Menning

Siðferðislega rangar sögur

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Þær Bergþóra Kristbergsdóttir og Júlíana Kristín Liborius Jónsdóttir eru báðar í Morfísliði Borgarholtsskóla og leikfélaginu. Mynd/Pjetur
Þær Bergþóra Kristbergsdóttir og Júlíana Kristín Liborius Jónsdóttir eru báðar í Morfísliði Borgarholtsskóla og leikfélaginu. Mynd/Pjetur
"Það er allt á fullu núna enda styttist óðum í frumsýningu," segir Bergþóra Kristbergsdóttir, formaður leikfélags Borgarholtsskóla sem frumsýnir leikritið Grimmd í Tjarnarbíó á morgun.

Verkið Grimmd er unnið upp úr þremur frekar óþekktum sögum úr Grimms-ævintýrunum; Einitréð, Handalausa mærin og Váli vélaður. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir. Um 20 leikarar eru í sýningunni en 40-50 manns úr öllum deildum skólans koma að uppsetningunni. Sögurnar þrjár eiga það sameiginlegt að vera bæði óþægilegar og siðferðislegar rangar að sögn Bergþóru. "Við fórum að skoða þessi upprunalegu Grimms-ævintýri sem er miklu hryllilegri en þær útgáfur sem við þekkjum í dag," segir Bergþóra og fullyrðir að spennan sé að magnast í skólanum fyrir frumsýninguna.

Leikfélagið hefur ekki verið virkt síðastliðin ár og segir Bergþóra að það hafi fyrst verið erfitt að ná í krakka til að taka þátt í sýningunni. Það má því segja að leikfélagið sé að rísa úr öskustónni. "Ég vona að núna séum við að leggja línuna fyrir komandi ár í skólanum og að leiklistin eigi eftir að blómstra hér eins og í öðrum skólum. Margir sem leika í sýningunni eru að stíga á svið í fyrsta sinn og hafa lagt mikið á sig til að læra listina við að leika frá grunni."

Auk þess að vera formaður leikfélagsins er Bergþóra í Morfís-liði skólans, því fyrsta í langan tíma sem einungis er skipað stúlkum. Hún viðurkennir að það taki sinn toll að vera virkur í félagslífinu. "Þetta tekur oft mikinn tíma frá skólabókunum en ég reyni að brosa fallega til kennaranna í staðinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×