Sköpunarverkið í fabúlunni Guðmundur Andri Thorsson skrifar 10. desember 2012 06:00 Við rogumst með heilt tré inn í stofuna til okkar, setjum á það skraut og ljós, dönsum kringum það og tignum það. Við lýsum hvern glugga og hvern skugga. Við fyllum munninn með sætum kökum og eldum mat sem okkur finnst hafa merkinguna: Jól. Við gefum hvert öðru, gleðjum hvert annað, erum saman. Við hlýðum á það fegursta sem mönnunum hefur dottið í hug að setja saman af tónafléttum. Við klæðumst okkar fínustu fötum, segjum sögur af myrkravættum, Grýlu og hennar meinvilluhyski, hræðum börnin og gleðjum þau til skiptis. Myrkrið úti er svo dimmt að ef maður vissi ekki betur gæti maður haldið að allt þetta bauk í okkur, á tíma þegar okkur langar helst að liggja og sofa alla daga, sé allsherjar galdur til að snúa heimsins hjóli, særa fram sólina sem gefur okkur lífsmagn á ný svo að enn eigum við í vændum að laufgast með vorinu… Öll þessi hátíðarhöld tjá kraftaverkið: barnsfæðingu. Þetta barn er tákn rísandi sólar og vaknandi gróðurs, þess að mannkynið eigi sér þrátt fyrir allt von.„En guð býr í …" Og hvað sem Megas segir í gysi sínu um algyðistrúna: Guð býr ekki í gaddavírnum og ekki í gasbindinu – ekki einu sinni í Gjaldheimtunni. Allt eru þetta mannanna verk. (Hver nema maðurinn getur fundið upp önnur eins ósköp og gaddavírinn? Og dreift honum um sköpunarverkið til að búta það niður í svonefnda eign.) Maðurinn fann líka upp guð – en það er ekki þar með sagt að guð sé ekki til. Gaddavírinn er svo sannarlega til þótt maðurinn hafi fundið hann upp, og hví skyldi þá guð ekki líka vera til, jafnvel þó að hann búi einungis í hugskotum og sameiginlegri vitund margra, og ritúölum? En er hann til utan skynsviðs mannanna? Einhver kynni að spyrja: Er nokkuð til utan skynsviðs mannanna – en það má líka spyrja: Er guð kannski einmitt til handan skynsviðs mannanna, svo óskiljanlegt, stórt og voldugt afl að því verður ekki komið í orð? Og trúarhugmyndir mannanna allar meira og minna vottur af grunsemd um hið óumræðilega? Hvernig förum við að því að tala um slíkar hugmyndir? Í Kristnihaldi undir jökli Halldórs Laxness segir séra Jón Prímus: „Ætli maður komist ekki nær sköpunarverkinu í fabúlunni en sönnu sögunni". Hann segir nú reyndar svo margt. Til dæmis þetta líka um guð: „sá sem dýrkar fjall eins og ótal þjóðir hafa gert, þá er fjallið hans guð; steinn ef þú göfgar stein; stokkur ef þú trúir á stokk; og svo framvegis: stórfljót, vatn í lind, vatn í skál; fiskur brauð vín; svo kálfur sem hulduhrútur; og ekki er María mey úr málaðri spýtu síðri en sú klofstóra ekkjufrú Líbídó ellegar hörundslaus tröllskessan. Byltíng sem vill mannblót." Halldór teflir þarna fram einfaldri Maríumynd gegn kvenlegum persónugervingum hugmynda þeirra Freuds og Marx sem samtíð hans trúði á sem sannleiksvotta og spámenn vísindalegra og óumdeildra lögmála. Sjálfur sér hann almættið í snjótittlingnum.Logos og Mythos Bókstafstrúin sem ryður sér rúms í Bandaríkjunum hjá kristnum öfgamönnum og í Mið-Austurlöndum jafnt hjá gyðinglegum og múslímskum öfgamönnum er ófrjó nálgun á hina eilífu spurningu um stað mannsins í tilverunni og frumglæðið í sköpunarverkinu. Viðbragðið við þessari furðulegu afneitun á mannlegri þekkingu er sú árásargjarna andtrúarhreyfing sem við höfum horft á vaxa um Vesturlönd undanfarin ár og snýst mikið að afsanna líkingarnar og dæmisögurnar; og þá rífast þeir um það hvort Jesús hafi í raun og veru gengið á vatninu. Hvorugur hópurinn virðist átta sig á því að sögurnar um guð og Jesú, Maríu og englana – Burs syni og Ými, Shiva, Seif og Völvuna – eru líkingamál. Og fjalla um eitthvað sem ekki verður tjáð með öðru móti en líkingum. Guðfræðingurinn Karen Armstrong ræðir í bók sinni The Case for God um tvö ólík horf við veruleikanum. Hún sækir til gömlu Grikkjanna hugtökin Logos og Mythos, til að skýra mál sitt: Logos er skynsemin, hin vísindalega aðferð þar sem staðreyndum er safnað saman, tilgátur settar fram og sannreyndar með tilraunum eftir tilteknum aðferðum. Þessi hugsunarháttur færði okkur heimssýn Kópernikusar, þróunarkenningu Darwins og skammtakenninguna og fleira ómetanlegt sem við erum enn að vinna úr; ásamt þeirri hugmynd að guð sé síkvikt afl en ekki fasti á himnum. Mythos hins vegar er sú gáfa að horfa á heiminn í táknlegu ljósi, eins og við gerum í listunum; að tjá og túlka heiminn í líkingu – „svo sem í skuggsjá" – og leita tiltekinna sanninda um lögmál mannlegrar tilveru sem ekki verða fundin og mæld með aðferðum Logos. Bænin er þess háttar stilling hugans, tilraun til að tengjast æðri mætti, hana þarf að læra og iðka eins og aðrar mannlegar sérgáfur. Í nafni trúar hafa mörg ódæðisverk verið framin. Líka í nafni réttlætis. Og þar með er ekki sagt að rétt sé að banna trú; banna þessa frumstæðu viðleitni að tjá samband sitt við hið síkvika lífsafl sem sumir kalla guð, Allah, Jahve, Freyju, Maríu, Sól, Jörð, stein, vatn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hvernig reiddi kosningakerfinu af í nýliðnum alþingiskosningum?" Þorkell Helgason,Kristján Jónasson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun
Við rogumst með heilt tré inn í stofuna til okkar, setjum á það skraut og ljós, dönsum kringum það og tignum það. Við lýsum hvern glugga og hvern skugga. Við fyllum munninn með sætum kökum og eldum mat sem okkur finnst hafa merkinguna: Jól. Við gefum hvert öðru, gleðjum hvert annað, erum saman. Við hlýðum á það fegursta sem mönnunum hefur dottið í hug að setja saman af tónafléttum. Við klæðumst okkar fínustu fötum, segjum sögur af myrkravættum, Grýlu og hennar meinvilluhyski, hræðum börnin og gleðjum þau til skiptis. Myrkrið úti er svo dimmt að ef maður vissi ekki betur gæti maður haldið að allt þetta bauk í okkur, á tíma þegar okkur langar helst að liggja og sofa alla daga, sé allsherjar galdur til að snúa heimsins hjóli, særa fram sólina sem gefur okkur lífsmagn á ný svo að enn eigum við í vændum að laufgast með vorinu… Öll þessi hátíðarhöld tjá kraftaverkið: barnsfæðingu. Þetta barn er tákn rísandi sólar og vaknandi gróðurs, þess að mannkynið eigi sér þrátt fyrir allt von.„En guð býr í …" Og hvað sem Megas segir í gysi sínu um algyðistrúna: Guð býr ekki í gaddavírnum og ekki í gasbindinu – ekki einu sinni í Gjaldheimtunni. Allt eru þetta mannanna verk. (Hver nema maðurinn getur fundið upp önnur eins ósköp og gaddavírinn? Og dreift honum um sköpunarverkið til að búta það niður í svonefnda eign.) Maðurinn fann líka upp guð – en það er ekki þar með sagt að guð sé ekki til. Gaddavírinn er svo sannarlega til þótt maðurinn hafi fundið hann upp, og hví skyldi þá guð ekki líka vera til, jafnvel þó að hann búi einungis í hugskotum og sameiginlegri vitund margra, og ritúölum? En er hann til utan skynsviðs mannanna? Einhver kynni að spyrja: Er nokkuð til utan skynsviðs mannanna – en það má líka spyrja: Er guð kannski einmitt til handan skynsviðs mannanna, svo óskiljanlegt, stórt og voldugt afl að því verður ekki komið í orð? Og trúarhugmyndir mannanna allar meira og minna vottur af grunsemd um hið óumræðilega? Hvernig förum við að því að tala um slíkar hugmyndir? Í Kristnihaldi undir jökli Halldórs Laxness segir séra Jón Prímus: „Ætli maður komist ekki nær sköpunarverkinu í fabúlunni en sönnu sögunni". Hann segir nú reyndar svo margt. Til dæmis þetta líka um guð: „sá sem dýrkar fjall eins og ótal þjóðir hafa gert, þá er fjallið hans guð; steinn ef þú göfgar stein; stokkur ef þú trúir á stokk; og svo framvegis: stórfljót, vatn í lind, vatn í skál; fiskur brauð vín; svo kálfur sem hulduhrútur; og ekki er María mey úr málaðri spýtu síðri en sú klofstóra ekkjufrú Líbídó ellegar hörundslaus tröllskessan. Byltíng sem vill mannblót." Halldór teflir þarna fram einfaldri Maríumynd gegn kvenlegum persónugervingum hugmynda þeirra Freuds og Marx sem samtíð hans trúði á sem sannleiksvotta og spámenn vísindalegra og óumdeildra lögmála. Sjálfur sér hann almættið í snjótittlingnum.Logos og Mythos Bókstafstrúin sem ryður sér rúms í Bandaríkjunum hjá kristnum öfgamönnum og í Mið-Austurlöndum jafnt hjá gyðinglegum og múslímskum öfgamönnum er ófrjó nálgun á hina eilífu spurningu um stað mannsins í tilverunni og frumglæðið í sköpunarverkinu. Viðbragðið við þessari furðulegu afneitun á mannlegri þekkingu er sú árásargjarna andtrúarhreyfing sem við höfum horft á vaxa um Vesturlönd undanfarin ár og snýst mikið að afsanna líkingarnar og dæmisögurnar; og þá rífast þeir um það hvort Jesús hafi í raun og veru gengið á vatninu. Hvorugur hópurinn virðist átta sig á því að sögurnar um guð og Jesú, Maríu og englana – Burs syni og Ými, Shiva, Seif og Völvuna – eru líkingamál. Og fjalla um eitthvað sem ekki verður tjáð með öðru móti en líkingum. Guðfræðingurinn Karen Armstrong ræðir í bók sinni The Case for God um tvö ólík horf við veruleikanum. Hún sækir til gömlu Grikkjanna hugtökin Logos og Mythos, til að skýra mál sitt: Logos er skynsemin, hin vísindalega aðferð þar sem staðreyndum er safnað saman, tilgátur settar fram og sannreyndar með tilraunum eftir tilteknum aðferðum. Þessi hugsunarháttur færði okkur heimssýn Kópernikusar, þróunarkenningu Darwins og skammtakenninguna og fleira ómetanlegt sem við erum enn að vinna úr; ásamt þeirri hugmynd að guð sé síkvikt afl en ekki fasti á himnum. Mythos hins vegar er sú gáfa að horfa á heiminn í táknlegu ljósi, eins og við gerum í listunum; að tjá og túlka heiminn í líkingu – „svo sem í skuggsjá" – og leita tiltekinna sanninda um lögmál mannlegrar tilveru sem ekki verða fundin og mæld með aðferðum Logos. Bænin er þess háttar stilling hugans, tilraun til að tengjast æðri mætti, hana þarf að læra og iðka eins og aðrar mannlegar sérgáfur. Í nafni trúar hafa mörg ódæðisverk verið framin. Líka í nafni réttlætis. Og þar með er ekki sagt að rétt sé að banna trú; banna þessa frumstæðu viðleitni að tjá samband sitt við hið síkvika lífsafl sem sumir kalla guð, Allah, Jahve, Freyju, Maríu, Sól, Jörð, stein, vatn.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hvernig reiddi kosningakerfinu af í nýliðnum alþingiskosningum?" Þorkell Helgason,Kristján Jónasson Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hvernig reiddi kosningakerfinu af í nýliðnum alþingiskosningum?" Þorkell Helgason,Kristján Jónasson Skoðun