Ekkert af þessum líkamlegu ummerkjum aldurs hryggir mig neitt sérstaklega því ég er með munninn fyrir neðan nefið og hjartað á sínum stað. Fyrir áratug þá var ég ráðvillt ung dama sem dillaði sér uppi á barborðum með of hraðan hjartslátt og ráðvilltan hug. Ég sagði ekki það sem ég meinti, og oftar en ekki meinti ég ekki það sem ég sagði. Það að segja bólfélaganum til, eða jafnvel sýna honum hvað mér þætti gott, var fjarlægur draumur. Samfarirnar einhvern veginn gengu sinn vanagang, svo lengi sem félaginn var sá sami. Ég vissi ekki hvernig minn líkami starfaði eða hvað honum fannst gott. Ég vissi ekki að maður ætti að tala saman í kynlífi og skiptast á að spyrja og biðja. Ég vissi ekki að maður mætti segja nei við kynlífi ef á annað borð var komið að kúri. Ég vissi ekki að útlitið skipti litlu máli, ef hjarta og hugur fylgja ekki með, því jafnvel fallegustu stóðhestarnir geta verið óttalegar bikkjur í bólinu. Ég vissi ekki að það mættu alveg vera krullur á píkunni, fæstir strákar myndu láta slíkt standa í vegi fyrir unaði. Ég vissi ekki að ást myndi ekki blossa upp úr góðu kynlífi, ég vanmat hrifninguna og taldi kynlífstækni fleyta flestum ansi langt. Ég vissi ekki að strákar eiga líka að bera ábyrgð á verjum, pillan var ekki verndarskjöldur gegn heimsins sýkingum. Þá vissi ég heldur ekki hvernig ástin breytir upplifun af kynlífi og hvað það getur verið yndislegt, fallegt, fyndið og skemmtilegt þegar stundað með þeim sem maður elskar heitt.
Nú er ég þrítug og ofsalega finnst mér ég gáfuð og lukkuleg að vita meira í dag en í gær. Ég tek næstu árum fagnandi með þeim fróðleik, visku og góða kynlífi sem þau búa yfir.
