Menning

Þrífa upp blóðið eftir Macbeth

ÁP skrifar
Leila Arge og Ásdís Guðný Guðmundsdóttir í búningadeild Þjóðleikhússins sjá um að þrífa blóðið úr búningum Macbeth.Fréttablaðið/vilhelm
Leila Arge og Ásdís Guðný Guðmundsdóttir í búningadeild Þjóðleikhússins sjá um að þrífa blóðið úr búningum Macbeth.Fréttablaðið/vilhelm
„Ég viðurkenni að þetta er mjög mikil vinna fyrir okkur en allir búningar verða að vera þrifnir og tilbúnir fyrir næstu sýningu sem oftast er daginn eftir,“ segir Leila Arge, yfirmaður búningadeildar Þjóðleikhússins.

Leila, ásamt öðrum klæðskerum í búningadeild Þjóðleikhússins, sér um að viðhalda búningum Shakespeare-sýningarinnar Macbeth, sem er subbulegri en flestar aðrar leiksýningar. Um 35 lítrum af gerviblóði er úthellt í hverri sýningu og því mikil þrif að sýningu lokinni.

„Þetta er ein mesta þvottasýning sem ég hef unnið við. Ég er samt ekki klár á því hversu margar vélar við þurfum að þvo eftir hverja sýningu, en við erum sem betur fer fjórar í þessu,“ segir Leila en fullyrðir þó að nokkuð auðvelt sé að ná gerviblóðblöndunni úr fötunum. „Við gerðum nokkrar prufur til að sjá hvaða blanda næðist best úr. Við skolum allt vel og setjum svo í þvottavél. Við erum með mjög fína þvottaaðstöðu hérna svo við getum ekki kvartað.“

Gerviblóðið er gert úr matarlit, sírópi og blautsápu og er óneitanlega klístrað. „Það eru allir á fullu að þrífa eftir hverja sýningu en blóðið fer út um allt á sviðinu og á leikmuni. En það er partur af þessu.“

Macbeth er jólasýning Þjóðleikhússins í leikstjórn Benedicts Andrews og með aðalhlutverk fara Björn Thors, Margrét Vilhjálmsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Hilmir Snær Guðnason og Arnar Jónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.