Innlent

Illugi óánægður með fylgislækkun Sjálfstæðisflokksins

Illugi Gunnarsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að flokkurinn þurfi að ná að kynna stefnumál sín betur.
Illugi Gunnarsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að flokkurinn þurfi að ná að kynna stefnumál sín betur. Mynd/ GVA.
„Ég er auðvitað ekkert ánægður með það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli lækka í fylgi," segir Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ný könnun sem birtist í morgun bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé einungis með 29% fylgi. Framsóknarflokkurinn sé með 26,1% fylgi en aðrir flokkar með minna.

„Við höfum séð það að allt frá því að Icesave-dómurinn féll þá hefur komið mikið rót á fylgi flokkanna. Framsóknarflokkurinn hækkar töluvert og ég auðvitað bara óska þeim til hamingju með það, en við eigum mikið inni," segir Illugi. Hann segir að fylgi flokksins, samkvæmt könnunum, hafi lítið breyst frá því fyrir landsfund flokksins sem haldinn var um helgina.

Illugi segist sannfærður um að fylgi Sjálfstæðisflokksins muni aukast þegar flokkurinn fer að kynna þá stefnu sem var mótuð á síðasta landsfundi. „Og þá vek ég sérstaklega á aðgerðum til þess að draga úr verðtryggingu þannig að einungis þeir sem vilja taka verðtryggð lán, en allir eigi möguleika á öðrum raunhæfum valkosti," segir Illugi. Hins vegar sé um að ræða aðgerðir til að hjálpa yfirskuldsettum heimilum landsins. „Ég tel að þegar þetta komi fram þá munum við njóta þess og að það muni gerast á allra næstu vikum," segir Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×