Menning

Jóhann Sigurðarson orðinn "Stefaníubarn“

Jóhann Sigurðarson
Jóhann Sigurðarson Vísir/Anton Brink
Leikarinn Jóhann Sigurðarson hlýtur viðurkenningu Minningarsjóðs frú Stefaníu Guðmundsdóttur þetta árið.

Stefanía Borg, formaður stjórnar minningarsjóðsins, og Þorsteinn Gunnarsson leikari og stjórnarmeðlimur, sáu um að kynna og afhenda Jóhanni styrkinn og Stefaníustjakann við hátíðlega athöfn á Litla sviði Borgarleikhússins strax að lokinni síðustu sýningu verksins Rautt, í gærkvöldi.

Jóhann fer með aðalhlutverkið í Rautt og hlaut fyrir frammistöðu sína tilnefningu til Grímuverðlauna 2013 sem leikari ársins.  

Stjórn Minningarsjóðs frú Stefaníu Guðmundsdóttur samþykkti samhljóma að heiðra Jóhann í ár fyrir störf hans sem leikari.

Minningarsjóður frú Stefaníu Guðmundsdóttur var stofnaður árið 1938 af hjónunum Önnu Borg og Poul Reumert og hefur því verið starfræktur í 75 ár. Fyrsta styrkveitingin fór fram árið 1970 og styrkþegar eða „Stefaníubörn“ eru nú alls 41 talsins að meðtöldum Jóhanni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×