Menning

Kostaði innan við tíu milljónir

Úr myndinni Blóðhefnd sem verður frumsýnd 12. október.
Úr myndinni Blóðhefnd sem verður frumsýnd 12. október.
„Við erum virkilega ánægðir miðað við peningana sem við vorum með í höndunum. Þetta er fyrsta alvöru hasarmynd Íslandssögunnar," segir Huginn Þór Grétarsson, meðframleiðandi og einn af leikurunum í Blóðhefnd.

Hasarmyndin kemur í bíó 12. október. Hún hefur verið í fjögur ár í vinnslu og kostnaðurinn er undir tíu milljónum króna. „Myndin var svolítið lengi í vinnslu því þetta er ekki stórt batterí með ríkisstyrkjum, heldur unnið í krafti viljans," segir Huginn Þór.

Blóðhefnd gerist í undirheimunum og fjallar um glæpahring sem ógnar fjölskyldu vegna útistandandi skulda.

Aðalpersónan, sem leikstjórinn Ingólfur Ingólfsson leikur, fyllist hefndarþorsta og tekur málin í sínar hendur.

Spurður hvort Blóðhefnd jafnist á við Svartur á leik eða Borgríki, sem einnig gerðust í íslensku undirheimunum, segist Huginn ekki vera viss. „Ég veit ekki með Svartur á leik. Hún kom rosalega vel út en ég held að þetta sé þess virði fyrir fólk sem hefur áhuga á íslenskri kvikmyndagerð að koma og skoða.

Það eru mjög flott slagsmálaatriði þarna og alvöru hasar," segir hann. Til marks um það hálsbrotnaði einn leikarinn næstum því við tökurnar og annar var skallaður svo hann vankaðist. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.