Starfskjör bankastjóra Landsbankans og helstu stjórnenda skulu vera samkeppnishæf við kjör stjórnenda í stærri fyrirtækjum og á fjármálamarkaði, en þó ekki leiðandi. Þetta kemur fram í nýrri starfskjarastefnu Landsbanka Íslands sem samþykkt var á aðalfundi bankans í dag.
Í samþykktri starfskjarastefnu kemur einnig fram að samkvæmt samningi Landsbankans hf og LBI, þrotabús gamla Landsbankans, frá 15. desember 2009 sé kveðið á um að Landsbankinn komi á árangurstengdu launakerfi fyrir starfsmenn. Kerfið skuli vera í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins um slík kerfi hjá fjármálafyrirtækjum. Tillögur að slíku kerfi og tilheyrandi breytingm á starfskjarastefnu skulu lagðar fyrir sérstakan hluthafarfund. Fram að því er bankaráði ekki heimilt að samþykkja slíkt kerfi.
Um laun Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, hefur töluvert verið rætt að undanförnu. Vegna laga um kjararáð, sem sett voru eftir bankahrun, og kváðu á um að þeir sem undir ráðið heyrðu skyldu ekki vera með hærri laun en forsætisráðherra hefur Steinþór verið með lægri laun en forstjóri Íslandsbanka og Arion banka.
Steinþór sagði sjálfur við Klinkið, hér á Vísi í lok árs 2011, að hann teldi laun sín ekki samkeppnishæf. Hann sagðist vonast til þess að lögum yrði breytt svo Kjararáð geti ekki bundið hendur stjórnar bankans. Í árshlutauppgjöri Landsbankans sem birtist í september kemur fram að stjórn bankans hafi af því miklar áhyggjur að laun bankastjórans séu ekki samkeppnishæf.
Viðskipti innlent