Nýr bókmenntapáfi Guðmundur Andri Thorsson skrifar 28. janúar 2013 06:00 Árlega birtast í blöðum og netmiðlum myndir af listamönnum sem hlotið hafa úthlutun úr launasjóðum á vegum ríkisins. Þessar myndbirtingar vekja hugrenningatengsl við myndir af sakborningum í fjársvikamálum. Okkur er ætlað að horfa á þessi andlit og hugsa um það hvílíkir loddarar þau séu – hversu auðveldlega þau komist yfir almannafé. Okkur er ætlað að hugsa: Af hverju þau? Okkur er ætlað að hugsa: Aha! Klíka!Af hverju bara listamenn? Eða hvers vegna að birta myndir af því fólki sem þiggur laun úr almannasjóðum til að skapa list fremur en ýmsum öðrum sem njóta framlaga úr opinberum sjóðum? Hví ekki að birta myndir af öllum þeim sem hljóta styrki úr nýsköpunarsjóðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs og rannsóknasjóðum með tilheyrandi vangaveltum um verðuga og óverðuga? Af hverju ekki að birta myndir af læknum sem fá til sín heimsóknir sjúklinga niðurgreiddar af ríkinu, með tilheyrandi pælingum um erindi og erindisleysu? Væri ekki tilvalið að birta myndir af bændum sem fá til sín framleiðslutengdar beingreiðslur, og láta þá fylgja bollalengingar ófróðra um sanna bændur og ósanna? Af hverju bara listamenn? Um það ríkir nokkur sátt í samfélaginu að það þurfi á listum að halda, vegna þess að það er svo ótalmargt sem listirnar færa okkur sem engin önnur iðja gerir. Markaðstrúarmenn telja að vísu að eftirláta eigi hinum óskeikula og guðlega markaði að skilja sauðina frá höfrunum – en til allrar hamingju eru þeir í miklum minnihluta og hafa lítil áhrif, nema þá helst inni á téðum fjölmiðlum þar sem þeir stökkva ævinlega til og birta sakamannamyndir af því fólki sem unnið hefur það sér til óhelgi að hljóta listamannalaun. Flest fólk áttar sig hins vegar á hinu: að til þess að samfélagið fái notið listar verða listamenn að vera til. Og til að svo megi verða þurfa þeir að lifa, þó að mörgum finnist þá fyrst eitthvað í þá varið þegar þeir eru dauðir. Til þess að meta hverjir eigi að njóta þessara launa höfum við sérstakar úthlutunarnefndir þar sem situr fólk sem talið er hafa sérþekkingu á viðkomandi listgrein. Að sjálfsögðu eru úthlutunarnefndir þessara launa ekki óskeikular og eflaust hægt að nefna ótal dæmi um það hversu misvitrar þær séu. En svona virkar þetta og vandséð hvernig það má öðruvísi vera í nútímasamfélagi þar sem reynt er að koma í veg fyrir klíkuskap og frændhygli af fremsta megni.Daðason með dylgjur fer Sum sé: Ásmundur Einar Daðason var með dylgjur. Innblásinn af fréttum úr safnaðartíðindum markaðstrúarmanna, Viðskiptablaðinu, kvaðst hann á bloggi sínu vera hugsi yfir því að makar ráðherra hefðu fengið laun úr rithöfundasjóði. Um er að ræða Jónínu Leósdóttur og Bjarna Bjarnason. Ásmundur taldi úthlutun til þessara rithöfunda til marks um undarlega forgangsröðum ríkisstjórnarinnar, og gaf þar með til kynna að ákvörðun um þessar greiðslur hefði einhvern veginn ratað inn á ríkisstjórnarfundi, og virtist ekki hvarfla að honum að ef til vill hefðu þau Jónína og Bjarni eitthvað gert sjálf til að verðskulda slík laun. Jónína hefur um árabil verið í fremstu röð þeirra höfunda sem skrifa fyrir unglinga, þótt hún hafi líka skrifað bækur sem ætlaðar eru eldri lesendum, leikrit og ljóð. Hún hefur verið sérstaklega fundvís á viðkvæm og vandmeðfarin – og mikilvæg – efni en haft lag á að skrifa um þau af nærgætni og húmor. Bjarni Bjarnason hefur stundað ritstörf frá árinu 1989, skrifað skáldsögur, ljóð, smásögur, greinar. Hann nýtur mikillar virðingar meðal þeirra fjölmörgu sem fylgjast með íslenskum bókmenntum og hefur unnið til ýmissa viðurkenninga, fengið verðlaun og tilnefningar. Bækur hans eru ólíkar bókum annarra; fantasíur en um leið mjög jarðbundnar, fullar af heimspekilegum, trúarlegum og tilvistarlegum pælingum? Sem sé virtur og þekktur höfundur þótt Ásmundur Einar Daðason hafi aldrei heyrt hans getið. Kannski veit Ásmundur Einar ekkert um bókmenntir þó að hann telji sig þess umkominn að tjá sig um þær af því að hann er alltaf að lesa um það í Morgunblaðinu hversu gáfaður hann sé. Og kannski er þetta er bara illgjarnt slaður, til þess að gera lítið úr öðru fólki og koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það má einu gilda. Því þetta er umfram allt heimild um Ásmund Einar Daðason og hugsunarhátt hans. Og næst þegar hann tekur til máls og fer að dylgja og atyrða og lasta – um Evrópusambandið eða gamla félaga í VG – er ágætt fyrir fólk að hafa í huga þetta dæmi um það hvernig hann vinnur úr þeim upplýsingum sem hann aflar sér – og neitar sér um. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Árlega birtast í blöðum og netmiðlum myndir af listamönnum sem hlotið hafa úthlutun úr launasjóðum á vegum ríkisins. Þessar myndbirtingar vekja hugrenningatengsl við myndir af sakborningum í fjársvikamálum. Okkur er ætlað að horfa á þessi andlit og hugsa um það hvílíkir loddarar þau séu – hversu auðveldlega þau komist yfir almannafé. Okkur er ætlað að hugsa: Af hverju þau? Okkur er ætlað að hugsa: Aha! Klíka!Af hverju bara listamenn? Eða hvers vegna að birta myndir af því fólki sem þiggur laun úr almannasjóðum til að skapa list fremur en ýmsum öðrum sem njóta framlaga úr opinberum sjóðum? Hví ekki að birta myndir af öllum þeim sem hljóta styrki úr nýsköpunarsjóðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs og rannsóknasjóðum með tilheyrandi vangaveltum um verðuga og óverðuga? Af hverju ekki að birta myndir af læknum sem fá til sín heimsóknir sjúklinga niðurgreiddar af ríkinu, með tilheyrandi pælingum um erindi og erindisleysu? Væri ekki tilvalið að birta myndir af bændum sem fá til sín framleiðslutengdar beingreiðslur, og láta þá fylgja bollalengingar ófróðra um sanna bændur og ósanna? Af hverju bara listamenn? Um það ríkir nokkur sátt í samfélaginu að það þurfi á listum að halda, vegna þess að það er svo ótalmargt sem listirnar færa okkur sem engin önnur iðja gerir. Markaðstrúarmenn telja að vísu að eftirláta eigi hinum óskeikula og guðlega markaði að skilja sauðina frá höfrunum – en til allrar hamingju eru þeir í miklum minnihluta og hafa lítil áhrif, nema þá helst inni á téðum fjölmiðlum þar sem þeir stökkva ævinlega til og birta sakamannamyndir af því fólki sem unnið hefur það sér til óhelgi að hljóta listamannalaun. Flest fólk áttar sig hins vegar á hinu: að til þess að samfélagið fái notið listar verða listamenn að vera til. Og til að svo megi verða þurfa þeir að lifa, þó að mörgum finnist þá fyrst eitthvað í þá varið þegar þeir eru dauðir. Til þess að meta hverjir eigi að njóta þessara launa höfum við sérstakar úthlutunarnefndir þar sem situr fólk sem talið er hafa sérþekkingu á viðkomandi listgrein. Að sjálfsögðu eru úthlutunarnefndir þessara launa ekki óskeikular og eflaust hægt að nefna ótal dæmi um það hversu misvitrar þær séu. En svona virkar þetta og vandséð hvernig það má öðruvísi vera í nútímasamfélagi þar sem reynt er að koma í veg fyrir klíkuskap og frændhygli af fremsta megni.Daðason með dylgjur fer Sum sé: Ásmundur Einar Daðason var með dylgjur. Innblásinn af fréttum úr safnaðartíðindum markaðstrúarmanna, Viðskiptablaðinu, kvaðst hann á bloggi sínu vera hugsi yfir því að makar ráðherra hefðu fengið laun úr rithöfundasjóði. Um er að ræða Jónínu Leósdóttur og Bjarna Bjarnason. Ásmundur taldi úthlutun til þessara rithöfunda til marks um undarlega forgangsröðum ríkisstjórnarinnar, og gaf þar með til kynna að ákvörðun um þessar greiðslur hefði einhvern veginn ratað inn á ríkisstjórnarfundi, og virtist ekki hvarfla að honum að ef til vill hefðu þau Jónína og Bjarni eitthvað gert sjálf til að verðskulda slík laun. Jónína hefur um árabil verið í fremstu röð þeirra höfunda sem skrifa fyrir unglinga, þótt hún hafi líka skrifað bækur sem ætlaðar eru eldri lesendum, leikrit og ljóð. Hún hefur verið sérstaklega fundvís á viðkvæm og vandmeðfarin – og mikilvæg – efni en haft lag á að skrifa um þau af nærgætni og húmor. Bjarni Bjarnason hefur stundað ritstörf frá árinu 1989, skrifað skáldsögur, ljóð, smásögur, greinar. Hann nýtur mikillar virðingar meðal þeirra fjölmörgu sem fylgjast með íslenskum bókmenntum og hefur unnið til ýmissa viðurkenninga, fengið verðlaun og tilnefningar. Bækur hans eru ólíkar bókum annarra; fantasíur en um leið mjög jarðbundnar, fullar af heimspekilegum, trúarlegum og tilvistarlegum pælingum? Sem sé virtur og þekktur höfundur þótt Ásmundur Einar Daðason hafi aldrei heyrt hans getið. Kannski veit Ásmundur Einar ekkert um bókmenntir þó að hann telji sig þess umkominn að tjá sig um þær af því að hann er alltaf að lesa um það í Morgunblaðinu hversu gáfaður hann sé. Og kannski er þetta er bara illgjarnt slaður, til þess að gera lítið úr öðru fólki og koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það má einu gilda. Því þetta er umfram allt heimild um Ásmund Einar Daðason og hugsunarhátt hans. Og næst þegar hann tekur til máls og fer að dylgja og atyrða og lasta – um Evrópusambandið eða gamla félaga í VG – er ágætt fyrir fólk að hafa í huga þetta dæmi um það hvernig hann vinnur úr þeim upplýsingum sem hann aflar sér – og neitar sér um.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun