Innlent

Gerir ráð fyrir að stjórnarmyndun hefjist í dag

Bjarni á fundinum á Bessastöðum.
Bjarni á fundinum á Bessastöðum. Mynd/ LVP
„Það eru engar alvöru viðræður hafnar á milli flokka, en ég er þeirra skoðunar að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ættu að setja kraft í viðræður sín á milli og ég geri ráð fyrir því að það gerist í dag. Aðrir hafa ekki verið í myndinni,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins eftir fund hans með Ólafi Ragnari Grímssyni þar sem þeir ræddu saman í einn og hálfan tíma.

Bjarni sagði að á fundinum hefði verið farið vítt og breytt yfir stöðu mála og að forsetinn hefði talað um mikilvægi þess að flokkar með skýra stefnu næðu saman.

Aðspurður hversu langan tíma hann gerði ráð fyrir að samningaviðræður við Framsóknarflokkinn tækju sagði hann að þær ættu ekki að taka meira en eina til tvær vikur.

Hann sagði ekki mikinn mun á málefnum flokkanna.

Spurður um umdeild loforð Framsóknarflokksins varðandi skuldamál heimilanna svaraði Bjarni því til að það hefði verið eitt af stóru stefnumálum Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar að leggja áherslu á aðgerðir fyrir skuldsett heimili.

„En auðvitað skiptir máli hvernig við nálgumst það máli og leysum það á endanum,“ sagði Bjarni og bætti við að það væri bara eitt af því sem þyrfti að leysa.

Næst kemur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fund forsetans, en sá fundur hefst klukkan 13:30.

Hér má lesa meira um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×