Innlent

Mjölnismenn sluppu með skrekkinn eftir bílveltu

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
„Gunni fékk tvo skurði á hendina og ég fékk glerbrot í augað, smá rispu á hornhimnuna, en við sluppum alveg fáránlega vel,“ segir Þráinn Kolbeinsson, sem var í bílnum sem fór þrjár veltur af Þjórsárdalsvegi í Gnúpverjahreppi í gær.

Þráinn og Gunnar Nelson, bardagakappinn góðkunni, voru ásamt tveimur öðrum félögum sínum á leiðinni í óvissuferð Mjölnis þegar óhappið varð. „Það kom bara allt í einu hálka. Við vorum samferða öðrum bíl sem keyrði á undan okkur. Þeir ákváðu að hringja til að láta okkur vita að þetta væri eiginlega vonlaust. Svo þegar þeir líta í baksýnisspegilinn þá sjá þeir bara hvar við fljúgum út af Þjórsármegin,“ segir Þráinn.

Hann segir mikil mildi að bíllinn hafi ekki hafnað ofan í ánni. „Bíllinn stoppaði sem betur fer á dekkjunum, einhvern meter frá ánni.“

Strákarnir skelltu sér í óvissuferð Mjölnis eftir aðhlynninguna.
Strákarnir létu óhappið þó ekki stöðva sig og héldu ferð sinni áfram eftir aðhlynningu á Selfossi. „Við stoppuðum aðeins á Selfossi og náðum andanum en héldum svo bara áfram. Við létum þetta ekkert stöðva óvissuferðina,“ segir Þráinn og hlær. „Við náðum í skottið á þeim í Hveragerði, þangað voru allir mættir í bjórskóla.“

Þráinn birti þessa mynd á Instagram í gær en þar má sjá beygjuna þar sem bíllinn valt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×