Menning

Magnolia-fyrirtækið kaupir Prince Avalanche

Freyr Bjarnason skrifar
David Gordon Green, Paul Rudd og Emile Hirsch á Sundance-hátíðinni.
nordicphotos/getty
David Gordon Green, Paul Rudd og Emile Hirsch á Sundance-hátíðinni. nordicphotos/getty
Prince Avalanche, endurgerð myndarinnar Á annan veg, virðist hafa hitt í mark á Sundance-hátíðinni því dreifingarfyrirtækið Magnolia Pictures hefur tryggt sér réttinn á myndinni í Norður-Ameríku.

„Við erum öll miklir aðdáendur Davids Gordons Green og hefur lengi dreymt um að starfa með honum," sagði talsmaður Magnolia við Variety um leikstjóra myndarinnar. „Prince Avalanche er ótrúlega snjöll, fyndin, hlýleg og áhugaverð mynd með frábærum leik hjá Paul Rudd og Emile Hirsch."

Green var einnig ánægður með samninginn: „Það var öðruvísi og skemmtilegt að búa til Prince Avalanche og viðbrögð áhorfenda hafa verið yndisleg. Ánægjan heldur áfram með samningnum við Magnolia um að dreifa myndinni. Ég gæti ekki verið stoltari."

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri Á annan veg, sá Prince Avalanche í fyrsta sinn á Sundance og var mjög ánægður. „Hún er mjög trú upprunalegu myndinni en stendur þó algjörlega sem sjálfstætt verk. Það var skrítið en skemmtilegt að sjá þessa útgáfu. Leikstjórinn og leikararnir eru fínir strákar sem báru mikla virðingu fyrir frumgerðinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×