Erlent

Minningarmyndband um kærustu Oscar Pistorius

Reevu Steenkamp, kærustu Oscar Pistorius sem lét lífið af völdum skotsára á föstudag, var minnst í mínútulöngu myndbandi í upphafi raunveruleikaþáttar í Suður-Afríku á laugardagskvöld.

Um var að ræða fyrsta þáttinn í raunveruleikaþáttunum Tropika Island of Treasure en Steenkamp var meðal keppenda í þættinum. Óvissa ríkti á föstudag hvort þáttunum yrði frestað vegna morðsins á Steenkamp. Framleiðendur ákváðu þó að fyrsti þátturinn færi í sýningu á laugardagskvöldið samkvæmt áætlun.

Í þættinum, sem teknir voru upp á Jamaíka, glíma keppendur við ýmsar þrautir en reglulega eru keppendur sendir heim. Steenkamp heltist úr lestinni í þættinum á einhverjum tímapunkti því í minningarmyndbandinu segir hún:

„Það skiptir öllu máli hvernig þú kveður. Annaðhvort hefurðu látið til þín taka á jákvæðan eða neikvæðan máta."

Oscar Pistorius hefur verið ákærður fyrir morðið á Steenkamp. Þau höfðu verið kærustupar í um tvo mánuði þegar Steenkamp lést á föstudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×