar þeir hugðust beygja, svo að aðrir vegfarendur gætu gert ráðstafanir í samræmi við það. Svona er þetta víst í útlöndum. Þar er ekki farið með áform um væntanlega beygju sem viðkvæmar trúnaðarupplýsingar sem heyra undir persónuvernd ? Eins og hjá sumum. Við þekkjum öll staðlaðar hugmyndir um ökulag tilgreindra þjóða og hvernig það endurspeglar eitthvað sem kennt er við þjóðarkarakter. Ítalirnir með allt handapatið að veifa hver öðrum út um bílglugga; Englendingar öfugum megin í sinni sérviskuræktun og heimsveldisórum; Frakkar með óskiljanleg hringtorg; Indverjar brunandi fyrir blindhornin með ramma forlagahyggju að leiðarljósi; Þjóðverjar – vrúmm! – áfram á átóbönum og vei þeim sem drollar þar á framúrakrein – þar líðst engum að hugsa: ég hef ákveðið að vera hér á vinstri akrein og ég ætla að vera þar eins og mér hentar og aka eins og mér sýnist og ég tel mig hafa fullt leyfi til ... Eins og hjá sumum. Því þar er auðvitað íslenski ökubúrinn lifandi kominn, sem áskilur sér fullan rétt til að þvælast fyrir öðrum sé hann í skapi til þess. Sem hann er ansi oft. Við erum áreiðanlega vænsta fólk hér á Íslandi en sé sú kenning rétt að ökulag endurspegli þjóðarsál er óneitanlega viss ástæða til að hafa áhyggjur "Helvíti – það eru hinir“Íslenskir ökumenn eru ekki glaðlegt fólk á vondum degi – og oft eru vondir dagar: það er rigning, skyggni ekkert og það er verið að rífast um lánavísitöluútreikninga í útvarpinu; miðstöðin á fullu til að ná móðunni af rúðunni og þrátt fyrir lækkandi bensínverð á alþjóðamörkuðum hefur samráðsnefnd olíufélaganna tilkynnt að staða innkaupajöfnunarreiknings sé slík að verðið á bensíni þurfi að hækka um þrettán krónur frá og með gærdeginum. Svona dagar, og stundum er stemningin drungaleg á stóru umferðargötunum. Það hvarflar stundum að manni að íslenskir bílstjórar líti á aðra ökumenn eins og hina keppendurna í Hungurleikunum. Þeir sjá þá að minnsta kosti ekki sem meðborgara á sömu leið heldur óvini sem þarf að sjá við og snúa á. Á fjölförnum umferðargötum er loftið lævi blandið. Hver og einn virðist staðráðinn í að láta ekki hlut sinn fyrir neinum. Vera á undan að næstu ljósum. Ná leiftursnöggt að smeygja sér inn í bilið sem kann að vera milli tveggja bíla þar sem bílstjórarnir eru þeir afglapar að hafa bíllengd á milli sín; auka hraðann geri einhver sig líklegan til að skipta um akrein og halda honum þannig á þeirri akrein sem hann vill ekki vera á. Allt virðist snúast um að sigra. Þetta er keppni. Og í hverju skyldi vera keppt? Það veit enginn. Og verðlaunin? Engin nema ánægjan af því að hafa náð að gera öðrum lífið svolítið leitt. Umfram allt: Sú aðgerð að gefa stefnuljós er veikleikamerki. Þar með vita hinir keppendurnir um áform þín og standa betur að vígi en ella. Látirðu ógert að gefa stefnuljós en beygir svo bara allt í einu hefur þér þó að minnsta kosti tekist að tefja þann sem beið átekta og þar með hefurðu náð dýrmætu frumkvæði. Í hverju? Keppninni. Hvaða keppni? Nú Keppninni. Og erum við þá svona? Það mætti ætla það. En svo hittir maður þetta sama fólk einhvers staðar þar sem það þarf ekki að vera í Keppninni og þá reynist þetta vænsta fólk fullt af tillitssemi og elskulegheitum og horfir alls ekki á mann eins og það telji mann sitja á svikráðum við sig – öðru nær. ÖkuleiðiEiginlega er önnur skýring nærtækari á þessu útbreidda fúllyndi íslenskra ökumanna í umferðinni og hún er sú að Íslendingum leiðist almennt að aka bíl. Um leið og þeir séu komnir undir stýri geti þeir naumast á heilum sér tekið fyrr en þeir eru lausir við þetta og komnir heim á Facebook. Eina fólkið – fyrir utan olíufélögin – sem hefur einhverja ánægju af samgöngumálum hér á landi eru listrænu umferðarverkfræðingarnir sem hér hannar hver sína útfærslu af umferðarslaufu og fær þar með útrás fyrir listrænan metnað sinn. Eitt af því versta sem áralöng stjórn fulltrúa bílasala og olíufélaga á Reykjavík og nágrannabyggðum hefur haft í för með sér er hinn nánast algjöri skortur á almenningssamgöngum sem hér ríkir – sú gjörtæka fyrirlitning á slíkum ferðamáta sem ráðið hefur för um árabil þar sem litið er á það að ferðast með strætó sem jafngildi þess að fara á fátækrahæli. Og meðal annarra orða: Hvenær fáum við lestirnar?
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun