Í þágu almennings ekki sérhagsmuna Þorbjörn Þórðarson skrifar 27. maí 2013 15:59 Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er æði loftkenndur og hefði mátt stytta hann um helming (5 bls. ) án þess að raska efnislegu inntaki. Ég lýsti þessari skoðun við formann Sjálfstæðisflokksins sama dag og ný stjórn var kynnt undir sterkum þjóðernisblæ á Laugarvatni. Engum vafa er undirorpið að Framsókn leiðir núverandi ríkisstjórn í orði og á borði þrátt fyrir að vera með færri ráðherra. Öll kynning á samstarfi flokkanna bar þess glögglega merki, bæði efni og yfirbragð kynningar á samstarfinu voru undir rótsterkum kennileitum og gildum Framsóknarflokksins. Það eitt og sér skiptir ekki máli. Það sem skiptir hins vegar máli er það sem stendur í sáttmálanum, eftir að loftið hefur verið vinsað út. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins deilir skoðun um loftkenndan sáttmála, sbr. Reykjavíkurbréf um helgina, en loftkenndur sáttmáli er út af fyrir sig ekki af illri rót runninn ef það sem efnislega á hönd er festandi er samfélaginu til góðs.Málefni sveitarfélagaÝmislegt í sáttmálanum er frelsisaukandi. Þar má nefna ákvörðun um að setja lög til að afnema gólf um útsvar sveitarfélaga. Þessi innbyggði jöfnuður í lögunum þjónar ekki tilgangi, fljótt á litið, og eðlilegt að sveitarfélög keppi sín á milli með því að laða til sín fólk með það fyrir augum að eflast. Einn liður í því er frelsi við lækkun útsvars. Það sem stendur hins vegar ekki í sáttmálanum er mikilvægi þess að ríkisstjórnin hafi á því skoðun hvort æskilegt sé að auka hagræði í stjórnsýslunni með frekari sameiningum sveitarfélaga. Í þessu samhengi er það í besta falli til þess að æra óstöðugan, en í versta falli fráleitt, að jafn mörg sveitarfélög séu rekin um grunnþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, svo dæmi sé tekið. Það hlýtur að vera langtímamarkmið skynsamlega þenkjandi stjórnmálamanna að þessi sveitarfélög sameinist. Fáir stjórnmálamenn á sveitarstjórnarstiginu hafa lýst þessari skoðun. Það er ekki skrýtið enda myndi slík stefna raungerast í því að þeir misstu flestir vinnuna, sem er af hinu góða. Ríkisstjórnin getur haft á því skoðun þrátt fyrir að sjálfstæði sveitarfélaga sé rótfest í stjórnarskránni. Sveitarfélögin sjálf þurfa að ræða þetta sín á milli, í ljósi áðurnefnds sjálfstæðis, en oddviti ríkisstjórnarinnar gæti liðkað fyrir málum með útsjónarsemi og aðgerðum sem gera slíka sameiningu eftirsóknarverða.Sérhagsmunir og almannahagsmunirMargir hafa haft áhyggjur af því að ný ríkisstjórn muni ekki draga lærdóm af sögunni og fara aftur í sama farið. Að verja sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna. Standa vörð um úr sér gengið og niðurgreitt landbúnaðarkerfi í stað þess að tryggja almannahagsmuni, hag neytenda. Að tryggja hagsmuni fárra á kostnað allra er sérhagsmunagæsla. Núverandi landbúnaðarkerfi er í eðli sínu ein birtingarmynd sérhagsmunagæslu, þótt grænum stjórnmálamönnum með landbúnaðartengingar sé tamt að beisla hugtök á borð við „matvælaöryggi.“ Engin rök hafa komið fram um að aukin hagkvæmni og fráhvarf frá niðurgreiðslum í landbúnaði verði á kostnað matvælaöryggis í landinu. Í stjórnarsáttmála segir: „Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar.“ Síðan tekur við kafli um eflingu íslensks landbúnaðar, en ekkert um hvernig megi auka hagkvæmni í greininni og hverfa frá núverandi fyrirkomulagi ríkisstyrkja og niðurgreiðslu. Landbúnaðarkerfið í núverandi mynd þjónar ekki almannahagsmunum, því almenningur greiðir með kerfinu. Það er því í reynd sérhagsmunakerfi af fornri rót. Miðað við hvernig stjórnarsáttmálinn er orðaður má draga þá ályktun að bændur séu settir skör framar neytendum hjá nýrri ríkisstjórn. Það er miður. Það kemur hins vegar ekki sérstaklega á óvart í ljósi sögu þessara stjórnarflokka. Síðasta ríkisstjórn hafði fjögur ár til að ráðast í breytingar á landbúnaðarkerfinu en gerði efnislega ekkert. Annar samstarfsflokkurinn, Samfylkingin, vildi ekkert gera því hann telur lausnina felast í aðild að Evrópusambandinu, sem á ekki upp á pallborð hjá þjóðinni. Hinn flokkurinn, VG, var í sömu sérhagsmunagæslunni og núverandi stjórnarflokkar. Annað sem lýtur að áðurnefndri hagsmunagæslu snýr að veiðigjöldum. Almenn samstaða virðist vera um almenna veiðigjaldið í sjávarútvegi, en hið sérstaka veiðigjald sem sumir sérhagsmunagæslumenn í landinu hafa ranglega nefnt „hernað gegn þjóðinni,“ er umdeildara. Ég spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að þessu í Íslandi í dag, í beinni útsendingu nokkrum klukkustundum eftir að hann fékk lyklavöld í stjórnarráðshúsinu. Svar forsætisráðherra var eftirfarandi: „Eins og kemur fram í stjórnarsáttmála þá verður áframhaldandi gjalddtaka en munurinn verður sá að gjaldtakan verður til þess fallin að halda litlum og meðalstórum sjávarútvegsfyrirtækjum gangandi. Stóri gallinn við sérstaka veiðigjaldið, eins og það var útfært, var að það ýtti undir samþjöppun í greininni. Það voru í rauninni bara stærstu fyrirtækin sem gátu lifað af við þessar aðstæður og þau litlu og meðalstóru hefðu bara haldið áfram að renna inn í þau ef ekkert yrði að gert. Þess vegna leggjum við upp með gjaldtöku út frá hagnaði. Leggja sérstakt gjald á hagnað sjávarútvegsfyrirtækja og auðvitað er það sérstakur skattur á eina atvinnugrein, en við teljum það réttlætanlegt vegna aðgangsins að takmarkaðri auðlind.“Sp. Þá blasir við nýtt vandamál sem fráfarandi ríkisstjórn vissi af þegar þau voru að leggja á þetta sérstaka veiðigjald. Þess vegna var það látið miðast við krónur á hvert þorskígildiskíló, fremur en að taka mið af hagnaði, vegna þess að það er mjög auðvelt með nútíma reikningsskilaæfingum, samkvæmt þeim stöðlum sem gilda um reikningsskil í ársreikningum, að komast framhjá sérstöku veiðigjaldi ef það er tekið mið af hagnaði. Þá drepurðu bara hagnaðinn með rekstrarkostnaði. Forsætisráðherra svaraði: „Þú ert að tala um hluti eins og að fyrirtæki gætu ákveðið að afskrifa hraðar eða eitthvað slíkt. (...) Þú tekur ekki peninga út úr fyrirtæki öðruvísi en að það sé hagnaður. Og þá greiðir þú af því skatt. Það er hins vegar ekkert að því að hafa hvata til þess að sjávarútvegsfyrirtæki, rétt eins og önnur fyrirtæki, fjárfesti. Það er bara mjög jákvætt og í rauninni nauðsynlegt að sú atvinnugrein fari að fjárfesta miklu meira en hún hefur gert á undanförnum árum. Til þess að skapa störf, ekki aðeins fyrir þá sem starfa í greininni sjálfri heldur í öllum þeim fyrirtækjum sem eru að þjónusta greinina. Hugbúnaðarfyrirtækjum, verkfræðifyrirtækjum o.s.frv.“ Sigmundur Davíð sagði að álagning sérstaks veiðigjalds mætti ekki snúast upp í andhverfu sína. Þannig að sérstaka veiðigjaldið myndi skemma atvinnugreinina með þeim hætti að hún yrði baggi á samfélaginu. Forsætisráðherra nefndi það ástand sem þekktist hér áður en núverandi kvótakerfi var komið á. Það má taka undir þessar áhyggjur ráðherrans, en það má hins vegar einnig til sanns vegar færa að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna verða að vanda sig þegar kemur að breytingum á sérstaka veiðigjaldinu. Því í ljósi framangreinds er auðvelt að gera það tilgangslaust ef það á eingöngu að taka mið af hagnaði. Ef síðarnefnda leiðin verður farin verður að skerpa á löggjöf þannig að útgerðarfyrirtæki með klóka endurskoðendur geti ekki komið sér undan því. Helguvík og eðlileg arðsemi í raforkusöluÞrátt fyrir að ný ríkisstjórn sé að ganga í gegnum hveitibrauðsdaga má strax finna ákveðnar vísbendingar um þversagnir milli orða og athafna forystumanna flokkanna, eða réttara sagt orða og orða. Ríkisstjórnin vill beita sér fyrir því að „klára Helguvík.“ Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að til greina kæmi að Landsvirkjun útvegaði orku í verkefnið. Sem er athyglisvert því ekki hafa tekist samningar milli HS Orku og Norðuráls um orkuverð og öflun. HS Orka hefur ekki getað gengið frá samningi um orkusölu við Norðurál um afhendingu á 150 MW. Ástæðan er sú að ýmis lykilskilyrði í samningi þessara aðila frá 23. apríl 2007 hafa ekki verið uppfyllt svo sem skilyrði um lágmarks arðsemi, o.fl. Af hverju ætti ríkisvaldið að grípa inn í samninga fyrirtækja á frjálsum markaði? Eða öllu heldur, hvers vegna ætti Landsvirkjun að sætta sig við lægra orkuverð en HS Orka? Ein besta ákvörðun síðustu ríkisstjórnar var að breyta um stefnu hjá Landsvirkjun, ráða alvöru forstjóra en ekki flokkshest með réttu pólitísku tengslin í forstjórastólinn og markaði nýja stefnu á þeim grunni að arðsemi í þágu samfélagsins alls yrði í forgrunni við ákvarðanatöku. Ef það er svona arðbært fyrir Landsvirkjun að útvega orku fyrir Helguvíkurverkefnið, af hverju hefur ekkert heyrst af þeim áhuga frá stjórnendum fyrirtækisins? Nú fyrst, þegar ný ríkisstjórn tekur við, stíga forystumenn flokkanna fram og reifa hugmyndir í þessa veru. Var ekki búið að kveða slík afskipti í kútinn með nýrri stefnu Landsvirkjunar? Ef ríkisstjórninni er annt um almannahagsmuni, ekki tímabundinn ávinning af fjölgun starfa sem fylgir byggingu álvers sem frjáls fyrirtæki geta ekki komið sér saman um, þá lætur hún ekki Landsvirkjun niðurgreiða raforku til þessa verkefnis. Hún eftirlætur jafnframt stjórn Landsvirkjunar og forstjóra fyrirtækisins að marka stefnu þess og virðir þá stefnu. Í slíkri virðingu felst vernd almannahagsmuna. Reykjanesbær tók þá glórulausu ákvörðun að ráðast í meiriháttar framkvæmdir vegna verkefnis sem ekki var fast í hendi. Það er ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að skera bæjarstjórn niður úr þeirri snöru. Engu skiptir þótt sveitarfélaginu sé stýrt af öðrum þeirra flokka sem nú er í ríkisstjórn. Það felst í eðli sjálfskaparvítis að sá sem skapar það ber ábyrgð á sinni stöðu. Eða eru loforð oddvita Framsóknar og Sjálfstæðisflokks um bætt vinnubrögð í stað afturhvarfs til fortíðar aðeins hjómið eitt? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er æði loftkenndur og hefði mátt stytta hann um helming (5 bls. ) án þess að raska efnislegu inntaki. Ég lýsti þessari skoðun við formann Sjálfstæðisflokksins sama dag og ný stjórn var kynnt undir sterkum þjóðernisblæ á Laugarvatni. Engum vafa er undirorpið að Framsókn leiðir núverandi ríkisstjórn í orði og á borði þrátt fyrir að vera með færri ráðherra. Öll kynning á samstarfi flokkanna bar þess glögglega merki, bæði efni og yfirbragð kynningar á samstarfinu voru undir rótsterkum kennileitum og gildum Framsóknarflokksins. Það eitt og sér skiptir ekki máli. Það sem skiptir hins vegar máli er það sem stendur í sáttmálanum, eftir að loftið hefur verið vinsað út. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins deilir skoðun um loftkenndan sáttmála, sbr. Reykjavíkurbréf um helgina, en loftkenndur sáttmáli er út af fyrir sig ekki af illri rót runninn ef það sem efnislega á hönd er festandi er samfélaginu til góðs.Málefni sveitarfélagaÝmislegt í sáttmálanum er frelsisaukandi. Þar má nefna ákvörðun um að setja lög til að afnema gólf um útsvar sveitarfélaga. Þessi innbyggði jöfnuður í lögunum þjónar ekki tilgangi, fljótt á litið, og eðlilegt að sveitarfélög keppi sín á milli með því að laða til sín fólk með það fyrir augum að eflast. Einn liður í því er frelsi við lækkun útsvars. Það sem stendur hins vegar ekki í sáttmálanum er mikilvægi þess að ríkisstjórnin hafi á því skoðun hvort æskilegt sé að auka hagræði í stjórnsýslunni með frekari sameiningum sveitarfélaga. Í þessu samhengi er það í besta falli til þess að æra óstöðugan, en í versta falli fráleitt, að jafn mörg sveitarfélög séu rekin um grunnþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, svo dæmi sé tekið. Það hlýtur að vera langtímamarkmið skynsamlega þenkjandi stjórnmálamanna að þessi sveitarfélög sameinist. Fáir stjórnmálamenn á sveitarstjórnarstiginu hafa lýst þessari skoðun. Það er ekki skrýtið enda myndi slík stefna raungerast í því að þeir misstu flestir vinnuna, sem er af hinu góða. Ríkisstjórnin getur haft á því skoðun þrátt fyrir að sjálfstæði sveitarfélaga sé rótfest í stjórnarskránni. Sveitarfélögin sjálf þurfa að ræða þetta sín á milli, í ljósi áðurnefnds sjálfstæðis, en oddviti ríkisstjórnarinnar gæti liðkað fyrir málum með útsjónarsemi og aðgerðum sem gera slíka sameiningu eftirsóknarverða.Sérhagsmunir og almannahagsmunirMargir hafa haft áhyggjur af því að ný ríkisstjórn muni ekki draga lærdóm af sögunni og fara aftur í sama farið. Að verja sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna. Standa vörð um úr sér gengið og niðurgreitt landbúnaðarkerfi í stað þess að tryggja almannahagsmuni, hag neytenda. Að tryggja hagsmuni fárra á kostnað allra er sérhagsmunagæsla. Núverandi landbúnaðarkerfi er í eðli sínu ein birtingarmynd sérhagsmunagæslu, þótt grænum stjórnmálamönnum með landbúnaðartengingar sé tamt að beisla hugtök á borð við „matvælaöryggi.“ Engin rök hafa komið fram um að aukin hagkvæmni og fráhvarf frá niðurgreiðslum í landbúnaði verði á kostnað matvælaöryggis í landinu. Í stjórnarsáttmála segir: „Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar.“ Síðan tekur við kafli um eflingu íslensks landbúnaðar, en ekkert um hvernig megi auka hagkvæmni í greininni og hverfa frá núverandi fyrirkomulagi ríkisstyrkja og niðurgreiðslu. Landbúnaðarkerfið í núverandi mynd þjónar ekki almannahagsmunum, því almenningur greiðir með kerfinu. Það er því í reynd sérhagsmunakerfi af fornri rót. Miðað við hvernig stjórnarsáttmálinn er orðaður má draga þá ályktun að bændur séu settir skör framar neytendum hjá nýrri ríkisstjórn. Það er miður. Það kemur hins vegar ekki sérstaklega á óvart í ljósi sögu þessara stjórnarflokka. Síðasta ríkisstjórn hafði fjögur ár til að ráðast í breytingar á landbúnaðarkerfinu en gerði efnislega ekkert. Annar samstarfsflokkurinn, Samfylkingin, vildi ekkert gera því hann telur lausnina felast í aðild að Evrópusambandinu, sem á ekki upp á pallborð hjá þjóðinni. Hinn flokkurinn, VG, var í sömu sérhagsmunagæslunni og núverandi stjórnarflokkar. Annað sem lýtur að áðurnefndri hagsmunagæslu snýr að veiðigjöldum. Almenn samstaða virðist vera um almenna veiðigjaldið í sjávarútvegi, en hið sérstaka veiðigjald sem sumir sérhagsmunagæslumenn í landinu hafa ranglega nefnt „hernað gegn þjóðinni,“ er umdeildara. Ég spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að þessu í Íslandi í dag, í beinni útsendingu nokkrum klukkustundum eftir að hann fékk lyklavöld í stjórnarráðshúsinu. Svar forsætisráðherra var eftirfarandi: „Eins og kemur fram í stjórnarsáttmála þá verður áframhaldandi gjalddtaka en munurinn verður sá að gjaldtakan verður til þess fallin að halda litlum og meðalstórum sjávarútvegsfyrirtækjum gangandi. Stóri gallinn við sérstaka veiðigjaldið, eins og það var útfært, var að það ýtti undir samþjöppun í greininni. Það voru í rauninni bara stærstu fyrirtækin sem gátu lifað af við þessar aðstæður og þau litlu og meðalstóru hefðu bara haldið áfram að renna inn í þau ef ekkert yrði að gert. Þess vegna leggjum við upp með gjaldtöku út frá hagnaði. Leggja sérstakt gjald á hagnað sjávarútvegsfyrirtækja og auðvitað er það sérstakur skattur á eina atvinnugrein, en við teljum það réttlætanlegt vegna aðgangsins að takmarkaðri auðlind.“Sp. Þá blasir við nýtt vandamál sem fráfarandi ríkisstjórn vissi af þegar þau voru að leggja á þetta sérstaka veiðigjald. Þess vegna var það látið miðast við krónur á hvert þorskígildiskíló, fremur en að taka mið af hagnaði, vegna þess að það er mjög auðvelt með nútíma reikningsskilaæfingum, samkvæmt þeim stöðlum sem gilda um reikningsskil í ársreikningum, að komast framhjá sérstöku veiðigjaldi ef það er tekið mið af hagnaði. Þá drepurðu bara hagnaðinn með rekstrarkostnaði. Forsætisráðherra svaraði: „Þú ert að tala um hluti eins og að fyrirtæki gætu ákveðið að afskrifa hraðar eða eitthvað slíkt. (...) Þú tekur ekki peninga út úr fyrirtæki öðruvísi en að það sé hagnaður. Og þá greiðir þú af því skatt. Það er hins vegar ekkert að því að hafa hvata til þess að sjávarútvegsfyrirtæki, rétt eins og önnur fyrirtæki, fjárfesti. Það er bara mjög jákvætt og í rauninni nauðsynlegt að sú atvinnugrein fari að fjárfesta miklu meira en hún hefur gert á undanförnum árum. Til þess að skapa störf, ekki aðeins fyrir þá sem starfa í greininni sjálfri heldur í öllum þeim fyrirtækjum sem eru að þjónusta greinina. Hugbúnaðarfyrirtækjum, verkfræðifyrirtækjum o.s.frv.“ Sigmundur Davíð sagði að álagning sérstaks veiðigjalds mætti ekki snúast upp í andhverfu sína. Þannig að sérstaka veiðigjaldið myndi skemma atvinnugreinina með þeim hætti að hún yrði baggi á samfélaginu. Forsætisráðherra nefndi það ástand sem þekktist hér áður en núverandi kvótakerfi var komið á. Það má taka undir þessar áhyggjur ráðherrans, en það má hins vegar einnig til sanns vegar færa að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna verða að vanda sig þegar kemur að breytingum á sérstaka veiðigjaldinu. Því í ljósi framangreinds er auðvelt að gera það tilgangslaust ef það á eingöngu að taka mið af hagnaði. Ef síðarnefnda leiðin verður farin verður að skerpa á löggjöf þannig að útgerðarfyrirtæki með klóka endurskoðendur geti ekki komið sér undan því. Helguvík og eðlileg arðsemi í raforkusöluÞrátt fyrir að ný ríkisstjórn sé að ganga í gegnum hveitibrauðsdaga má strax finna ákveðnar vísbendingar um þversagnir milli orða og athafna forystumanna flokkanna, eða réttara sagt orða og orða. Ríkisstjórnin vill beita sér fyrir því að „klára Helguvík.“ Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að til greina kæmi að Landsvirkjun útvegaði orku í verkefnið. Sem er athyglisvert því ekki hafa tekist samningar milli HS Orku og Norðuráls um orkuverð og öflun. HS Orka hefur ekki getað gengið frá samningi um orkusölu við Norðurál um afhendingu á 150 MW. Ástæðan er sú að ýmis lykilskilyrði í samningi þessara aðila frá 23. apríl 2007 hafa ekki verið uppfyllt svo sem skilyrði um lágmarks arðsemi, o.fl. Af hverju ætti ríkisvaldið að grípa inn í samninga fyrirtækja á frjálsum markaði? Eða öllu heldur, hvers vegna ætti Landsvirkjun að sætta sig við lægra orkuverð en HS Orka? Ein besta ákvörðun síðustu ríkisstjórnar var að breyta um stefnu hjá Landsvirkjun, ráða alvöru forstjóra en ekki flokkshest með réttu pólitísku tengslin í forstjórastólinn og markaði nýja stefnu á þeim grunni að arðsemi í þágu samfélagsins alls yrði í forgrunni við ákvarðanatöku. Ef það er svona arðbært fyrir Landsvirkjun að útvega orku fyrir Helguvíkurverkefnið, af hverju hefur ekkert heyrst af þeim áhuga frá stjórnendum fyrirtækisins? Nú fyrst, þegar ný ríkisstjórn tekur við, stíga forystumenn flokkanna fram og reifa hugmyndir í þessa veru. Var ekki búið að kveða slík afskipti í kútinn með nýrri stefnu Landsvirkjunar? Ef ríkisstjórninni er annt um almannahagsmuni, ekki tímabundinn ávinning af fjölgun starfa sem fylgir byggingu álvers sem frjáls fyrirtæki geta ekki komið sér saman um, þá lætur hún ekki Landsvirkjun niðurgreiða raforku til þessa verkefnis. Hún eftirlætur jafnframt stjórn Landsvirkjunar og forstjóra fyrirtækisins að marka stefnu þess og virðir þá stefnu. Í slíkri virðingu felst vernd almannahagsmuna. Reykjanesbær tók þá glórulausu ákvörðun að ráðast í meiriháttar framkvæmdir vegna verkefnis sem ekki var fast í hendi. Það er ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að skera bæjarstjórn niður úr þeirri snöru. Engu skiptir þótt sveitarfélaginu sé stýrt af öðrum þeirra flokka sem nú er í ríkisstjórn. Það felst í eðli sjálfskaparvítis að sá sem skapar það ber ábyrgð á sinni stöðu. Eða eru loforð oddvita Framsóknar og Sjálfstæðisflokks um bætt vinnubrögð í stað afturhvarfs til fortíðar aðeins hjómið eitt?
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun