Menning

Vesturport leitar að persneskum teppum

"Mig vantar aðallega ábendingar um hvar þessi persnesku teppi er að finna, ég er að verða uppiskroppa með hugmyndir,“ segir Rakel Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturports. Leikhópurinn auglýsir eftir persneskum teppum fyrir leikmynd Hamskipta. Hamskipti eru á leiðinni á heljarinnar flakk vestanhafs, til London og Þýskalands eftir áramót og þess vegna vantar sex til átta stór teppi. Þau mega vera bæði götótt og slitin að sögn Rakelar. „Við erum að byggja þriðju leikmyndina fyrir Hamskiptin á Seyðisfirði, og þess vegna vantar mig núna ábendingar um hvort einhver lumi á þessum teppum inn í geymslu hjá sér og í staðinn fyrir að henda þeim, vilji láta okkur fá þau,“ segir Rakel sem býðst til að sækja gripina. Hamskipti verða sýnd í Kanada, Boston og Washington strax eftir áramót. Auk þess verðu hún sett upp í München í Þýskalandi í vikunni og svo sett aftur upp í London í janúar. Þar var hún var valin ein af þeim sýningum sem Lyric Hammersmith-leikhúsið telur hafa tekist best til með á þessum áratug og fara meðal annars Ingvar E. Sigurðsson, Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir út til að sýna verkið. "Þannig að við verðum með þrjár leikmyndir í fullri notkun á næsta ári sitthvoru megin við Atlantshafið,” segir Rakel og bætir við að hún þakklát fyrir allar ábendingar. Þeir sem luma á teppum eða ábendingum um hvar þau er að finna eru beðnir um að hafa samband við Rakel á póstfanginu rakel@vesturport.com. - áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×